Pistlar | 01. apríl 2020 - kl. 16:17
Leyndardómur kærleikans
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Kærleikans vinir!

Það verður nú yfirleitt allt eitthvað svo miklu betra þar sem þið komið við og leggið lið.

Því við þurfum himnesk hjörtu fyllt ástríðu og köllun, andagift og krafti, kærleikans hugsjón með von og trú á lífið til að tala samstöðu og kjark inn í harðan heim.

Þess vegna getur þín fagra nærvera verið eins og faðmlag Guðs. Fegurðin er himneskt lífsins leyndarmál. Í gegnum hana geislar Guðs um sálirnar leika.

Friðurinn sem við sækjumst eftir

Þegar allt kemur til alls held ég að innri friður skipti okkur nánast öllu máli. Því þannig öðlumst við jafnvægi og vellíðan sem við stöðugt leitum að og sækjumst eftir.

Ég held að leiðin að því markmiði og mikilvægasta vegferðin að eigin vellíðan sé að temja sér hugarfar fyrirgefningar. Að lifa í þakklæti. Bera virðingu fyrir fólki, vera tillitssamur, jákvæður, kurteis, uppörvandi og hvetjandi. Og að temja sér listina að hlusta á fólk og gefa sig ekki út fyrir að vita alltaf allt best og þurfa ekki alltaf að eiga síðasta orðið. Baktala ekki og dæma ekki. Vera sáttfús, umhyggjusamur og umburðarlyndur. Leitast við að sjá fólk með hjartanu.

Því að friðarins faðmur breiðist yfir þegar við tökum að sjá og hlusta með hjartanu. Þá umhyggjan dýpkar og kærleikurinn vex.

Kærleikurinn er Guðs gjöf

Leyndardómur gjafar Guðs er kærleikurinn. Kærleikurinn sem sér í þér eilífðar verðmæti. Kærleikurinn sem veitir frið sem enginn skilur en gott er að fá að meðtaka, hvíla í og njóta.

Kjarni kærleikans er hjarta Guðs sem breytir refsingu í fyrirgefningu, sundurlyndi í samstöðu og dauða í eilít líf.

Með kærleiks- samstöðu- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga