Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Pistlar | 14. janúar 2019 - kl. 09:36
Stökuspjall: Sjóndeildarhringur með eyktamörkum
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Á nýju ári kvikna nýjar sögur, nýjar samkomur og sambönd, kannski ný ljóð og vísur. Húnvetningar nokkrir og Jón á Kirkjubóli í Steingrímsfirði sendu frá sér bækur í vetur og þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk Jónsdóttir flutti fyrirlestur með veggspjaldasýningunni: Skessur sem éta karla.

Það hefur yfirleitt verið mikið um að vera í menningarlífinu og ánægjulegt að sjá menninguna dafna kringum flóann bjarta. Kórar æfa, organistar leika af snilld á orgel sín svo hljómar yfir hálsa og víkur, ljósmyndarar ná enn betri myndum af bláum vötnum og bröttum hjöllum, prjónað er kringum fleiri ljósastaura og grúskarinn verður æ uppteknari af nýfundnu bréfi eða bók svo ekki dregst upp úr honum orð í heila eykt. Og eyktin varir í þrjá tíma svo þetta er nú væntanlega orðum aukið. 

Ein af bókunum sem bættist við safn okkar á þessum vetri á rætur fremst í Langadal, á góðbýlinu Æsustöðum þar sem prestshjónin Sigríður og sr. Gunnar ólu upp börn sín fimm til ársins 1952 en þá var Gunnar var kosinn prestur fyrir Kópavogs- og Bústaðasóknir.  

Og flutti suður! 

Yngsta barn prestshjónanna, dr. Hólmfríður Kolbrún, flutti suður nýfermd en gaf út í vetur bók sína um formæður og feður, átti í fyrstu að verða nett rit í litlu upplagi handa eftirkomendum, en á byltingarárinu 2017 „#Ég líka"skipti HKG um skoðun og gefst okkur því færi á að kaupa þessa bók í næstu bókabúð.

Sveitaskáldið snjalla, Stefán Sveinsson, fær gott rúm í bók Hólmfríðar, hún hafði á honum miklar mætur og það var víst nokkuð gagnkvæmt. Mynd af Æsustaðasystrum með Stefán á milli sín prýðir bókarkápuna. Öll eru þau alvarleg eins og Íslendingar voru lengi vel á ljósmyndum en er nú ekki kominn tími til að fara að skáka inn svona einni Stefánsstöku, gætir þú spurt, lesandi góður, en gleyma sér ekki í masi eins og þriggja ára snót segir stundum við afa sinn:

Vekjum hlátur, eyðum enn
öllum gráti og trega.
Við erum kátir vegamenn
og vinnum mátulega. St. Sv.

Um Önnu Margréti frænku mína frá Finnstungu orti æringinn Stefán:

Gekk ég ungur grýttan veg
af glöpum þungum vola
en Önnu í Tungu elska ég
eins og lungun þola. St. Sv.

Já, þeir ortu í dölunum þó sólin gengi þar fyrr undir en út við æginn:

Ástin brýnir ungra þrótt 
en eldri svínin finna,
að eftir vín og vökunótt,
verður grínið minna. St. Sv.  

Stefán eignaðist Huldu fyrir konu og þau fluttu suður fyrr en Æsustaðafjölskyldan. HKG segir: Sjálf var ég svo lítil þegar þau Hulda fóru suður að ég hugsaði engar heimspekilegar hugsanir um hann, fannst bara sjálfsagt að hann væri hjá okkur, hlýr og hæglátur. 

Þar finn ég einmitt lýsinguna á bókinni HKG, hlý og hæglát, dýrmætt innlegg í sveitamenninguna, sem við viljum svo gjarnan að vaxi áfram. Menning sem byggist á því að finna hlýjuna og kveikja alúð. 

Hólmfríður miðlar okkur fjölda sagna rétt eins og frændi hennar, Jón Árnason bókavörður frá Hofi á Skaga gerði með ævistarfi sínu. Jón prófastur Þórðarson á Auðkúlu og langafi HKG var bróðursonur nafna síns, sjö árum yngri og hjálparhella við þjóðsagnasöfnunina. 

Faðir Hólmfríðar, Gunnar Árnason frá Skútustöðum, átti fjöld presta í áatali sínu og var bæði snjall hagyrðingur og rithöfundur. Hann var í hreppsnefndinni með Hafsteini á Gunnsteinsstöðum og Jóni í Ártúnum og þessir báðir voru svo með honum í byggingarnefnd Húnavers og á Botnastaðamónum var hafist handa við byggingu stórhýsis þegar prestur flutti suður. 

Um hagyrðinginn Svein frá Elivogum/Refsstöðum segir HKG: Ég man hann kom að Æsustöðum í svörtum leðurjakka og fékk að hringja. Hann var á leið suður til að leita sér lækninga. Það boðaði ekki gott. Allir vissu að það syrti í álinn ef héraðslæknirinn, Kolka, sendi fólk suður. Enda fékk Sveinn þær fréttir syðra að hann ætti enga lífsvon. Hann var aðeins 56 ára. Þeir pabbi voru góðir vinir og kváðu vísur hvor um annan.

Einhvern tíma kom Sveinn hrossum í hagagöngu hjá pabba en auðvitað varð fremur hagbann á Laxárdalnum, sem liggur hátt yfir sjó, en í lágsveitinni Langadal. Þá orti Sveinn:

Þegar hestahaga þraut
- herti klakatakið
Gunnar prestur skildi skaut
skálds yfir nakið bakið.

Og pabbi svaraði:

Hækka mun þinn hróður Sveinn
hér í fjallasalnum
Þú ert eins og stakur steinn
sem stendur upp úr dalnum.

Enn kom út bók á þessum vetri eftir nágranna okkar í norðrinu. Hannes Pétursson skáld gaf út ljóðabókina Haustaugu. Þiggjum þaðan Ferðaljóð: 

Greikkum nú sporið.
Spölurinn styttist í tjaldstað.

Handan við næsta mel
þar sem heitir með vissu Smjörlaufadrag
getur að finna gömlu heimreiðina.
Við göngum upp í móti þaðan.

Kannski sjást enn
kerruhjólför í tröðunum
og baldursbrár í röð
á báðar hendur.

Kannski heyrist enn strokið
um strengi mjúklega
á hnéfiðlu
undir holbökkum túnlækjarins.

Ef til vill liggur
á auðum bæjarhólnum
leikfang sem gleymdist í grasinu
eða beislisstangir
brunnfata.

Biðjum samt ekki um neitt slíkt.
Nú varðar meiru sjóndeildarhringurinn
settur nákvæmum eyktamörkum. HP

Tilvísanir:
Dagrún Ósk: http://borgarbokasafn.is/is/vidburdir/skessusagnakaffi 
Jón Árnason í nýlegur Stökuspjalli: https://www.huni.is/?cid=15326 
JÁ/Stökuspjall: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=15105 
Sr. Gunnar í Stökuspjalli: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=12589
Efnisyfirlit í Stikli: http://stikill.123.is/blog/2016/11/07/756484/

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga