Pistlar | 29. júní 2020 - kl. 09:34
Stökuspjall: Sko, hve blómin brosa hýr
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

„Þau Stefán og Hulda Aradóttir kynntust á Æsustöðum og ein af mínum fyrstu minningum er sú að það kom lítil pakki með póstinum til Stefáns. Hann kom fram í búrið til Huldu sem var að skilja mjólkina. Ég þykist muna orðaskipti þeirra. Ég held að ég hafi spurt Stefán hvað væri í pakkanum og að hann hafi svarað að það væru „hundaskammtar.“ Hann var auðvitað að gera að gamni sínu því ég hef fyrir satt að hringarnir þeirra hafi verið í pakkanum. Stefán var 21 ári eldri en Hulda. Þau settu upp hringana á jólunum 1942 og giftust á fimmtugsafmæli hans 16. janúar 1943. Ég hef því ekki verið nema þriggja ára þegar hringarnir komu og kannski er þetta mín fyrsta minning.“

Þessi saga gerðist á Æsustöðum, sem er nú eyðijörð innst í Langadal og margur átti þar rætur s.s. Gísli organisti á Bergsstöðum, ömmubróðir minn, sem skipti á föðurleifð sinni óðalinu á Æsustöðum og prestsetrinu forna frammi í Svartárdal, flutti sjálfur þangað, en Jósefína Þóranna Pálmadóttir systir hans og amma okkar Hnjúkahlíðar-, Holts- og Ártúnasystkina bjó með  afa, Ólafi Björnssyni manni sínum upp á Mörk á Laxárdal, en fluttu þaðan eftir langan búsetu með viðkomu á tveim jörðum í Blöndudal en síðast bjuggu þau í Holti á Ásum, búskapurinn þá kominn að mestu  í hendur Pálma sonar þeirra og fjölskyldu. Á Mörk fæddust yngri börn þeirra Ingimar Guðmundur 1922-1938 og Sigríður í Ártúnum 1924

En prestsdóttirin Hólmfríður, sem skrifaði söguna af trúlofunarhringunum í póstpakkanum, ólst þá upp á Æsustöðum eins og ömmusystkini mín höfðu áður gert og flutti þaðan með söknuði eins og margur hlaut að gera á tímum örra breytinga eða til að koma undir sig fótunum eins og hjónin Hulda og Stefán gerðu eftir að þau komu til borgarinnar eins og HKG rekur í bók sinni Hjá grassins rót.

Önnur leiftrandi mynd frá penna Hólmfríðar er um Ebbu frá Súðavík:

„Ebba var bæði harðdugleg og skemmtileg, sagði mér ótal sögur að vestan svo að mér fannst ég þekkja þar hverja manneskju. Ég fékk að heyra ótal ástarævintýri Súðvíkinga. Ebba ílentist hjá okkur, fór ekki heim um haustið en var áfram allan veturinn. Þegar voraði fór hún að sækja Rögnu systur sína sem var bundin við hjólastól eftir lömunarveiki í æsku.“

Hér kemur enn örmynd úr myndasafni HKG:„Þóra Sigurðardóttir frá Leifsstöðum var vetrarstúlka hjá okkur einn vetur. Hún var mér afar góð og ég hændist mjög að henni. Hún kenndi mér að mjólka og gaf mér svolítið kaffi þótt ég væri enn lítið barn. Hún giftist síðar í Svartárdal og eignaðist börn og buru."

Og frænkan af Suðurlandi kom í Æsustaði: „Þegar  Guðrún Þórarinsdóttir frænka frá Glóru kom til okkar og var hjá okkur nokkrar sumarvikur fékk ég loks leiksystur sem ég fagnaði mjög. En ég man að ég þóttist leika við hana hennar vegna en sjálf væri ég orðin of stór til að hafa gaman af brúðum! Það var þó fjarri sanni – enda var ég bara ellefu ára.“ Hverfum nú frá þessari góðu bók HKG og litumst um í vísnasafni Stefáns vinar hennar sem gifti sig fimmtugur:

Vekjum hlátur, eyðum enn
öllum gráti og trega.
Við erum kátir vegamenn
og vinnum mátulega. St.Sv.

Framan af ævi vann Stefán á búi Ingibjargar frænku sinnar, ekkju á Botnastöðum því þurfti hún ekki að bregða búi þótt hún stæði ein eftir með börn sín.

Um Önnu Margréti Tryggvadóttur föðursystur mína orti Stefán þessa æringjavísu:

Gekk ég ungur grýttan veg
af glöpum þungum vola
en Önnu í Tungu elska ég
eins og lungun þola. St. Sv.

Ýmsir ortu í sveitinni. Sigurður sonur Sólveigar ljósmóður í Selhaga samdi ágæta hestavísu:

Augun snör sem eldingin
af æskufjöri loga.
Hröð er för þín, fákur minn
sem fljúgi ör af boga.

Sigurður í Selhaga átti það til að detta í  í heimspekilega þanka:

Illa fer ég ei með vín
oft þó verði hálfur
samt er önnur ævin mín
en ég vildi sjálfur.  SH

Gott er að fara vel með vín
og verða aldrei hálfur
en ævikjör og örlög sín
enginn mótar sjálfur. SH

Neðanskráða vísu orti Sigurður ungur drengur í Selhaga:

Geisli sumar sólar hlýr
signir jarðar veginn.
Sko, hve blómin brosa hýr
á bakkanum hinu megin.

Höfundur var þá nokkuð innan fermingaraldurs. Hann og Hafsteinn bróðir hans voru að hætta leik á lækjarbakka neðan við bæinn í Selhaga. Er þeir voru komnir upp í miðjan hólinn, stönsuðu þeir og varð litið yfir á lækjarbakkann. Þá komu hendingarnar í hugann fyrirhafnarlaust segir Sigurður í athugagrein með vísunni.

Hjá Hólmfríði Gunnarsdóttur og nýjustu sveitabók okkar Hlíðhreppinga - eins og reyndar svo fjölmargra annarra, Langdælinga, Auðkúlupresta, Mývetninga o.fl. ljúkum við svo þessu Stökuspjalli. Hún segir í formála um bókina sína:

„#Ég líka“ byltingin sem hófst 2017, leysti fjötra, ekki aðeins á þröngu sviði, heldur breytti viðhorfum í stórum hluta heimsins. Í kjölfar þeirra umbrota ákvað ég að útvíkka mögulegan lesendahóp án þess að breyta þeirri nálgun sem ég hafði hugsað mér (að skrifa fyrir niðja sína IHJ). Mig langar að ljá formæðrum mínum rödd, gera þeim meiri skil heldur en „kona hans var“ þótt þær hafi allar, að minnsta kosti um eina næturstund verið við karlmann kenndar, annars væri ég ekki til.

Þetta er engin ævisaga, síst mín, heldur sögur af fólkinu mínu frá því fyrir að ég var lítil og lék mér að stráum.

Áður en ég hóf skrifin fannst mér ég ekkert hafa að segja, ekkert muna. Vinkonur mínar hafa oft tilgreint atburði eða orðalag úr fortíðinni þar sem ég á að hafa átt hlut að máli en ég kem af fjöllum, man alls ekki eftir því, sem þær nefna og efast í hreinskilni sagt um að það hafi nokkurn tíma gerst.

En þegar ég hugsaði mig um mundi ég auðvitað ýmis atriði úr æsku minni, tímann þegar manneskjan er að mótast. En minningarnar eru hraflkenndar, fremur eins og augnabliksmynd en samfelld saga. Ég bregð því aðeins upp svipmyndum, rifja upp atburði sem geymst hafa í minni mér. Ekki þarf að taka það fram að frásögnin er huglæg, sögð frá mínum sjónarhóli eingöngu og þar sem aðrir koma við sögu, kunna þeir að hafa allt aðra sögu að segja.

En svona fannst mér þetta vera.

Gabriel Garcia Márquez orðaði þessa hugsun einhvern veginn svona og hafði að einkunnarorðum að minningum sínum: Lífið er ekki eins og því var lifað heldur eins og við munum það og segjum frá því.

Ég get sagt það strax að bernska mín leið í einhvers konar bjartsýnni tilhlökkun; mér fannst flest ganga mér í haginn og efaðist eiginlega ekki um að fullorðinsárin kæmu með sólskin og sunnanvind.

.....

Ég hafði allan minn heiður af Jónatan er haft eftir Katrínu Antoníusardóttur, konunni sem giftist Hans Jónatan, ambáttarsyninum sem stal sjálfum sér og segir frá í fróðlegri og skemmtilegri bók Gísla Pálssonar mannfræðings. Auðvitað hefur hún átt við að hann hafi verið almennileg manneskja – eins og ég segi stundum – eða „drengur góður" eins Bergþóra forðum, ekki að hann hafi verið ættstór (hvað sem það nú er?)

Það gefur ei dvergnum gildi manns

Þótt Golíat sé afi hans. . . .

Sagði mamma oft og vitnaði þar til Ibsens. Hún átti við þá heimsku að stæra sig af skyldfólki sínu, en hafði auðvitað engan veginn horn í síðu dverga. "

Viðauki:

Á döfinni: Sun. 16. ágúst verður guðsþjónusta á Hofi í tilefni 201. afmælisdags Jóns Árnasonar, verður kynnt betur sem og sögumaður í messukaffinu.

Önnur viðbót: Bókasafn A-Hún á Blönduósi vantar Strandapóstinn, kannski tekst að finna kostnaðarmann svo það merka rit geti bæst í hillur safnsins. Nýbúið er að gefa út það sem uppselt var af heftum. Þorsteinn Matthíasson skólastjóri var upphafsmaður að því riti eins og Húnavökunni okkar, en sá góði brautryðjandi var ættaður og uppalinn á Ströndum, á stórbýlinu Kaldrananesi.

Lítil saga af Laxárdal: Ingimar Guðmundur Ólafsson fæddist uppi á Laxárdalnum litlu fyrr en Mjóadalshjónin og kærir nágrannar Merkurhjóna, þau Ingibjörg og Guðmundur Erlendsson létust í mars 1922 en aðeins liðu fjórir dagar milli dánardaga þeirra. Nýfæddum nágranna voru valin nöfn eftir nöfnum þeirra. Æviár þessa Merkurmanns urðu reyndar aðeins 16, Ingimar Guðmundur lést 1938 en tveim árum síðar eignast hann nafna í systursyni, Ingimar Skaftasyni í Árholti. Annar systursonur hans, Ingi Heiðmar Jónsson er sjö árum yngri og sá þriðji, Ingimar Vignisson, dóttursonur Ingimars í Árholti, fæddist 1991 og ólst upp á Höfnum á Skaga.

Meira um Sigurð Halldórsson sem gaf vandað, stórt og vélritað vísnasafn sitt til Héraðsskjalasafns A-Hún á Blönduósi: http://stikill.123.is/blog/2017/02/24/761266/

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga