Íslenskar þjóðsögur/Heimur. Teikningar: Freydís Kristjánsdóttir. F.v.: Guðmundur góði. Skugginn. Sæmundur á selnum.
Íslenskar þjóðsögur/Heimur. Teikningar: Freydís Kristjánsdóttir. F.v.: Guðmundur góði. Skugginn. Sæmundur á selnum.
Pistlar | 29. ágúst 2018 - kl. 09:05
Stökuspjall: Eg var oftast að lesa
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
Úti í Hofssókn standa bæirnir þétt suður af Króksbjarginu, en sunnan og ofan bæjahverfisins eru jarðirnar Skeggjastaðir, kirkjustaðurinn Hof og Skagabúð, félagsheimili Skagamanna sem byggt var undir aldamótin suður frá Hofi í landi Skeggjastaða. 
 
Þar í Skagabúð var nýlega minnt á þjóðsögur og safnarann Jón Árnason sem fæddist á Hofi 1819. Haldinn var bókamarkaður með gömlum bókum en þó var þar á söluborðum ný þjóðsagnabók skreytt teikningum Freydísar Kristjánsdóttur. Þar gleymdust ekki Bakkabræðrasögur, Búkolla eða sögur af Sæmundi fróða og mögnuð er myndin af honum þar sem hann sleppur úr klóm Kölska í Svartaskóla. 
 
Ný bók frá hendi Lárusar Ægis um kvenfélagið Heklu var þar líka til sölu og fleiri bækur nýjar en flestar voru þó allfornar. Bókamarkaðurinn, sem var kynntur með heitinu Jónsdagar á Skaga og stóð í fjóra daga, varð ekki síður tilefni mannfunda, sérstaklega síðasta daginn, þá var afmælisdagur Jóns Árnasonar, föstudaginn 17. ágúst. Komu þá til liðs nafnar hans tveir, Jón Björnsson reifaði kenningu sína um það hvernig Vatnsdalshólar urðu til en Jón Torfason sagði frá Hofskirkju og gripum hennar, setrinu þar sem Árni Illugason lauk prestskap sínum er hann lést 1825 frá ungum syni og þriðju konu sinni, Steinunni ljósmóður frá Harastöðum. Prestur var þá sjötugur, sem var hár aldur fyrir tveimur öldum. Sigríður Sigvaldadóttir, prestfrú í Grímstungu og ættmóðir Snæbirninga og sr. Árni voru bræðrabörn, sonabörn Halldórs prests á Húsafelli, en sr. Illugi tengdafaðir Halldórs var prestur í Grímsey í 36 ár rétt eins og Árni prestur síðar, þó ekki yrðu nema 9 ár. 
 
Ýmsar sögur geymast af mannsköðum í Grímseyjarferðum, s. s. af Árna Eyjafjarðarskáldi sem fór til Grímseyjar eftir matföngum, mátti kasta öllu fyrir borð þegar þeir hrepptu óveður á heimleiðinni, en orti þó um:
Lifi eg enn með láni stóru
liggur það í ættinni
ýsurnar hans Árna fóru
eftir fiskavættinni.
 
Hverfum aftur til nútímans og Bjarna Pálssonar póstafgreiðslumanns á Blönduósi, sem hlustaði á klið jökulelfunnar marga daga ævi sinnar og gerði rammar vísur eins og fleiri ættmenn hans:
Árið gamla er ég kveð
efst er það í sinni.
Gaman væri að geta séð
grein af framtíðinni.
 
Sigvaldi Hjálmarsson frá Skeggstöðum orti:
Bak við aftaneldsins firrð
eitthvað sálin nemur
öræfanna angurkyrrð
yfir hugann kemur.
 
Ingibjörg á Refsteinsstöðum kvað:
Draumaland þó sökkvi í sjá
sjálf í vanda standi
ekkert grandar ylnum frá 
einu handabandi.
 
Guðmundur Þ. Sigurgeirsson Drangsnesi gleymdi ekki innríminu:
Eg hef hnotið oft um stein
af því hlotið trega.
En staka hrotið ein og ein
og yljað notalega.
 
Ofangreindar vísur eru flokkaðar á Húnaflóa - vísnavef sem skáldaþankar utan Grímseyjarsundsvísa Árna Eyjafjarðarskálds. Sú vísa má minna okkur á hlutskipti þeirra er þreyðu öldina nítjándu og aðrar aldir en þurftu öllu að fórna til að verja líf sitt. 
 
Jón  Árnason bókavörður var einn þeirra sem þurfti að vaka lengur en aðrir, í fyrstu til að ná félögum sínum í Bessastaðaskóla en síðar til að hreinskrifa sögur til útgáfu í sjálfri Leipzig. Jón segir í ævisögubroti sínu:„Meðan eg var hjá Egilsen, var ég oftast heima, kynntist mjög fáum og tók ekkert þátt í bæjarlífinu, enda var ei mikið um að vera. Eg var oftast að lesa, enda hefi eg komist það sem eg hefi komist meira af iðni en gáfum." 
 
Tilvísanir:
Gamalt stökuspjall kringum Jón Árnason: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13068 
Nokkrar stuttar þjóðsögur: http://stikill.123.is/blog/2016/08/16/753120/   
 
Ingi Heiðmar Jónsson
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga