Pistlar | 30. nóvember 2018 - kl. 12:07
Ef ég væri Nöldri...............
Eftir Gunnar Rúnar Kristjánsson

Um aldamótin 1900 var tekin sú ákvörðun að Húnavatnssýsla skyldi klofin í tvennt í vestur og austur Húnavatnssýslur. Ástæðan fyrir því að þessi ákvörðun var tekin var fyrst og fremst af samgöngulegum rökum og að íbúarnir voru um fjögur þúsund. Það þótti ekki gerlegt að sinna þeim störfum, sem lagt var á embætti sýslumanna, í svona víðáttumiklu og torfæru svæði sem Húnavatnssýslur voru. Auk þess var yfirgangur Austur-Húnvetninga með slíkum hætti að Vestur-Húnvetningar fengu ekki notið sín.

Nú eru 20 ár síðan Vestur Húnvetningar sameinuðust í eitt sveitarfélag. Ekki veit ég hvort það hafi ráðið miklu þar um að yfirgangur okkar austan manna var horfinn að mestu eða öllu leyti en staðreyndin er engu að síður sú að sveitarfélögin sameinuðust. Síðan þá hefur Bæjarhreppurinn í Strandasýslu sameinast Húnaþingi vestra.

Við hér austan Gljúfurár höfum líka verið að burðast við að sameinast og það hefur þokast. Fimm sveitarhreppar sameinuðust 2006 þannig að í A-Hún eru nú 4 hreppar með um 1860 íbúa. Frekari sameining hefur þó einhverra hluta vegna staðið í íbúum og sýnist sitt hverjum. Hreyfing komst þó á málin í lok síðasta kjörtímabils þar sem sveitarfélögin 4 samþykktu að hefja viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Þetta var í lok kjörtímabilsins en samstarfsnefndin sem skipuð var af sveitarfélögunum kom miklu í verk á þeim stutta tíma sem hún hafði. Fyrirtækið Ráðrík ehf var ráðið sameiningarnefndinni til ráðgjafar og hefur það unnið gott starf sem lesa má á Húnahorninu. Það sem er merkilegt við þetta ferli allt saman er að farið var af stað í lok kjörtímabils og að það lá alltaf fyrir að nýjar sveitarstjórnir myndu þurfa að taka ákvörðun um hvort ferlinu skyldi haldið áfram eða ekki. Mér finnst að fólkið sem bauð sig fram hafi ekki verið það ljóst hvað beið þeirra.

Stefnuskrár lista í síðustu sveitarstjórnarkosningum voru býsna þögular um það hvort ferlinu yrði fram haldið eður ei. Hvað um það allar sveitarstjórnirnar voru sammála um að halda ferlinu áfram og kusu fulltrúa í sameiningarnefnd. Sameiningarnefndin hefur annað hvort ekkert starfað (engar fundargerðir á vefnum) eða vinnan og ákvarðanir það viðkvæmar að ekkert má láta uppi. Til stendur samkvæmt vinnuplaggi að kjósa í sveitarfélögunum í janúar 2019.

Áður hefur verið vikið að starfi Ráðríku. Þar skiluðu skýrslu þar sem fram kom í fyrsta lagi að sveitarfélögin ættu að sameinast. Í öðru lagi kom fram hjá þeim að gera ætti 10-20 ára samfélagssáttmála fyrir sveitarfélögin 4 óháð því hvort yrði að sameiningu eða ekki. Hér er fyrst og fremst verið að horfa til skóla- íþrótta- og tómstundamála en vitaskuld nær þetta til allra mála er snúa að stjórnun og vinnu sveitarfélaga. Allir íbúar gerðu sér grein fyrir að það yrði ekki ódýrara að reka eitt sveitarfélag fram yfir fjögur en þjónusta við íbúa yrði væntanlega betri. Ákvörðun þeirra byggir fyrst og fremst á samtali við og vinnu með íbúum sveitarfélaganna fjögurra.

Nú er komið að því að við íbúarnir eigum að kjósa um hvort við viljum sameina þessi sveitarfélög eða ekki. Þó svo að ég hef talið að við ættum að sameinast í eitt sveitarfélag þá sameinumst við ekki bara til að sameinast. Það verður að vera ljóst öllum kjósendum að hvað sameiningin þýðir. Liggi fyrir sáttmáli um hvernig málum skuli skipað í sameiginlegu sveitarfélagi fyrir næstu 10 ár er ég viss um að engin sveitarstjórnarfulltrúi fari gegn því.

Hvernig ætti þessi sáttmáli að líta út. Ég sé fyrir mér að stjórnsýslan verði að mestu leyti á einum stað, Blönduósi. Hafnarstjórn hefði aðsetur á Skagaströnd. Fjallskil í sveitinni.

Að öðru leyti gæti samfélagssáttmálinn innihaldið eftirfarandi atriði.

  • Að sveitarfélagið verði fremst allra á sviði umhverfismála
  • Að sorphirða verði samræmd í sveitarfélaginu, þar sem ströngustu viðmið verði höfð að leiðarljósi
  • Að fráveitumál verði samkvæmt lögum þar um í öllu sveitarfélaginu
  • Að höfnin og hafnarsvæðið á Skagaströnd geti tekið við minni skemmtiferðaskipum og að hún geti tekið við kaupskipum þegar siglingin yfir norðurskautið opnast.
  • Áfram verði unnið við innviði í öllu sveitarfélaginu
  • Nýtum kraftinn sem fylgir gagnaversuppbyggingu á Blönduósi
  • Brúum (göngu- og hjólabrú) Blöndu við ósinn til að tengja bæjarhlutana saman
  • Gerum A-Hún að draumastað fyrir hestaferðalög með því að byggja upp og viðhalda reiðvegum
  • Stöndum saman að því upplýsa aðra um hvaða möguleikar eru í A-Hún til frístundaiðju hvenær sem er ársins.
  • Í Húnavatnssýslum er flest sauðfé. Réttir er viðburður sem við eigum að nýta, ekki bara fyrir heimamenn heldur líka fyrir ferðafólk. Það þarf því að huga að ferðamönnum líka þegar réttir eru endurnýjaðar eða byggðar nýjar.

Þetta eru nokkur dæmi sem ég held að við getum öll sameinast um að gera og unnið að. Við verðum líka að vera stolt af því sem hér er gert.

Ég sakna umræðna um þessi mál innan sveitarfélaganna og sérstaklega sakna ég frétta frá sameiningarnefndinni. Það getur ekki verið að sameiningarnefndin leggi til við sveitarstjórnir að þær boði til kosninga um sameiningu án þess að fyrir liggi hvað á að sameinast um. Við hefðum þá getað kosið strax fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar um sameiningu sveitarfélaganna. Þó svo að vinnuskjalið geri ráð fyrir kosningu í janúar 2019 þurfum við ekkert að flýta okkur um of sérstaklega ef sameiningarnefndin þarf meiri tíma til að vinna.

En ég er ekki Nöldri eins og það komi málinu eitthvað við.

Gunnar Rúnar Kristjánsson
Áhugamaður um sveitarstjórnamál

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga