Pistlar | 10. maí 2019 - kl. 09:30
Upprisan og lífið
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Vegurinn til upprisu lífsins getur sannarlega verið þyrnum stráður. Jafnvel háll, þungur og torfær. Hann getur verið brattar brekkur hvers kyns vonbrigða og áfalla vegna sjúkdóma eða slysa, margvíslegra sorga, höfnunar, einmanaleika, óréttlætis  eða brotinnar sjálfsmyndar. Og ekki síst vegna ósættis í samskiptum og óuppgerðra mála sem plaga og lama hug okkar og jafnvel löngun til þess að vera.

Ljósið vinnur á myrkrinu

En ljósið kom í heiminn. Frelsarinn Jesús. Ljósið sem er lífið sjálft. Hann sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hann sem er upprisan og lífið. Hann sem sagði: Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.

Hann er andi kærleikans í þessum heimi. Er einn fær um að gefa frið í hjarta sem æðri er öllum mannlegum skilningi. Hann er andi fyrirgefningar og sátta. Hann sem sætti heiminn við sig. Tók á sig afbrot okkar, brenglaðar hugsanir og syndugar gjörðir. Hann sem einn er fær um að afrugla okkur. Því reynslan sýnir að við ráðum eitthvað svo skelfing illa við okkur sjálf. Hann sem er vorið, vonin og nýtt upphaf. Hann sem einn megnar að gefa líf í fullum blóma um eilífð. Sá sem fylgir honum mun aldrei að eilífu deyja.

Andaðu á okkur upprisukrafti þínum

Þess vegna erum við mörg sem viljum fá að biðja þig um að anda á okkur þínum heilaga góða anda svo að líf okkar mætti bera ávöxt þér til dýrðar, fólki til blessunar og sjálfum okkur til heilla.

Guð kærleikans og lífsins, friðarins og ljóssins, miskunna þú okkur. Veit okkur þá náð þína að þiggja það að fá að vera farvegir kærleika þíns og friðar, fyrirgefningar og fagnaðarerindis þíns um sáttina, vorið og vonin, ljósið og lífið.

Veit okkur að njóta stundarinnar í ljósi eilífðarinnar. Hjálpaðu okkur að lifa hverja stund með vorið vistað í sálinni, sólina og eilíft sumar í hjarta. Því hamingjan felst í því að vera með himininn í hjartanu. Takk fyrir lífið!

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga