Pistlar | 29. nóvember 2018 - kl. 07:16
Eilíf ást
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Ást Guðs er kærleikur frá innstu hjarta rótum. Kærleikur sem fylgir fyrirgefning, náð og miskunn. Kærleikur sem spyr ekki endurgjald og yfirgefur ekki. Kærleikur sem fyllir okkur von, auðmýkt og þakklæti fyrir að fá að vera með.   

Kærleikur Guðs er hin fullkomna ást sem hefur heitið því að sleppa ekki af okkur hendinni heldur vaka yfir okkur, vernda og varðveita frá kyni til kyns. Kærleikur sem vill taka utan um þá særðu, þá sem hafa verið órétti beittir og kærleikur sem vill reisa upp, fyrirgefa og gefa annað tækifæri.

Enginn hefur með eigin augum litið víddir hafsins eða himinsins og því síður hins leyndardómsfulla, djúpa og varanlega en samt einfalda kærleika Guðs sem enginn skilur en allir mega þiggja meðtaka, hvíla í og njóta. 

Takmarkalaus ást og varanleg hamingja
Framrás kærleika Guðs verða engin takmörk sett, þrátt fyrir einelti, ofbeldi og stöðug vindhögg í þá veru frá þeim sem hann ekki þola, reyna að snúa út úr fyrir honum eða misnota. Því hann er líkt og ilmur sem smýgur og fyllir hjörtu þeirra sem þiggja vilja af auðmýkt og þakklæti. Himnesku súrefni og eilífum friði.

Og ávextir anda Guðs eru einmitt kærleikur, varanleg hamingja, hjartans gleði, huggun, styrkur og máttur í veikleika, friður og stilling. Hann gaf okkur ekki anda hugleysis eða hræðslu, ótta eða áhyggja.

Vill reisa okkur upp
„Ég veit að lausnari minn lifir og hann mun síðastur ganga fram af foldu. Eftir að þessi húð mín er sundurtætt, bein mín kramin og allt hold er af mér mun ég líta Guð. Ég mun líta hann mér til góðs, augu mín sjá hann og engan annan. Hjartað brennur af þrá í brjósti mér." Segir í hinni mögnuðu Jobsbók Biblíunnar.

Frelsarinn okkar Jesús Kristur þráir að fá að reisa okkur upp. Okkur sem eru brotin á einn eða annan hátt andlega eða líkamlega sem oft helst nú reyndar í hendur. Hann biður sjálfur fyrir okkur í þrengingum okkar. Hann biður þess að við látum ekki hugfallast. Því að hann sem er upprisan og lífið sjálft hefur sigrað heiminn.

Við vitum svo sem ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem ekki verður í orð komið. Andi Guðs. Hann huggar okkur, líknar og læknar, styður og styrkir til góðra verka og reisir okkur upp. Hann minnir okkur á hver við erum og óskar þess að við ljúkum augum okkar upp svo við skynjum og finnum hve dýrmæt við erum í hans augum. Eilífðar verðmæti sem enginn fær deytt eða eytt.

Þess vegna er það svo óendanlega gott að fá að láta það eftir sér að hvíla í faðmi frelsarans, anda hans og friði sem er sannarlega raunverulegur, þótt hann sé æðri okkar skilningi.

Boðið til eilífrar veislu
Ég hef svo oft sagt og þreytist ekki að minna á að ég er þess full viss að ævinnar bestu stundir, ljúfustu draumar og innsta þrá sé í raun rétt aðeins sem forrétturinn, aðeins sem forsmekkurinn að þeirri eilífðar veislu og dýrð sem lífið raunverulega. Það líf sem býður okkar á himnum eftir að augu okkar bresta og hjartað hættir að slá á þessari jörð.

Þess vegna er svo dýrmætt að fá að fanga augnablikið og njóta þess að vera í núinu. Njóta ævinnar í ljósi lífsins, hins eilífa lífs og aðventunnar í ljósi jólanna með dýrð páskadagsmorguns yfir og allt um kring.

Sjálfur kærleikans Guð, himnasmiðurinn, höfundur og fullkomnari lífsins "þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi fyrir okkur öll. Hví skyldi hann ekki líka gefa okkur allt með honum?"

Biðjum hann sem er þess megnugur að líkna og lækna, gefa líf og viðhalda því að anda á okkur upprisukrafti sínum svo við fáum risið upp og lifað í öllum aðstæðum. Þrátt fyrir mótvind. Líka þegar vonin virðist um það bil að bregðast okkur og slokkna.

Lífið er í eðli sínu dásamlegt. Það liggur bara við að maður geti vanist því að vera til, þegar allt kemur til alls.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir og að eilífu.

Með kærleiks- og friðarkveðju.
Lifi lífið!
Höfundur er ljóðaskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga