Pistlar | 25. desember 2019 - kl. 22:02
Gjörningaveðrin
Eftir Halldór Gunnar Ólafsson

Gjörningaveður gekk yfir landið í síðustu viku og er kraftaverki líkast að ekki skyldu tapast fleiri mannslíf en það sem raungerðist í Eyjafirði.

Það er merkilegt að upplifa að nú keppast alþingismenn og  ráðherrar við að ræða styrkingu innviða á landsbyggðinni og telja að alltof langt hafi verið gengið hvað varðar niðurskurð hjá hinu opinbera á flestum sviðum. Þetta hljómar næstum eins og engin landshlutasamtök eða sveitarstjórnir hafi nokkurn tímann bent á einmitt þessar staðreyndir.

Í þessu samhengi er áhugavert að skoða hvernig góðum nágrönnum okkar Skagstrendinga hér á Skaga gekk í óveðrinu um daginn. Skagabyggð, sem er sveitarfélag á vestanverðum Skaga, styrkti sína innviði á eigin kostnað fyrir nokkrum árum. Sveitarfélagið, sem er eitt það fámennasta á landinu, greiddi RARIK ríflega 30 milljónir í svokallað flýtigjald til þess að hægt væri að leggja þriggja fasa rafmagn í jörð strax en ekki bíða í áratug eða lengur. Sú framkvæmd tryggði íbúunum birtu og yl í óveðrinu og hefur að öllum líkindum sparað RARIK og samfélaginu öllu mikla fjármuni sem sveitarfélagið greiddi í raun sjálft í formi fyrrgreinds flýtigjalds. Illu heilli var málum öðru vísi háttað á austanverðum Skaga þar sem íbúar á sumum bæjum voru án rafmagns og hita í heila viku.

Gjörningaveðrin, sem beinast að landsbyggðunum, eru þó víðar en flesta grunar. Fyrir Alþingi liggur tillaga sem lýtur að framtíðarskipan sveitarfélaga á Íslandi. Meirihluti Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis afgreiddi tillögu ráðherra úr nefndinni að mestu óbreytta. Tillögu, sem felur í sér lögþvingunarákvæði, þar sem minni sveitarfélögum er gert að sameinast þeim stærri án íbúakosninga. Ef tillagan nær fram að ganga verður því réttur íbúa til þess að taka afstöðu til hugsanlegra sameininga ekki til staðar nema sameiningar eigi sér stað fyrir árið 2022 og 2026.

Samband íslenskra sveitarfélaga hélt sérstakt aukalandsþing til þess að fjalla um tillöguna.  Þar voru það að langmestu leyti þau sveitarfélög, sem tillagan mun ekki hafa áhrif á, sem veittu henni stuðning. Eftirtaldir fyrirvarar voru þó samþykktir í tengslum við fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs:

„Í tillögunni er gert ráð fyrir verulegum fjárhagslegum stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga og því mikilvægt að ríkissjóður veiti sérstök fjárframlög til sjóðsins til að fjármagna þann stuðning“

 Þegar síðan kemur í ljós hvernig Umhverfis- og samgöngunefnd hyggst breyta lögum Jöfnunarsjóðs þarf Samband Íslenskra sveitarfélaga að senda frá sér eftirfarandi umsögn:

„heildaráhrif frumvarpsins verði þau að árleg framlög úr jöfnunarsjóði, önnur en sameiningarframlög, kunni að lækka um 973 m.kr næstu sex árin og síðan um 700 m.kr næstu níu ár þar á eftir, eða samtals um nærri 12 milljarða kr. á næstu 15 árum. Að meginhluta kemur þessi lækkun annarra framlaga til vegna stóraukinna sameiningarframlaga“

Það lítur sem sagt út fyrir að það séu ekki að koma nein NÝ framlög inn í Jöfnunarsjóð til þess að standa undir kostnaði við væntanlegar sameiningar. Fjármagnið verður tekið af öðrum framlögum sjóðsins sem annars hefðu verið nýtt t.d. til reksturs grunnskóla, málefna fatlaðs fólks eða til tekjujöfnunar.

Í mínum huga er hægt að færa rök fyrir því að hér hafi hlutir verið unnir í öfugri röð. Hefði ekki verið nær að halda aukalandsþing Sambandsins þegar lægi fyrir að búið væri að tryggja „nýja fjármuni" til þess að fjármagna væntanlegar sameiningar, sem öllum er ljóst að munu kosta mikla peninga. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga vildi hins vegar tryggja að tillaga samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fengi umfjöllun á yfirstandandi löggjafarþingi og því var málið keyrt áfram með þessum hætti. Meginhlutverk Sambands íslenskra sveitarfélaga er að vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna í landinu og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra. Ég get ekki betur séð en að gangi hlutir eftir með þeim hætti sem ég hef gert að umtalsefni, sé í raun verið að veikja innviði sveitarfélaganna í landinu og stjórn sambandsins sé beinlínis meðsek í þeirri vegferð.

Með þessum skrifum er ég ekki endilega að halda fram að það kunni ekki að vera skynsamlegt að stuðla að sameiningum sveitarfélaga á Íslandi með það að markmiði að gera þau öflugri og því burðugri til þess að takast á við áskoranir framtíðar. Í grunninn held ég að andstaða smærri sveitarfélaga snúi að trausti eða skorti á trausti, einmitt í ljósi þess hvernig hið opinbera hefur með beinum og óbeinum hætti veikt innviði og dregið úr slagkrafti byggða landsins.

Í óveðrinu um daginn voru það íbúarnir sjálfir, björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar sem ekki brugðust, í flestum tilfellum fólk sem þekkir aðstæður á hverjum stað fyrir sig og veit hvað íbúum er fyrir bestu. Alþingi Íslendinga á að treysta þessu fólki fyrir sinni framtíð og fella úr gildi ákvæði sem heimila lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga.

Halldór Gunnar Ólafsson,
oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga