Pistlar | 04. september 2019 - kl. 09:15
Mismunun krabbameinssjúkra
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Það eru nú um sex ár frá því að ég kynntist manni nokkrum, þá ekki fimmtugum, sem greinst hafði með krabbamein í blöðruhálskirtli. Í kjölfarið gekkst hann undir heldur óskemmtilegan uppskurð þar sem kirtillinn var fjarlægður og var sú aðgerð talin nægja til að uppræta meinið. Annað kom hins vegar á daginn og fór hann þá í þrjátíu og fimm skipta geislameðferð sem skilaði reyndar heldur ekki tilætluðum árangri. Var þá komið að lyfjatöku bæði í töflu formi daglega og með groddalegri sprautu með æxlishemjandi efni í neðanverðan kviðinn á þriggja mánaða fresti. Þessi efni valda þar til gerðum aukaverkunum sem verða reyndar ekki frekar raktar hér en þó má minnast á vöðvarýrnun, beinþynningu, kviðfitusöfnun, svima, þreytu og þróttleysi á öllum sviðum auk annars.

Til styrkingar beina þarf kappinn því að fá annað efni sem dælt er í æð á Landsspítalanum á þriggja mánaða fresti þar sem honum er einnig gefin, umrædd sprauta í seinni tíð, í leiðinni.

Kjarni málsins

Komum við þá að kjarna málsins. Kauða er sagt að krabbameinslyf séu sjúklingum að kostnaðarlausu. Viðkomandi fái þau á Landsspítalanum þar sem þau eru látin renna í æð. Nema menn með blöðruhálskirtilskrabbamein. Þeir þurfa að fara í apótek til að panta umrædda sprautu sem er rándýr. Greiða fyrir hana sjálfir og sækja síðan í apótekið einum til tveimur dögum síðar þar sem ekki er legið með slíka gripi á lager. Geyma lyfið síðan gjarnan heima á glámbekk í einn til tvo daga áður en haldið er með pakkann undir hendinni niður á Hringbraut þar sem lyfið er gefið á dagdeild blóð- og krabbameinssjúkra. Að loknu viðtali við krabbameinslækni þar sem farið er yfir stöðuna. Meðal annars nýjustu blóðmælingar, sneiðmyndatökur, beinaskann og aðrar viðeigandi rannsóknir hverju sinni.

Framan af eru þessar sprautur gefnar af þvagfærasérfræðingum á læknastofum úti í bæ og kannski eðlilega erfitt að liggja með þær þar á lager. En þegar sjúkdómurinn er genginn lengra og menn þurfa að hitta krabbameinslækna reglulega á Landsspítalanum, fyrir aðrar inngjafir, þá er ferðin notuð og efnið gefið þar.

Hár kostnaður og óþarflega flókið aðgengi

Eftir stendur að tilteknir sjúklingar þurfa að greiða fyrir efnið og svo hitt að þeir þurfa að fara tvær ferðir í apótek til að útvega sér það áður en haldið er með það undir hendinni niður á Hringbraut. Alls ólíkt því sem fólk í öðrum krabbameinsmeðferðum þarf að gera. Greinilega ekki sama hvort menn eru í frumudrepandi meðferð eða hormónabælandi meðferð til að hemja æxlisvöxt sem í tilvikum blöðruhálskirtilskrabbameins er drifið áfram af karlhormóninu testesteroni.

Vildi nú bara svona í góðu leyfa mér að vekja athygli á þessari óeðlilegu mismunun sem karlmenn í þessari stöðu þurfa að búa við og því miður allt of margir á meðan ævin endist.

Fyrir hönd vinarins sendi ég hæstvirtum heilbrigðisráðherra fyrirspurn vegna þessa ásamt Landlæknisembættinu og Sjúkratryggingum Íslands fyrr í sumar. Fékk ég strax í kjölfarið mjög vel unnin og vönduð, skýr og greinargóð svör frá góðu og afar velviljuðu fólki sem var mjög liðlegt og reiðubúið til svara og útskýringa. Það ber að þakka.

Svörin voru í stuttu máli á þá leið að lyf væru einfaldlega ekki flokkuð eftir sjúkdómsheitum. Umrætt lyf væri ekki flokkað sem sjúkrahúslyf þar sem hægt væri að gefa það á stofu úti í bæ og því bæri að greiða fyrir það. Sem staðfestir einmitt enn frekar þann mismun sem krabbameinssjúklingar búa við að þessu leyti.

Annars bara frábær þjónusta á öllum sviðum og stigum

Vinurinn vill loks láta þess getið að honum finnst alltaf jafn ánægjulegt að koma í apótekið góða og hitta það elskulega starfsfólk sem mætir honum þar og þjónustar af alúð og hlýhug.

Þetta mál snýst ekki um það heldur þessa mismunun bæði er varðar greiðsluþátttöku og jafnframt nálgun á lyfinu. Ætti ekki sama yfir alla krabbameinssjúklinga að ganga í þessum efnum hvort sem fólk fær efnin í æð, þeim er sprautað í kviðinn á því eða töflur teknar inn á heimilum fólks?

Ég mátti til með að koma þessu á framfæri fyrir vininn sem og marga sem eru í svipaðri stöðu. Þessi umræddi vinur minn er nefnilega heldur feiminn og óframfærin og lítið fyrir að kvarta eða láta á sér bera. Ég skal lofa að taka ekki hans málstað að þessu leyti framar enda aldrei gefið mig út fyrir að vera einhver leigu penni að einu eða neinu leyti.

Fyrir mína hönd og vinarins segi ég því bara að lokum.

Með þakklæti, kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga