Pistlar | 13. ágúst 2019 - kl. 15:22
Bæn fyrir umhverfi okkar, náttúru og loftslagi
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Miskunnsami Guð! Skapari himins og jarðar og alls sem er. Þú sem ert höfundur lífsins og jafnframt fullkomnari þess. Vertu okkur náðugur og líknsamur. Hjartans þakkir fyrir alla þína fallegu og undursamlegu sköpun. Hjálpaðu okkur að læra að meta fegurð náttúrunnar og kraftinn sem í henni býr. Hjálpaðu okkur að minnast ábyrgðar okkar svo við fáum lifað í sátt við hana.

Hjalpaðu okkur að nýta auðæfi hennar á varfærinn hátt og með sem víðtækastri sátt við allt og alla. Svo við fáum notið hennar og nýtt hana með sem skynsamlegustum hætti, okkur til farsældar og framfara, blessunar og heilla.

Hjálpaðu okkur að skynja og skilja að við erum hluti af sköpun þinni. Ráðsmenn í aldingarði þínum hér á jörð sem kölluð erum til þess að rækta, hlúa að og uppskera með eðlilegum hætti án þess að ganga of langt eða að taka að gína yfir og ráðskast með.

Takk fyrir þau óendanlegu forréttindi að fá að vera hluti af þessari stórfenglegu náttúru og fá að kallast þín börn. Það eru sannarlega forréttindi og mikil blessun.

Gefðu að jafnvægi mætti komast á í vernd náttúrunnar og þess lofts sem við lifum í og drögum að okkur. Veit okkur yfirvegun og þolinmæði, skynsemi og skilning í umgengni okkar við náttúruna og hvert við annað.

Þá er sannarlega fullkomin ástæða til að þakka þér fyrir alla þá hreinu orku sem við búum yfir. Hjálpaðu okkur að nýta hana skynsamlega til hagsældar, friðar og blessunar.

Gefðu ráðamönnum, vísindamönnum og almenningi visku og skilning á eðli náttúru og umhverfis og gef að okkur auðnist að standa saman í að vernda hana og hvert annað frá hverskyns níðslu og háska, tóni eða ofbeldi.

Opnaðu augu okkar svo við fáum lifað í þakklæti til þín og með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Já, þín sem græðir og styður með fyrirgefandi sigrandi lífsins hendi þinni sem gefur líf og hlúir að því um eilífð.

Þinn sé mátturinn og dýrðin. Í frelsarans Jesú nafni. Amen.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

 

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga