Bessastaðir. Barrow: A visit to Iceland London 1835
Bessastaðir. Barrow: A visit to Iceland London 1835
Pistlar | 07. janúar 2020 - kl. 10:12
Stökuspjall: Úti fyrir Álftanesi “ ofurlítil dugga
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

„Sveinbjörn var lítill og grannvaxinn, fimur frekar en sterkur og frægar eru lýsingar á stangarstökki hans yfir mýrina frá Eyvindarstöðum til Bessastaða. Hann var ágætt skáld, þótt hann hafi einungis sinnt því í hjáverkum og ort mest um og fyrir börn sín, t.d. hinar alþekktu vísur Fljúga hvítu fiðrildin og Fuglinn segir bí, bí, bí og sérhver Íslendingur þekkir þýðingu hans á jólasálminum Heims um ból. Sveinbjörn var einnig tónelskur og spilaði á flautu.“ Þannig kynnir Páll Valsson þennan kennara og meistara Jóns Árnasonar, Sveinbjörn Egilsson, kennara við Bessastaðaskóla sem varð skólameistari eftir að skólinn fluttist til Reykjavíkur og var þá kallaður Lærði skóli.

„Sú mynd af Sveinbirni sem birtist manni í bréfum hans er af ákaflega gæflyndum manni, ástríkum í garð síns fólks og sanngjörnum í hvívetna, jafnvel í garð sinna gagnrýnenda og ekki síst var SE mjög skemmtilegur húmoristi. Þá fer hann vitaskuld afar vel með mál og er frábær stílisti“ heldur Páll áfram að lýsa þessum meistara tungunnar, en hér birtist vísa sem ekki er vert að láta burt segir höfundurinn:

Þetta birtir bragarskort
blómaskert og heldur þurrt
það er stirt og illa ort
ekki vert að láta burt. SvE

Aðra yrkir hann um kú í Skerjafirði:

Árferð var afarhörð
ísaði freðinn grassvörð
alin var við bein börð
beljan við Skerjafjörð. SvE

Og elsta barnið, dóttirin Þuríður, hefur kannski verið dottin í bóklestur:

Þó ég kalli þrátt til þín
þú kannt ekki heyra:
Þuríður, Þuríður, Þuríður mín
þykkt er á þér eyra.  SvE

Jón Árnason þjóðsagnasafnari varð heimiliskennari hjá þeim hjónum Helgu og Sveinbirni Egilssyni á Eyvindarstöðum eftir að hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla. Í manntalinu 1845 er JÁ talinn með heimilisfólkinu á Eyvindarstöðum og barnahópi sem hann hefur starf við að kenna og tengist enn frekar er Sveinbjörn rektor lést 1852 en Helga kona hans nokkru síðar.

Í manntalinu 1840 tilheyra Þuríður 17 ára og Benedikt Gröndal 14 enn heimilinu á Eyvindarstöðum, elstu börn hjónanna en hún giftist einum skólapiltanna úr Bessastaðaskóla, þau flytja vestur í Flatey, verður frú Kúld, en Benedikt á eftir að semja mörg ljóð, komast í flokk þjóðskálda, teikna undursamlegar myndir og skrifa Heljarslóðarorrustu.

Þórbergur skrifar um Þuríði í ævisögu séra Árna, greinir frá ástarmálum hennar og  Snorra skólapilts á Bessastöðum og miðanum sem Þuríður varpaði út um gluggann með ástarjátningu til hans og hvernig móðir hennar og Snorri sjálfur hvöttu hana til að taka bónorði Eiríks Kúld, sem hafði góð efni að bjóða henni, reisti þeim mikið og vandað timburhús í Flatey, flutti það síðan yfir í Helgafellssveit og síðast til Stykkishólms og var þar kallað Prófastshúsið.

Þuríður gekkst fyrir því að Breiðfirðingurinn Matthías Jochumsson, sem var í vinnumennsku í Flatey, kæmist til mennta og telur séra Árni vafasamt að MJ hefði komist hærra en að verða lipur alþýðuhagyrðingur, „ef forlögin hefðu ekki beint frú Þuríði Kúld þangað vestur. Þar stendur Ísland í meiri þakkarskuld við dóttur Sveinbjarnar Egilssonar en nokkurn annan Íslending.  En ekki minnist ég þess, að landar sýndu henni það í einu eða neinu þegar nauður hennar var mestur og Matthías orðinn frægur.“

Um Matthías og Þuríði skrifaði Þórunn Erlu Valdimarsdóttir bókina Upp á Sigurhæðir og vitnar þar í meitlaða lýsingu Steingríms J. Þorsteinssonar bókmenntafræðings af prófastsfrúnni:„Frú Þuríður Kúld var gáfuð og mikilhæf, stórmannleg og gustmikil, glys- og gleðikona í meira lagi, kenjótt og keipótt og örskiptakona um skapsmuni.“

Matthías orti eftir hana hjartnæmt erfiljóð:

6. Allt í einu sá eg svanna:
sú var björt og stolt á brá,
ennið fránt sem faldur hranna,
fagur roði kinnum á.
Aðalslegri augum snót
aldrei leit á hjörvabrjót;
ekkert gróm þau augu blekkti:
allt mitt gull hún sá og þekkti.

7. Það var hún, sem gefins greiddi
götu mína raunum frá
hún, sem fyrstu blómin breiddi
brautu minnar listar á — MJ

Heimildir og tengdar síður:
Páll Valsson: Jónas Hallgrímsson Ævisaga
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir: Upp á Sigurhæðir
Þjóðsagnahandrit JÁ: https://landsbokasafn.is/index.php?
Landsbókasafn: https://landsbokasafn.is/
Jón Árnason og nokkrar þjóðsögur: http://stikill.123.is/blog/2016/08/16/753120/
Sv. Egilsson: https://is.wikipedia.org/wiki/Sveinbj%C3%B6rn_Egilsson?fbclid=IwAR0K1VmH5eq-FEgJEUDKzg87H2wLDUCZbmBIcM7mFggcC6-UlH9PaRFfCw8
Sveinbjörn Egilsson – 100 ár – Lesbók Mbl.: https://timarit.is/page/3280407?iabr=on#page/n0/mode/2up
Þuríður Kúld: https://bragi.mmagnusson.net/ljod.php?ID=739
Þuríður Sveinbjörnsdóttir Kúld: https://www.arnastofnun.is/is/greinar/barattan-um-tungumalid-gledikonur-gledimenn-og-annad-folk

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga