Pistlar | 07. apríl 2020 - kl. 16:28
Ferðumst innanhúss um páskana og höldum fjölskylduboðin á netinu
Frá Aðgerðastjórn Almannavarna

Hin smitandi veirusýking, Covid 19, sem nú gengur yfir hefur haft mikil áhrif á allt mannlíf í Íslandi. Nú hafa um 1600 manns verið greindir með veiruna sem veldur sjúkdómnum, þar af 35 á Norðurlandi vestra. Góðu fréttirnar eru að fólk er að ná sér aftur og hafa nú 460 manns náð bata, þar af 16 á Norðurlandi vestra. Þrátt fyrir þessar góðu fréttir verðum við samt áfram að vera á tánum.

Ljóst er að vöxtur sjúkdómsins hér á landi fylgir ekki veldisvexti, eins og víða erlendis, heldur á sér stað hægfara aukning. Það er mikilvægt að þróunin haldist áfram á sama hátt.  Þar skiptum við öll máli, því öll erum við almannavarnir. Virðum samkomubannið, höldum okkur a.m.k. tvo (2) metra frá ótengdum aðilum, forðumst snertingu við aðra og viðhöldum almennu hreinlæti, reglulegum handþvotti, notum sótthreinsandi efni og forðumst að snerta andlitið.  Ef við finnum fyrir flensueinkennum þá einangrum við okkur heima. Nú eru að koma páskar þar sem algengt hefur verið að fólk komi saman til að gleðjast. Þetta árið ættum við að lágmarka það og stefna frekar að veglegri veislum þegar allt er yfir staðið.  Með slíkum aðgerðum náum við að hægja þannig á sjúkdómnum að heilbrigðiskerfi landsins ráði við að sinna þeim sem að illa veikjast.

Nú þegar nokkuð er liðið á framgang sjúkdómsins benda allar spár til þess að álagið á heilbrigðiskerfið hér á landi muni aukast jafnt og þétt. Því er mikilvægt að við reynum að lágmarka annað álag á kerfið, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Það þýðir ekki að við leitum ekki til heilbrigðisþjónustunnar þurfum við þess. Heldur þýðir það að við reynum að draga úr líkum á slysum, t.d. með því að fara ekki í ferðalög inn á hálendið og eða í skíðaferðir. Við reynum að draga úr álagi á fámennari heilsugæslu út á landi, t.d. með því að fara ekki í sumarbústaði. 

Skilaboð dagsins eru því: Ferðumst innanhúss um páskana og höldum fjölskylduboðin á netinu.

F.h. Aðgerðarstjórnar Almannavarna

Bjarni K. Kristjánsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga