Pistlar | 18. júlí 2019 - kl. 07:37
Húnavaka 18.-21. júlí 2019
Eftir Valdimar O. Hermannsson

Kæru Blönduósingar, nærsveitamenn og aðrir gestir Húnavöku 2019.

Húnavaka er ein af elstu bæjarhátíðum landsins, og er orðin fastur liður í lífi fjölmargra Húnvetninga, og nærsveitamanna, auk fjölmargra annara gesta sem hátíðina sækja.

Nú í ár er hátíðin haldinn helgina 18. til 21. júlí, og með breyttu sniði, að einhverju leyti, en þó er að finna fjölmargt sem áður hefur verið, en einnig spennandi nýjungar sem gaman verður að fylgjast með hvernig munu falla að  annars fjölbreyttri dagskrá Húnavöku 2019.

Á bæjarhátíðum eins og Húnavöku, koma gjarnan brottfluttir íbúar og gestir, Blönduósingar og aðrir Húnvetningar, og hittast til þess að rifja upp gömul kynni, og atburði sem liðnir eru. Einnig er þetta vettvangur fyrir ferðamenn og aðra áhugasama gesti til þess að koma og dvelja yfir helgina eða a.m.k. líta við yfir daginn og njóta fjölbreyttrar dagskrár hátíðarinnar. Að vanda taka bæjarbúar og fyrirtækin í bænum vel á móti gestum hátíðarinnar, snyrta vel og hreinsa til við húsin sín, og sumir verða með góð tilboð og kynningar yfir alla Húnavökuna.

Dagskráin er að vanda fjölbreytt og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, og einnig fyrir gesti sína á öllum aldri, en mikið verður lagt uppúr tónlist, og munu margir þekktir listamenn koma fram, og má þar nefna Leikhópinn Lotta, Hildur, Daði Freyr, Helgi Björns, og Friðrík Dór, en einnig stórhljómsveitir eins og Á móti sól, föstudagskvöld  og Skítamórall á laugardagskvöld.  Sýningar verða í Heimilisiðnaðarsafninu og Textílmiðstöð Íslands í Kvennaskólanum, auk þess sem við ætlum að sýna Ísbjörn í Hillebrandtshúsinu, ásamt fróðlegri sýningu um hafís o.fl. þ.h. Þá má ekki gleyma yngstu kynslóðinni sem fær flott leiksvæði á skólalóðinni, og margt fleira.

Fjölbreytt fjölskyldudagskrá er allan laugardaginn og ekki má gleyma Kvöldskemmtun sem er að vanda í Fagrahvammi, þar sem verðlaun verða veitt og mörg frábær skemmtiatriði í boði. Það verður hægt að velja úr gistimöguleikum á svæðinu og tjaldsvæði fyrir þá sem það vilja.

Um leið og ég þakka öllum þeim sem komið hafa að undirbúningi Húnavöku 2019, þá býð ég alla hjartanlega velkomna til Blönduós, og bið ykkur vel að njóta góðrar hátíðardagskrár.

Valdimar O Hermannsson, Sveitarstjóri Blönduósbæjar

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga