Pistlar | 05. nóvember 2019 - kl. 10:50
Stökuspjall: Nokkrar vísur frá Daða fróða og Níelsi skálda
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Sjöunda barn foreldra sinna var Daði fróði Níelsson, en missti föður sinn ársgamall svo það voru ekki bjartir bernskudagar sem biðu þessa unga sveins. Hópnum var tvístrað eins og tíðkaðist á þeirri tíð. Bær fjölskyldunnar var Kleifar í Gilsfirði.

Bróðir Daða var Sveinn Níelsson, prestur í Blöndudalshólum frá 1835, síðar prestur á Staðarbakka og Staðastað. Sveinn varð þjóðfundarmaður Húnvetninga 1851, samtímamaður Björns á Brandsstöðum, ái biskups og forseta.

Daði safnaði drjúgum fróðleik á skammri ævi sinni og orti rímur, tíðavísur og tækifæriskvæði. Mest fer fyrir rímunum af kveðskap Daða segir Finnur Sigmundsson landsbókavörður sem hefur dregið saman efni um þá félaga Daða og Níels og birt í safnriti sínu, Menn og minjar.

Geymst hefur kersknisvísa Daða þar sem hann gagnrýnir vinnuhörku Sveins bróður síns á sunnudegi og kallar klerkinn hökulgarma lurk. Sr. Sveinn var þá prestur Blöndælinga og prestsetrið í Hólum:

Sínu heyi segir af
svíkjast muni þurrkur,
hefur um það hvefsnisskraf
hökulgarma lurkur. DN

Daði var einn síns liðs um ævidaga sína, en geymst hefur bréf Ketilríðar Ketilsdóttur til hans frá 1844, en þá hefur hún verið komin til húsmennsku eða barnfósturs að Geitaskarði og orðin lítt ferðafær. 

Daði vann um tíma á búi bróður síns, Hólaprests, var í nokkur ár fyrirvinna hjá ekkju upp í Gautsdal og dagsett hefur hann á Gunnsteinsstöðum þátt sinn, Æviágrip Jóns sýslumanns Espólíns hins fróða.

Daufum krafti muna míns
með - og penna stirðum
ævisögu Espólíns
eg hef skráða fyrðum. DN

Á ýmsum bæjum í Skagafirði dvelur hann síðan uns hann flytur um 1850 til Akureyrar og freistaði þess að gerast þar næturvörður, en ekki átti það við Daða. Verið var að stofnsetja prentsmiðju á Akureyri um þær mundir og má vera að Daði hafi verið hvattur til að koma þar til með fróðleik sinn.  Hann varð úti sex árum síðar í bóksöluferð vestur við Húnaflóa. Hann lagði upp frá Breiðavaði 8. des. 1856, fannst um vorið í Laxárósi á Refasveit og er jarðsettur á Höskuldsstöðum.

Daði yrkir um kjör sín:

Löngun hjá mér fulla finn
fjandskan heim að kveðja
mín er ævi margbrotin
mótlætingakeðja.

Rönd ég ekki reisi við
raunaþjökun minni
nema guð mér ljúfur lið
leggi af miskunn sinni.  DN

Kemur nú að Níelsi skálda, sem er nokkru eldri en Daði, átti sömuleiðis við mótlæti að glíma en hann yrkir hér hressilega vísu og vinsæla til söngs:

Ég að öllum háska hlæ
á hafi Sóns óþröngu.
Mér er sama nú hvort næ
nokkru landi eða öngu.
Níels Jónsson 1782 - 1857

Níels var eins og Bólu-Hjálmar hjábarn veraldarinnar og gæti hafa sagt um góðskáldin Bjarna og Jónas, sem skólamenntunar nutu: Þeim er nú ekki þakkandi þessum piltum, þó þeir komist ögn lengra en við bókleysingjarnir. Og Níels mat Eggert Ólafsson mest af öllum seinni tíma skáldum segir Ólafur Sigurðsson bóndi í Ási í Hegranesi sem rifjaði upp þessar minningar um Níels.

Annar samtímamaður Níelsar, sr. Þorkell Bjarnason, ólst upp norður í Hegranesi og mundi Níels frá barnæsku sinni. Hann segir um gáfur Níelsar: Rétt og ströng hugsun var aðalstyrkur og einkenni gáfna hans, enda fann hann það sjálfur og orti:

Þenkjurum einum þægð er í
þankaverkum mínum
eg þeim trautt að öðrum sný
aldrei hnugginn fyrir því
Fransrímur þó fóttroðist af svínum. NJ

Um sveitina ofan Sauðárkróks orti Níels:

Dali þröngum, drífa stíf
dynur í svöngum hjörðum.
Þá er öngum of gott líf
uppi í Gönguskörðum. NJ

Hagyrðingar bekktust stundum sín í milli og varð iðulega af ósætti, jafnvel mikill fjandskapur. Hér kveður Níels til Guðmundar Ketilssonar bónda á Illugastöðum, bróður Ketilríðar sem nefnd var hér að ofan og Natans:

Gvendur arfi Ketils kann
kveða í skammblendingi.
Flestra maka hygg ég hann
Húnavatns í þingi. NJ 

Til skýringa og frekari heimildir:

Fyrðar = menn
Drífa = Snjódrífa

Finnur Sigmundsson landsbókavörður safnaði ljóðum og vísum eftir Daða og Níels og skrifaði inngang að þáttum um þá í safnrit sitt, Menn og minjar.

Daði fróði á vísnavef: https://bragi.mmagnusson.net/hunafloi/hofundur.php?ID=15705
Bróðir Daða, Sveinn Níelsson prestur síðast á Staðastað mægðist Bólstaðarhlíðarætt með seinni konu sinni: https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=569
Níels skáldi á vísnavef: https://bragi.mmagnusson.net/skag/hofundur.php?ID=15335

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga