Pistlar | 20. maí 2020 - kl. 06:19
Smitandi kærleikur
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Í mínum huga er það alveg klárt að það hefur skipt sköpum fyrir okkur að hafa haft hið virðingarverða og vandaða þríeyki Víði, Þórólf og Ölmu í framvarðarsveitinni ásamt Páli Matthíassyni forstjóra Landspítalans og öðru því traustvekjandi forsvarsfólki sem fram hefur komið á hinum mikilvægu og trúverðugu daglegu upplýsingafundum sem haldnir hafa verið síðustu vikurnar og mánuðina. Allt þeirra framlag og framganga hefur verið til eftirtektarverðrar fyrirmyndar sem ég vona að við getum lært af og tekið með okkur sem jákvæða reynslu inn í nýja og vonandi jákvæða tíma.

Utan um haldið, upplýsingaflæðið og allt hrósið hefur hrifið okkur með og  vakið samkennd og þolgæði, úthald og stöðuglyndi hjá okkur flestum á ótrúlega furðulegum og erfiðum tímum. Ásamt einlægni ákveðnum sveigjanleika og skilningi sem hefur sáð fræjum umvefjandi kærleika og umhyggju sem streymt hefur frá þessu vandaða fólki sem hefur komið inn í líf okkar nánast sem jarðneskir englar sem hafa verið svo smitandi að við höfum tekið mark á og hlýtt Víði þannig að heilsufarslegt tjón er almennt minna og andlát færri en óttast var í fyrstu. Þau hafa með framkomu sinni og störfum mildað áhyggjur og vonleysi, ótta, einmanaleika og kvíða.

Þá er rétt að þakka og biðja fyrir hinum ómetanlegu læknum og hjúkrunarfólki og starfsfólki heilbrigðisstofnanna almennt. Jafnframt er ástæða til að þakka tónlistarfólkinu okkar sem hefur gefið af sér stytt okkur stundir.

Þá leyfi ég mér að nefna kirkjurnar sem komið hafa ferskar inn og staðið vaktina á nýstárlegan hátt og haldið utan um okkur með sinni þjónustu með því að koma með kærleikserindi kirkjunnar til okkar inn í stofu meðal annars í gegnum netið.

 Vona að þið upplifið þakklætið

Ég vona að þið finnið þakklæti okkar sem fylgst höfum með um ykkur streyma. Ég bið Guð að blessa ykkur og launa allt ykkar fallega framlag til lífsins.
Málið er nefnilega að þiggja kærleikann. Meðtaka hann af þakklæti og lifa honum af auðmýkt. Með því að finna honum farveg. Koma honum áfram svo fleiri fái notið hans.
Kærleikurinn er tær. hann er heill. Honum fylgir sannleikur og frelsi. Umhyggja, umburðarlyndi, von og traust, ábyrgð og agi.
Kærleikurinn sigrar allt. Leyfum honum að smitast frá hjarta til hjarta svo hann verði til að veita okkur varanlega lífsfyllingu og hamingju.

Með kærleiks- samstöðu- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga