Pistlar | 28. mars 2020 - kl. 07:44
Máttur kærleikans
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Kærleikurinn er ekki einhver þreyttur lagabókstafur eða steinrunnir stafir. Heldur síungt og ferskt hjartalag, hugarþel, athöfn og verk sem spyrja ekki um endurgjald eða hvernig standi á.

Kærleikurinn er ekki þrasgjarn. Hann veit ekki allt best og hann veður ekki yfir. Hann hlustar og sýnir skilning. Hann virðir, umvefur, uppörvar og hvetur.

Kærleikurinn spyr ekki um eigin hag og er ekki á eigin forsendum. Hann segir ekki, þegar mér hentar, þegar ég vil eða nenni og þá þegar ég fæ sem mest út úr honum á móti.

Nei, kærleikurinn hlustar og sér. Hann opnar hjarta sitt fyrir neyð náungans, án þess að spyrja um rök eða ástæður.

Um leið og kærleikurinn er brottför frá sjálfhverfu leiðir hann til sjálfsmeðvitundar.

Kærleikurinn nær út yfir öll hagsmunasamtök og alla pólitík. Kærleikurinn er miskunnsamur. Ekki sjálfhverfur. Hann er umhyggja frá innstu hjartans rótum. Hann uppörvar og hvetur. Því hann á uppsprettu í hinni tæru lind lífsins.

Kærleikurinn kemur í veg fyrir ósætti. Hann flytur frið, leitar sátta, stuðlar að gleði og veitir fögnuð. Gleði og fögnuð sem byggður er á djúpri alvöru sem leiðir til varanlegrar hamingju. Hamingju sem breytir hjörtum fólks svo það snýr sér frá ranglæti, fálæti og óréttvísi og leiðist inn í eilíft ljós sannleikans.

Kærleikurinn er gjafmildur og þakklátur. Hann veitir hjörtunum frið. Eilífan frið sem er æðri mannlegum skilningi.

Kærleikurinn fer ekki í manngreinarálit og tekur sér ekki frí. Hann er ekki aðeins falleg orð heldur lætur hann verkin tala. Í kærleikanum er fólgin lausn, sigur og ólýsanlegur lækningamáttur.

Með kærleikans faðmlagi, samstöðu- og friðarkveðjur.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga