Pistlar | 19. júní 2020 - kl. 09:25
Ferðakveðja
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Nú þegar sumarið er að ná hámarki, ferðalög aukast og birtan fylgir okkur í háttinn á kvöldin, þá langar mig til að biðja þess að Guðs himneska sæla, blessun, varðveisla, kærleikur, friður og andi fylgi þér og þínum hvert sem þið farið og í hverju sem þið takið ykkur fyrir hendur í sumar.

Hvort sem þið eruð heima við eða ferðist gangandi, hlaupandi, hjólandi, syndandi eða siglandi, akandi eða fljúgandi. Og ég bið þess að þið mættuð njóta lífsins og þess að vera hvar sem þið stingið niður fæti á ykkar fallega og einstaka hátt um leið og ég vona að þið látið um ykkur muna til góðs, sjálfum ykkur, umhverfinu og náunganum til heilla og blessunar.

Kærleikans Guð, uppspretta lífsins, umvefji ykkur og uppörvi, næri og styrki með smyrslum anda síns og græðandi nærveru.

Já, Guð lífsins og kærleikans, sáttarinnar, fyrirgefningarinnar og friðarins blessi þig og leiði. Hann veri þér ljós, áttaviti, skjól og skjöldur í baráttu daganna á ævinnar margsnúnu ferðum. Hann gefi okkur öllum sólríka daga, sama hvað, yl í hjarta og framtíð bjarta.

Með friðar- og kærleikskveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga