Akureyri og Hlíðarfjall, séð af Svalbarðsströnd. Ljósm: IHJ
Akureyri og Hlíðarfjall, séð af Svalbarðsströnd. Ljósm: IHJ
Pistlar | 08. maí 2020 - kl. 08:49
Sögukorn af Jóni Borgfirðingi - Ég fór jökulinn ofan í Skíðadal
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Í nokkur ár hefur Jón bókavörður Árnason verið í sviðsljósi hér á Húnahorni og okkur hugstæður. Við fögnuðum  200. fæðingardegi hans norður á Skagaströnd og Hofi 17. ágúst í fyrrasumar, þökk sé fjölmörgum styrkum höndum og hugum, norðan og sunnan heiða. Hér birtist annar Jón á sjónarsviði, 7 árum yngri en þjóðsagnasafnarinn, einnig prestssonur og nýtti ungur hverja stund sem honum gafst til bókmenntar. En báðir skrifuðust þeir Jónarnir á við Jón Sigurðsson úti í Kaupmannahöfn. Og þá er komin Jónaþrenning!

Jón Borgfirðingur fæddist á Hvanneyri haustið1826, umkomulaus  vinnukonusonur. En ekki lánlaus því húsbændur móður hans komu honum fyrir í Svíra hjá Jóni fálkafangara og listamanni og Guðrúnu konu hans og þar ólst hann upp í sannkölluðum foreldrahöndum. Svo segir hann frá í ferðasögum sínum.  En fleira varð Jóni til láns á fyrstu æviárunum því nýr prestur kom til brauðsins, í Hvanneyraþingum, þegar hann var á 6. ári og tók við af séra Jóni þeim sem sagður var faðir Jóns Borgfirðings.

Nýi presturinn var Jóhann Tómasson, áður aðstoðarprestur á Tjörn á Vatnsnesi, gott skáld og gáfumaður, sem fékk strax góðan geðþokka til Jóns og hélst æ síðan. Um tvítugt fór Jón í vinnumennsku, átti illt en komst til Andrésar Vigfússonar Fjeldsted á Hvítárvöllum og fékk að æfa sig í bókiðnum og skriftum jafnframt vinnu hjá þessum húsbónda sínum, fór síðan að Hesti til bóndans sem bjó þar á móti sr. Jóhanni Hvanneyrapresti sem kom honum í skilning um reikning og dönsku þegar hann gat notið tilsagnar hans vegna annríkis. Hann fór því aftur til Andrésar á Hvítárvöllum og er þar 2 ár og kemur nú til hugar að mennta sig betur ef hann gæti haft gagn af því til lífsuppeldis. Jón var ónáttúraður fyrir skepnuhirðingu og gat ekki róið vegna sjósóttar. Hann tók því fyrir að verða laus vorið 1852, þá á 26 aldursári en var í kaupavinnu til og frá það hið góða sumar. Það ár dó fóstri hans í Svíra. Hér hefur verið rakin nokkuð æviár Jón Borgfirðings og sögð með hans orðum, en af námi sínu greinir Jón þannig:

„Eins og frá er sagt hér að ofan lagði fóstri minn frá sér búskap þremur árum fyrir andlát sitt, sem skeði 19. maí 1852.  Hjá þessum hjónum ólst eg upp á fátækrasjóði. Á 5. ári fór ég að þekkja stafina, en var alllæs á 7. ári, því ég var snemma fyrir bækur, en fátæktin og afskiptaleysið hamlaði mér frá meiri menntun. Eg bar fyrst við að krota með koli, svo með krít, án nokkurrar tilsagnar, þar til síra Jóhann gaf mér upphafsstafi og tilfæringar og fór ég þá fljótt að mynda stafi. Eg lærði að þekkja skrifstafi á þann hátt, að eg hafði daufar og máðar Finnbogarímur með settletri á upphafslínum sem eg bar saman við prent. Ekki gat eg byrjað á lærdómnum fyrr en á 9. ári því eg lá um tíma. Það ár(1935) var harður vetur og sumar hryðjusamt.

Svo leið á 14. ár mitt. Þá var ég staðfestur, 6. sunnudag eftir páska með 5 öðrum börnum. Þegar ég var á 17. ári missti eg mína góðu fóstru úr kvefsótt, sem þá gekk um landið. Þá tók fóstri minn bústýru, Ingibjörgu Halldórsdóttur. Hún eignaðist barn, sem mér var kennt. Það hlaut heiti fóstra míns, en lifði eigi nema þrjú ár."

Jón Borgfirðingur verður sjálfs sín ráðandi þegar hann kemst í lausamennskuna; Jón Jónsson segir þannig frá störfum hans og lífi í Skírni 1913, tímariti Bókmenntafélagsins: „Réði hann loks af að verða laus úr vist vorið 1852 og vinna síðan í kaupamennsku um sláttinn, svo hann kæmist af næsta vetur. Fluttist hann þá til Reykjavíkur um haustið, því þangað stóð allur hugurinn í bækurnar og menntunina. Veturinn eftir kynntist hann Jóni Árnasyni stúdent, er seinna varð landsbókavörður, og fekk nokkra tilsögn hjá honum, án þess að hann gerði reikning fyrir; urðu þeir brátt góðkunnugir, og fekk Jón Borgfirðingur að nokkru endurgoldið nafna sínum síðar, er hann fór að gefa út Þjóðsögur sínar með því að safna fyrir hann þjóðsögum og munnmælum. Jón Borgfirðingur mun í fyrstu hafa gert sér hálft í hverju von um að geta komist í skóla og gengið menntaveginn, en sá þó brátt að þess var enginn kostur bæði sakir aldurs og örbirgðar, því hann var 27 ára gamall og átti engan að, og mun tilsögn Jóns Árnasonar þá um veturinn hafa verið einasta kennslan, sem hann naut um ævina."

Jón fór fljótlega að stunda ferðir um landið til bóksölu og segir frá þeim ferðum í safnriti Finns Sigmundssonar, Úr blöðum Jóns Borgfirðings. Í annarri ferð sinni komst hann út að Búðum á Snæfellsnesi, fór þó ekki að Stapa þar sem Bjarni amtmaður, faðir Steingríms skálds sat, en hann kom að Staðastað  til „hins mikla prests, Sveins Níelssonar"  sem áður var prestur Blönddælinga þegar prestur sat í Hólum og afi Sveins Björnssonar fyrsta forseta lýðveldisins. Jón lýkur frásögn af annarri bóksöluferð sinni þannig:

„Sunnudaginn 21. apríl kom eg suður eftir langa útivist og hafði selt alls fyrir 160 rbd., bækur Egils bókbindara fyrir 82 dali, Einars prentara fyrir 53 dali, Jóns Árnasonar bókavarðar 10 dali, Sveinbjarnar Hallgrímssonar 11 dali og bækur annarra fyrir 10 dali. Svo sat ég í ró og næði heima og ritaði fyrir Jón Pétursson assessor, en ekki þótti mér það atvinnuvegur til framtíðar."

Að því kom að Jón Borgfirðingur  flutti norður í Eyjafjörð og fór í bókbandsnám til Erlends Ólafssonar í Kaupangi en notaði ferðina norður vorið 1854 til að selja bækur og er margar skorinorðar mannlýsingar að finna í ferðasögum Jóns. Hann segir:

„Í janúar 1856 fór eg bóksöluferð um Hörgárdal og Svarfaðardal og seldi fyrir 120 dali á 14 dögum. Eg var nótt á Myrká hjá síra Páli Jónssyni, gáfumanni og skáldi, sem orti þó lítið.  Hann var skemmtinn maður, lágur vexti en gildur, rauður í andliti, snareygur, augun lítil en lágu djúpt, niðurbogið nef með litlum hnút á. Bærinn Þúfnavellir er þarna skammt frá og var þar vel mennt fólk. Í Skriðu var eg nótt hjá Friðfinni Þorlákssyni, greiðamanni. Þaðan fór eg jökulinn ofan í Skíðadal og að Hnjúki, þar sem Jón bjó, búhöldur og gestrisinn." Þannig heldur Jón áfram að finna sér staðfestu við bókmenntina, hann eignast konu þennan vetur, Önnu Guðrúnu Eiríksdóttur, bóndadóttur úr Eyjafirði en ættaða að sunnan og þau giftust 13. júní að Kaupangi en Guðrún dóttir þeirra fæðist 7. ágúst.

Jón batt bækur fyrir 100 dali veturinn 1856-7 auk þess að selja bækur og komst bærilega af sitt fyrsta búskaparár. Synir þeirra Finnur og Klemens fæðast líka á Akureyri, Jón hefur stopula vinnu við bókband en fer bóksöluferðir og að því kemur að þau flytja suður með börnin sín þrjú í júnímánuði 1865 til að freista gæfunnar í höfuðborginni, þar sem hann sótti um lögreglumannsstarf og fékk starfið fyrir 150 dali á ári.  Það var ekki óskastaða, en fáir kostir í boði. JJónsson segir um nafna sinn og þessi embættisstörf hans:

„Lítill vafi getur á því leikið, að það sem hélt Jóni í þessari löngu og leiðu vist, var umhyggja fyrir börnunum, löngun til að koma þeim upp og manna vel, og það var auðsóttara í Reykjavík en annarstaðar, þótt kjörin væru þröng. Hann vildi láta þau njóta þess í fullum mæli, sem hann saknaði mest sjálfur, en það var menntunin, og var þó vandséð hvernig það mætti takast með allri fátæktinni. Það er nærri óskiljanlegt, hvernig hann fekk klofið það að koma öllum sonum sínum til menningar, en sárt þótti honum að senda þá félausa frá sér út í heiminn að afloknu skólanámi, einkum elsta soninn, sem engan átti að í Kaupmannahöfn. Hann komst þó, sem kunnugt er, vel áfram með elju sinni og atorku og varð síðan bræðrum sínum til styrktar, er seinna komu. Er þar skemmst af að segja, að fáir feður í svo örðugum kringumstæðum hafa átt jafnmiklu barnaláni að fagna, enda átti kona hans vafalaust mjög mikinn þátt í þvi með ráðdeild sinni og dugnaði, að börnin mönnuðust svo vel, og einstaklega var heimili þeirra hjóna þriflegt og snyrtilegt, þrátt fyrir fátæktina. Eftir andlát hennar, 10. apr. 1881, tók Guðrún dóttir hans við og gekk yngri systkinum sínum í móður stað. Sjálfur brá Jón búi í kringum 1890 og fluttist 1894 norður á Akureyri til Klemens sonar síns og síðan aftur með honum til Reykjavíkur 1904, er hann tók við landritaraembættinu, og hjá honum andaðist hann 20. okt. 1912. Það má með sanni segja um Jón Borgfirðing, að bann var vakinn og sofinn í bókunum og saknaði þess mest af öllu, að hann gat eigi i æsku veitt sér þá mentun, er hann þráði, og þar af leiðandi heldur ekki á fullorðinsárunum komist í þá stöðu, er væri við hans hæfi. "

Kvöldfélagið í þrettán ár

Í fámennu þorpi, Reykjavík við Faxaflóa stofnuðu menn merkilegt félags á nítjándu öldinni sem þeir Jón Árnason og Sigurður málari taka góðan þátt í og Jón Borgfirðingur fær styrk frá þegar hann gefur út Sigurð Breiðfjörð. Þessi deigla fékk nafnið Kvöldfélagið, leynifélag í Reykjavík 1861-74, stofnað af 12 bæjarbúum sem urðu fleiri er á  leið árin 13 sem félagið lifði og þar má sjá kunn nöfn s.s. Matthías Jochumsson, Kristján Fjallaskáld, Eirík Magnússon síðar bókavörð í Cambrigde og Jón Ólafsson ritstjóra en Helgi E. Helgason skólastjóri og guðfræðingur var forseti félagsins utan eitt ár en þá kom til Lárus Blöndal síðar sýslumaður á Kornsá. Tilgangur félagsins var að reyna að vekja innlent menntalíf sér í lagi í skáldskap og fögrum menntum. Síðasti fundur kvöldfélagsins var 22. maí 1874 og var einkum rætt um komandi þjóðhátíð, sem félagsmenn höfðu hvatt ósleitilega til. Um þetta leyti var komið á nýju „opnu" félagi, Hinu íslenska stúdentafélagi, síðar nefnt Stúdentafélag Reykjavíkur og tók við hlutverki Kvöldfélagsins segja þeir ELaxness&PHÁ í Íslandssögu A-Ö

Heimildir og ítarefni:
Finnur Sigmundsson Menn og minjar Rv. 1946
Jón Borgfirðingur: https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Borgfir%C3%B0ingur
Jón Borgfirðingur í Skírni 1913: https://timarit.is/page/2008582?iabr=on#page/n3/mode/2up
Jón Borgfirðingur í Mbl.: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1525563/
Finnur Jónsson málfræðingur: https://is.wikipedia.org/wiki/Finnur_J%C3%B3nsson_(m%C3%A1lfr%C3%A6%C3%B0ingur)
Klemens Jónsson landritari og fræðimaður: https://is.wikipedia.org/wiki/Klemens_J%C3%B3nsson
Klemens Jónsson/Merkir Íslendingar: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1477611/
Jón Árnason og Arnarhólsstyttan: https://is.wikipedia.org/wiki/Ing%C3%B3lfur_Arnarson_(stytta)
Skírnir 1913
Einar Laxness&Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A-Ö

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga