Pistlar | 22. janúar 2020 - kl. 21:23
Hugsað.....Hugsað upphátt
Eftir Gunnar Rúnar Kristjánsson

Ég hef í gegnum árin oft hugsað um afhverju sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu væru ekki löngu búin að sameinast.

Það gladdi mig mjög í sumarlok 2017 að lesa yfirlýsingar frá sveitarfélögunum fjórum, sem samþykktar voru í sveitarstjórnum, að stofna nefnd er hefði það að markmiði að sameina Austur-Húnavatnssýslu í eitt sveitarfélag. Orðalag hverrar tillögu sem samþykktar voru á sveitarstjórnar- og bæjarstjórnarfundum man ég ekki en inntakið var sameining sveitarfélagana.

Sameiningarnefndin tók til starfa og unnið var mjög ötullega í málinu fyrstu fjóra mánuði ársins 2018. Ráðgjafarfyrirtækið Ráðrík ehf. var ráðið til verksins. Ráðrík hélt fundi með sameiningarnefnd og framkvæmdarráði hennar svo og félagasamtökum. Ráðrík heimsótti fyrirtæki og stofnanir á svæðinu, vann úr gögnum frá sveitarfélögunum sem og öðrum opinberum aðilum. Áfangaskýrslu var skilað til sameiningarnefndar 1. mars 2018. Ráðrík stóð í apríl fyrir fjórum fundum með íbúum sveitarfélaganna þar sem fram hvað skipti mestu fyrir íbúa A-Hún.

Svo var kosið til sveitarstjórnarkosninga. Í undanfara þeirra fannst mér lítið eða ekkert koma fram á framboðslistum um þeirra stefnu til sameiningar. Því var jafnvel haldið fram að kosningarnar snerust ekki um sameiningarmál. Eftir kosningarnar datt allt í dúnalogn. Nýjar sveitarstjórnir völdu sér fulltrúa í sameingarnefnd sem hélt sinn fyrsta fund 1. október, þar sem kosinn var formaður, varformaður og ritari. Á fundinum kynnti Guðný frá Ráðrík niðurstöður þeirrar vinnu. „Nokkrir fundarmenn tóku til máls undir þessum lið og lýstu afstöðu sinni til verkefnisins. Meðal annars kom fram að fundarmönnum finnst vantar heildar framtíðarsýn fyrir svæðið og að íbúar vita að hverju þeir ganga. Vinna þarf samfélagssáttmála fyrir svæðið áður en kosið er um sameiningu. Ennfremur þarf það að liggja fyrirhvernig ríkisvaldið ætlar að koma á móts við sveitarfélög sem eru að huga að sameiningu.[1]

Fundarmennirnir sem tóku til máls eru ekki nafngreindir. Mér finnst að þeir hafi ekki verið búnir að kynna sér vinnu Ráðríks áður en þeir létu þetta út úr sér. Hver leggur fram heildar framtíðaryfirsýn fyrir svæðið? Eru það ekki fulltrúar í sameingarnefnd og fulltrúar í sveitarstjórnum? Það er forvitnilegt að bera saman vinnubrögð við sameiningu sveitrfélaga sem hóf vinnu í lok árs 2018 við vinnubrögð vegna sameiningar sveitarfélaganna í A-Hún.

Á Austurlandi varð lögð fram spurningarkönnun í sveitarfélögunum sex sem vinna saman að félagsþjónustu og brunavörnum, þ.e. Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshrepps, Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Vopnafjarðarhrepps. Fjögur sveitarfélög sýndu áhuga á að kanna kosti og galla sameiningar. Það er ekki annað að sjá en vinnan hafi farið strax af stað og unnið hefur verið ötulega af því síðan. Kosin var samstarfsnefnd á grundvelli 119. gr. Sveitarstjórnunarlaga.[2]

Með verkefnastjórn fór samstarfsnefndinn en hún réði til sín verkefnastjóra þá Róbert Ragnarsson og Pál Björgvin Guðmundsson (RR ráðgjöf). Skipaðir voru starfshópar utan um tiltekin verkefni, Fjármál og stjórnsýsla, Fræðslu- og félagsmál, Umhverfis- og skipulagsmál, Menningarmál, Íþrótta- og tómstundamál, Eignir, veitur og B hluta fyrirtæki, Atvinnulíf, innviðir og byggðaþróun. Í starfhópunum störfuðu aðalega starfsmenn sveitarfélaganna en einnig var áhugasömum  íbúum gefin kostur á að vinna með hópunum.

Samráðsnefndinn hélt sinn síðasta fund 1. október 2019. Gengið var til kosninga 26. október 2019 þar sem sameiningin var samþykkt í öllum sveitarfélögunum fjórum. Kosið verður til nýrrar sveitarstjórnar í apríl eftir páska á yfirstandandi ári. Ég bendi öllum að kynna sér efni heimasíðu sameiningar á Austurlandi www.svausturland.is.

Til er málsháttur (að ég held) sem segir „góðir hlutir gerast hægt“. Það er líka þekkt að mál, góð eða slæm, eigi það til að sofna í nefndum. Ég hef heyrt frá nokkrum aðilum að mál eins og sameining sveitarfélaga verði að vinna hratt annars er hætt við að áhugi þeirra sem vinna í verkefninu dofni, hlutir geta gleymst og vinnan farið fyrir ofan garð og neðan.

Ef við hverfum aftur til vinnubragða í A-Hún verður ekki séð annað en vinna er lögst í dvala skv. fundargerðum Samráðsnefndar og Framkvæmdaráðs. Það rifjast upp fyrir mér að í hádegisfréttum á annan dag jóla 2018 hafi Þorleifur Ingvarsson, formaður Sameiningarnefndar, sagt að útspil stjórnvalda geti haft úrslitaáhrif um hvort að sameingu verður eður ei. Þorleifur vill nú að stjórnvöld sýni á spilin og vitnaði til vilja Sigurðar Inga, Sveitarstjórnarráðherra, til fækkunar sveitarfélaga og að jöfnunarsjóður verði notaður til að ná þessu fram á næstu árum. Þá kom fram í fréttinni að Þorleifur telji að ekki verði haldinn fundur í Sameiningarnefndinni fyrr en þessi mál skýrist. Framkvæmdaráð muni vinna í því í janúar (2019) að það fáist við þessu skýr svör um fjárframlög frá Jöfnunarsjóði og að stjórnvöld sýni á spilin. Í viðtali á Rúv í janúar var ekki að heyra að Sigurður Ingi, Sveitastjórnarráðherra, hygðist sýna á spilin eða gefa út reglugerð þar sem fram kæmi breytt hlutverk jöfnunarsjóðs. Heyra mátti greinilega að það var þungt hljóðið í Sigurði Inga.

Næstu skref má lesa í fundargerð Sameiningarnefndar frá 4. feb. 2019 þar sem tekið er fram að ekki verði kosið um sameiningu sveitarfélagana í lok árs 2019. Sameiningarnefndin er sammála um að sameiningarkosningar fari fram 2020 0g í síðasta lagi 2021 þannig að ný sveitarstjórn taki við í eftir almennar sveitastjórnarkosningar 2022 verði sameiningartillagan samþykkt. Á þessum fundi kynntu Guðný og Svanfríður, báðar frá Ráðríku, drög af málefnasamningi og samfélagssáttmála. Mér er ekki kunnugt um að þetta hafi verið gert opinbert en það kann að vera.

Í síðustu fundargerðum frá Framkvæmdaráði frá 7. janúar kemur fátt nýtt fram sem ekki hefur verið tiundað í fyrri fundargerðum. Fundargerðin frá 12. júní greinir frá að boðar hefur verið til auka þings Samtaka íslenskra Sveitarfélaga. Í dag þekkjum við niðurstöðu aukaþingsins þar sem samþykkt var þingsályktunatillaga um stækkun sveitarfélaga þannig að þau verði með 250 íbúa í sveitarstjórnarkosningunum 2022 og 1000 íbúa frá sveitarstjórnarkosningum 2026. Jöfnunarsjóður mun leggja til fjármagn vegna þessarra verkefna.

Skagabyggð er með um 90 íbúa og verður að sameinast öðru sveitarfélagi, eða fjölga íbúm fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2022. Takist það ekki verður Skagabyggð „þvingað“ til að sameinast sveitarfélagi sem ákveðið er af Sveitarstjórnarráðuneytinu. Þannig getur Sveitarstjórnarráðuneytið ákveðið að Skagabyggð sameinist Blönduósbæ. Það er ekki ólíklegt að Sveitarstjórnarráðuneytið velji þessa sameiningu því þá verður Blönduósbær með1000 íbúa. Húnavatnshreppur og Skagaströnd verða að leita eftir sameiningu við önnur sveitarfélög fyrir 2026. Þeim nægir ekki að sameinast. Náist ekki að sameinast öðrum sveitarfélögum er líklegt að þau verði sameinuð Blönduósbæ. Það er líka hugsanlegt að Húnavatnshreppur verði sameinaður Húnaþingi vestra.

Síðasti fundur Sameiningarnefndar var haldin 5. desember 2019. Verkefni þess fundar var að velja nýjan formann, en Þorleifur Ingvarsson hafði sagt sig úr nefndinni s.l. sumar. Jón Gíslason, oddviti Húnavatnshrepps, var valinn formaður. Þá var ákveðið að leita eftir samstarfi við RR ráðgjöf og Ráðrík ehf þökkuð unnin störf fyrir nefndina.

Nú þegar liggur fyrir Þingsályktunartillaga um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga, sem verður örugglega samþykkt á alþingi er ekkert til fyrirstöðu að vinda sér í vinnu um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra. Ég fullyrði að ef vel er að verki staðið er hægt að kjósa um sameiningu á hausti komanda. Verði tillagan samþykt tel ég réttast að kjósa til nýrrar sveitarstjórnar vorið 2021. Þó svo að sú sveitarstjórn sæti aðeins í eitt ár verður vinnan að sameiningu sveitarfélagana komin af stað.

Hugsað upphátt í uphafi árs
Gunnar Rúnar Kristjánsson
Áhugamaður um sveitarstjórnarmál

  [1] 6. FUNDUR SAMEININGARNEFNDAR A-HÚN

[2] Sveitastjórnarlög nr 138, 28 sept. 2011, XII kafli samein ing sveitarfélaga

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga