Sauðaneshús á Langanesi. Ljósm: northiceland.is
Sauðaneshús á Langanesi. Ljósm: northiceland.is
Pistlar | 07. ágúst 2020 - kl. 08:06
Sögukorn af Þorsteini Arnljótssyni kaupmanni á Þórshöfn
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Hann var elstur alsystkina sinna, hét fullu nafni Brynjólfur Þorsteinn f. 1865, d. 1921, næstur var Snæbjörn f. 1867, Óvína f. 1868, Valgerður Magnea f. 1870, Jóhanna f. 1872, Margrét Rannveig f. 1873, Halldóra f. 1876, Kristjana Sigríður f. 1879. Dóttir Arnljóts og Ingibjargar Jónassen var Jóhanna Hendrika f. 1862.

Foreldrar Þorsteins, hagfræðingurinn, presturinn og þingmaðurinn Arnljótur Ólafsson var nær fertugu þegar hann stofnaði til hjónabands með hálfþrítugri prestsdóttur, Hólmfríði Þorsteinsdóttur, en hlýddi þá ráði vina sinna, tók til við guðfræðinám og varð síðan prestur norður á Bægisá í Hörgárdal, þar sem börn þeirra hjónanna fæddust. Til Sauðaness flutti fjölskyldan 1889 þar sem Arnljótur var prestur til dauðadags 1904.

Elsti bróðirinn Brynjólfur Þorsteinn átti við vanheilsu að stríða frá æsku og öll æviár sín síðan, sem urðu alls nær 57. Máttvana og rúmfastur varð þessi myndarlegi maður, „mátti hvorki hreyfa hönd né fót, gat aðeins ofurlítið hreyft fingurna. Hann gat ekki rétt fagnandi hönd að kærum gesti, heldur varð komumaður að taka um máttlausa vinarhönd.“

Hér er vitnað til orða Sigurðar skólameistara frá Mjóadal í ritgerð hans um Þorstein, en þeir Arnljótur, faðir hans áttu  nágrenni heiman úr Langadal, Sigurður alinn upp á Æsustöðum, reyndar allmörgum árum síðar en Arnljótur sem ólst upp í stórum systkinahópi á næsta bæ, Auðólfsstöðum.

Sigurður skólameistari segir frá vini sínum Þorsteini:

„Ég skil ekki, að nokkur maður með lifandi hug, er sá Þorstein Arnljótsson, fái gleymt honum. Svo skýrskorinn var hann allur, þessi rúmfasti fyrirmaður, vöxtur hans og svipur, fas og rómur, viðmót og viðræður. Fátt hefi ég séð minnilegra en þetta þreklega karlmenni, feitan og breiðan á brjóst og herðar, liggja dag eftir dag á bakinu, ósjálfbjarga sem hvítvoðung. Aðrir urðu að færa til hendur hans, leggja þær ofan á hann eða við hlið honum eftir því sem honum þótti þægilegast í svip. Mörg var hjálpin, margt var vikið sem hann þarfnaðist. Þá er hann símtalaði, varð að leggja heyrnartólið við hlust honum. Mata varð hann sem barn, hverjum bita sem í munn honum fór, var stungið á gaffli að vörum honum. Reisa lét hann sig einu sinni á dag og sat hann uppi nálægt hálfri stund eða þar um bil. Skrifaði hann þá stundum eða las og varð að fletta fyrir hann bókinni. Fannst mér til um hvað að honum sópaði, þá er ég fyrsta sinni sá hann sitja uppi.

Hann var móeygur og mikilleitur, einkennilega sundurleitar rúnir ristnar í svipinn. Virtist mér hann þá skuggalegur, glaðlegur og aðlaðandi í senn, en það bar frá, hve fyrirmannlegur hann var. En því lengur sem ég var samvistum við hann, því betur kunni ég við andlit hans og yfirbragð, því færra hratt frá, því fleira dró að. Rómurinn var einkennilegur, einkarskýr og karlmannlegur, furðulega seinn og dragandi. Hann var manna ræðnastur og kenndi þess brátt í viðtali við hann, að hann var maður orðs og anda, ímyndunarafls og rökhyggju, merkilega skilningsglöggur á mannleg efni. Hann var skapaður rithöfundur, þótt kalla megi, að engin liggi ritgerðin eftir hann.

Fljótsögð er ævi Þorsteins Arnljótssonar að utanverðu. Til 39 ára aldurs dvelst hann að kalla óslitið með foreldrum sínum, fyrst á Bægisá, til 1889 og síðan á Sauðanesi á Langanesi til 1905. Foreldrar hans létust sama ár, 1904. Hann fór til Kaupmannahafnar haustið 1880, dvaldist þar vetrarlangt, leitaði lækna, en árangurslaust. Veturinn 1881-82 stundaði hann nám í Reykjavík, ætlaði þá um vorið að ganga undir próf í Lærða skólanum, en hætti við, enda hafði vanheilsa hans ágerst syðra. Nokkrum árum síðar gerðist hann barnakennari á Akureyri. Hann fluttist til Þórshafnar 1905, hóf þar verslun, er hann rak til æviloka, 26. nóvember 1921.

Að innanverðu er saga hans ekki eins auðsögð. Hugraunir hans á þroska- og uppvaxtarárum hans verða seint raktar. Þegar í bernsku tók að bera á veiklun hans á þann hátt, að hann gerðist óstyrkur í fótum. En snemma bar á hæfileikum hans afbrigða-miklum. En því þyngra hefir honum verið á einverustundum þau árin er honum elnaði sjúkdómurinn hægt og hægt en jafnt og þétt.... 

En þetta stríða böl vann ekki varanlegan sigur á lífslöngum hans. Sannaðist hér sem oftar, að ekkert veitir slíkan styrk í hríðum og hreggi ævinnar sem stæltur andi, fjöldi andlegra áhugefna. Mótlætið snerist að sumu leyti í andlegan hagnað. Svo undarleg eru lífsins lög og leiðir.

Lífsmæða Þorsteins Arnljótssonar hefir án efa flýtt fyrir þroska hans. Eldar hennar lofuðu honum ekki - í andlegum skilningi - að halda kyrru fyrir. Hann hefir án efa velt því fyrir sér aftur og aftur og þrásinnis aftur, hví hann væri slíkur „óskmögur ógæfunnar“. Hann varð að spyrja, vita, hugsa um ævikjör vor hörð og rúnir og ráðgátur lífs og dauða. Hér hefir langvinnur sjúkdómur reynst frömuður andlegs lífs og dauða. Það hefir og gagnast þroska hans, að hann fór utan 15 vetra gamall og dvaldist þá í Kaupmannahöfn. Kynntist hann þá ýmsum menntamönnum, er síðar urðu eða löngu voru nafnkunnir orðnir, t.d. fornvini föður hans, Gísla Brynjólfssyni. Og hann var ekki iðjulaus um veturinn. Þessum stutta Hafnartíma sínum varði hann til náms. Komst hann þá niður í þýsku og ensku, en síðar nam hann frönsku. Hann las, auk Norðurlandamála, viðstöðulítið þrjár höfuðtungur álfu vorrar.

Þorsteinn hefir og stórum grætt á samvistum við menntamanninn föður sinn. Sjá má það á bréfum séra Arnljóts til hans að snemma hefir hann tekið að ræða við þennan son sinn um margvísleg efni, er hann fékkst við. Hvar þess er hann leggur honum ráð, rökstyður hann þau rækilega. En slíkt gleymist of oft uppalendum og leiðtogum ungra manna.

Þorsteinn hætti ekki námi, þótt hann neyddist til að hverfa frá skólanámi. Sjúkdómurinn veitti honum nú það, sem sumir þrá alla ævi, en aldrei hlotnast - næði til frjálsra menntaiðkana. Dvalarár hans í föðurgarði má kalla námsár hans. Hann sótti góðan skóla, þar sem voru bókaskápar föður hans. Þeir eru fágætir, skólarnir þeir, er jafnast á við kappsamlega hagnýting góðs bókasafns. Sjaldan hefur íslenskur sveitaprestur átt slíkan bókakost sem séra Arnljótur.

Áhugaefnum þeirra feðga, séra Arnljóts og Þorsteins, var í sumu ólíkt farið. Arnljótur las mest þjóðmegunarfræði, heimspeki og skyldar greinar, að minnsta kosti seinni hluta ævi. Þorsteinn hneigðist meir að fagurfræðilegum menntum. Framan af iðkaði hann heimspeki, einkum rökfræði og sálarfræði. Ungur gleypti hann í sig fornsögur vorar. Hann var þeim þaulkunnugur og hann hafði lesið þær með meiri lífsskilningi en margir fræðimenn, er setið hafa yfir þeim heila mannsævi og getið hafa sér góðan orðstír fyrir afrek í norrænum vísindum og fræðum. Söngelskur var hann og söngvís, hafði leikið vel á orgel, meðan honum entist máttur til. Hann hafði og næmt skyn á fegurð náttúrunnar. Vorið 1882 ferðaðist hann landveg úr Reykjavík norður að Bægisá. Dáðist ég að því, hversu vel hann mundi, nærfellt 40 árum síðar, staði þá suma, er hann hafði komið á, og gerði sér grein fyrir, í hverju náttúrufegurð þeirra væri fólgin. Ég hefi og engum manni kynnst, er hafði jafnmikla ánægju af því að virða fyrir sér andlit manna. Hann bað oft að sýna sér andlitsmyndir, bæði prentaðar og óprentaðar og athugaði þær gaumgæfilega. Hann var og fróður um aflraunir og aflraunamenn, vöxt þeirra og jafnvel líkamsþyngd.

Sr. Arnljótur bjó stórbúi á Sauðanesi 14 ár. Heimilið þar hefir á þeim árum verið eitt hið fyrirmannlegasta og skemmtilegasta heimili landsins. Þessi sjúklingur hafði meira við að una en flestir heilbrigðir og veittist þannig nokkur harmabót. Hann tók þátt í gleðskap, sat að drykkju með gestum föður síns meðan hann mátti uppréttur sitja.

Geta ber og eins er orkað hefir drjúgum á Þorstein Arnljótsson. Ég á við stjórnmáladeilur og ýmiskonar erjur föður hans. Arnljótur lagðist fast á móti Benedikt Sveinssyni og endurskoðunarstefnu hans. Gerðist hann af þeim sökum og fleiri greinum lítt þokkaður af alþýðu víðs vegar um land. Á ráðgjafarþingum hafði hann látið lýðhylli sökum andstöðu við Jón Sigurðsson. Beitti hann sér gegn forseta í stjórnarskrárbaráttunni fyrri og var aldrei fullkomlega fyrirgefið. . . . Þessi mótspyrna manna gegn föður hans olli beiskju í brjósti sonarins, dró úr virðingu hans fyrir almannadómum, fjarlægði hann fjöldanum og gerði hann á margan veg gagnrýnni. Hann fylgdi föður sínum fast að stjórnmálum....

Það var mikið áfall er Þorsteinn Arnljótsson missti foreldra sína sama árið. Um líkt leyti minnkaði máttur hans svo, að hann lagðist algerlega á bakið og lá á því það sem eftir ævinnar eða alls kringum 15 ár. Varð honum síðan örðugt um lestur. Var engu líkara en goðin væru að reyna hvaða mannraunir mætti bjóða honum, hve mikið hann þyldi. En þá kom í ljós, hvílíkt þrek og manntak bjó í honum. Nú reis hann öndverður gegn örlögum sínum og óhamingju. Hann tekur til starfa og sýslu er líkaminn leggst lágt og lémagna. Þá er hann gerist ósjálfbjarga, verður hann sjálfbjarga. Hjálparþurfi hjálpar hann öðrum betur en flestir heilbrigðir. Hann gerist stoð og stytta nánustu vandamanna, hefir forystu í tilverustríði þeirra. Nú byrja starfsárin, er hann mátti eigi svo mikið sem hreyfa hönd né fót né liggja á hliðinni.

Hann flutti til Þórshafnar vorið 1905, eftir andlát foreldra sinna. Hann hefir kaupsýslu, byrjar smátt, byrjaði á Sauðanesi á útvegun orgela frá Vesturheimi. Hér varð „mjór mikils vísir“. Hann færir út kvíarnar, hægt og hægt, fer að sem hygginn bóndi, er smástækkar bú sitt. Hann kom að lokum upp álitlegri verslun, eftir því sem tök voru á í litlu kauptúni á útnesi lands. Auk verslunarinnar rekur hann dálítinn sjávarútveg. Hann stundar einnig búskap, átti kýr, kindur og hesta. Gegnir furðu, hve vel honum gekk atvinna sín, þar sem hann gat aldrei komið í búð sína, aldrei gengið um sýslur sína og því ekkert eftirlit haft. Er auðsætt, að hann hefir átt sér trúan aðstoðarmann. En á honum sat höfuðið, er stýrði allri kaupsýslu og umsýslu, smárri og stórri. Ekkert var gert án hans vitundar og samþykkis. Hann vissi um allt og réði öllu, bæði innan stokks og utan húss. Kom stálminni hans honum hér í góðar þarfir. Er mér sagt, að hann hafi lengi munað allar pantanir sínar, enda orðaði hann sjálfur viðskiptabréf sín. Hann samdi sjálfur við reikningsmenn sína og var oft ónæðisamt inni hjá sjúklingnum. Í bréfi, dags. 17. júní 1919, kveður hann „daglegt ónæði viðskiptamanna mikið, svo að það situr oft á hakanum sem mér væri kærast að sinna.“ Í öðru bréfi kvartar hann undan, að gestir eyði fyrir sér tímanum með „verslunarerindum sínum“. Var hann um skeið sæmilega efnaður, þótt hann á margan hátt sparaði eigi fé. Þá er kaupfélag var stofnað á Langanesi, gengu efni hans nokkuð til þurrðar. En tekinn var hann, að sögn, að rétta við, er hann lést. Hann hefir vart þurft mjög að óttast samkeppni kaupfélagsmanna. Er þessi sigursæld hans því merkilegri, er hann stóð svo illa að vígi í stöðu sinni, sem hann í ofanálag var óhneigðari fyrir en flest annað. Hann kaus sér stöðu sína eingöngu af þeirri ástæðu, að hann átti ekki annars völ. Vinur hans nyrðra, hr. Jón Guðmundsson í Garði, er talaði við útför hans, segir í ræðunni: Var kaupmennskan ekki hans rétta hilla... enda minnist hann á það við kunningja sína og var hann þó ekki vanur að kvarta.

Þorsteinn Arnljótsson var höfðingi heim að sækja, veitti gestum og gangandi með fornri rausn. Við bar, að hann vakti fram á bjartan dag með góðum gestum, er sátu að sumbli inni hjá honum, liggjandi á bakinu að vanda. Dreypti hann á drykknum til samlætis og var hinn kátasti. Var bæði skemmtilegt og fróðlegt að kynnast heimili hans svo að seint fyrnist. Hér var heimili, er stóð á gömlu menningarmerg. Þótt ekki væri borist á í húsbúnaði, var á öllu fyrirmennskubragur, sniðföst kurteisi í orðum og háttum svo að fátítt er á voru landi. Hér var andað að sér minningalofti, hér lifðu látnir skörungar þjóðar vorrar í minning og sögnum, með svip þeirra og einkennum, svörum og háttum. Var sem Þorsteinn hefði verið samvistum við þá ýmsa, t.d. Brynjólf Pétursson, Grím Thomsen, Gísla Brynjólfsson, Benedikt Sveinsson, Jón á Gautlöndum, Einar í Nesi, Tryggva Gunnarsson o. fl. Var gaman að tala við hann um þessa þjóðkunnu merkismenn, hlýða á sögur hans af þeim og skoðanir hans á þeim.

Það er miklu meira en meðalþrek sem til þess þarf að liggja á bakinu 15-16 ár, koma á stofn slíkri kaupsýslu og reka hana á slíkan hátt, sem Þorsteinn gerði Arnljótsson, vera um leið síveitandi, skemmtandi, fræðandi, andlegur velvakandi og djúphugsandi maður, sem hann var.“

Og hefst nú IV. og næstsíðasti kaflinn í ritgerð Sigurðar:

„Ég hefi sjaldan kynnst skemmtilegri manni en Þorsteini Arnljótssyni. Á ánægju að viðræðum skyggði það eitt, sem var þó smámunir, að hann talaði fullseint. Margt bar til skemmtunar að samræðum við hann. Hann var gamansamur og meinfyndinn. Ræða hans var bæði römmu og sætu kryddi krydduð. Hann þurfti ekki alltaf að tala um sama efni. Hann talaði með sama fjöri, fróðleik og skilningi um ýms hversdagslegustu efni og æðstu rök. Það jók á ánægju að viðtali við hann, hve skýrt hann sagði frá og hve vel hann orðað allt, er hann lét sér um munn fara. Það var jafnörðugt að misskilja hann og það var stundum erfitt að vera honum sammála.

Að máli hans var unun. Ég hefi aldrei heyrt mjallhreinni né málmskærri íslensku hljóma á nokkurs manns vörum en hans er honum tókst upp. Hann talaði fornyrðum skotið sveitamál, litskýrt og þróttmikið. Orðgnóttin var aðdáanleg, óþrjótandi:

„Yndi var á öllum fundum
orða þinna töfraforði“

kvað Matthías um föður hans og var slíkt eigi síður sannmæli um soninn... Þorsteinn bar skarpt skyn á stíl, var óvenju næmur á merkingar og merkingabrigði orða, hvort þau áttu við eður eigi í tilteknu sambandi, sögðu einmitt það, er segja skyldi á þessum stað. Er slík orðvísi rithöfundareinkenni. Það var stundum hugarleikur hans á beði sínum að brjóta til mergjar merkingar orða, gera sér grein fyrir, hvernig þau væru hugsuð. „Yndi þitt var allt að grunda“, kvað Matthías um föður hans....

Þorsteinn Arnljótsson var rökvís maður, fetaði sig áfram eftir braut beinna ályktana. Virtist mér hann þá stundum lenda fyrir utan garða veruleikans, honum sjást yfir forsendur, sem eigi mátti gleyma. Það var eigi hægðarleikur að þoka sannfæring hans um set, sem oft verður reyndin á um menn með slíku gáfnafari. En hann var líka mikill leiftramaður. Um hann mátti með sanni segja sem um Odd Hjaltalín, að „önd hans var auðug“ og „bjó í skyndi“ „kátlegar kynjamyndir“, „skjaldmeyjar, skrípitröll og skóga hugmynda.“ Hann er án efa langsamlega mesti andans maður er komið hefur í íslenska kaupmannastétt.

Skjótt varð ég þess var, er ég dvaldist í Þórshöfn, að eigi voru allir honum vinveittir norður þar. Þótt allir könnuðust við hæfileika hans frábæra, var sumum eigi um hann gefið og kynnst hefi ég mönnum, er mér virtust bera til hans kaldan hug. Ég gerði mér nokkurt far um að grafast fyrir hvað ylli en varð lítils vísari. Menn játuðu, að hann væri áreiðanlegur í viðskiptum og seldi vandaðar vörur. En mér virtist stöku mönnum finnast líkt um hann og Þorgils Höllusyni um Snorra goða, að þeir hefðu kennt kaldra ráða undan rifjum hans. Sumir kölluðu hann eigi allan þar sem hann væri séður....

En heyrum hvað vinurinn, hr. Jón Guðmundsson, mælti yfir kistu hans, í návist hryggra ástvina:

„Oft furðaði ég mig á því, að allir, sem þekktu hann, skyldu ekki virða hann og elska, jafn-aðlaðandi maður og hann var.... Eitt hið allra sorglegasta við jarðlífið eru sannindi þess, að „eins líf er annars dauði“... Fyrir utan hina harðvígu samkeppni á aðra hönd þarf hann að glíma við ýmsar lægstu hvatir mannanna, eigingirnina og allt hennar afsprengi. En hann stóð verr að vígi í þessari baráttu en þeir sem hafa heilum limum á að skipa. Hann varð því að neyta þeirra krafta, er hann hafði umfram aðra, vitsmunanna, en þau vopn eru ekki eins sýnileg í daglega lífinu. Og af því skammsýnum mönnum virtist leiðin hér svo auðveld til sigurs en urðu þó að lúta hinu ósýnilega afli, fannst þeim það svo auðmýkjandi.“ Höf./Jón í Garði bætir því við, að Þorsteinn Arnljótsson hafi í þessu efni farið vel með vit sitt. En er ekki hætt við, að þeir bregði fyrir sig ráð- eða lögkrókum, vitsmunirnir, er með er sótt í „harðvígri samkeppni“ og í „glímu við ýmsar lægstu hvatir mannanna, eigingirnina og allt hennar afsprengi“.

Í eðli hans má finna sitthvað, sem hrundið gat frá honum og valdið andúð í garð hans. Á því áttu gáfur hans sök, að glettni hans og meinyrði bæði hæfðu og bitu svo að um sár þurfti að binda eftir eggjar þeirra og odda. Það leyndi sér og ekki, að hún var sterk í honum hvötin sú, sem í fornöld gerði menn að bardaga- og vígamönnum, en í nútíð að málaferla- og ritdeilumönnum. Líktist hann hér Ívari beinlausa. Hann vildi áreiðanlega ekki láta hlut sinn. Það var eðli hans fjarri, það boðorð, að sá skyldi vægja, sem vit hefði meira. Þess varð ég var þennan stutta tíma, sem ég dvaldist á heimili hans, að hann gat með kappi deilt um smámuni. Það bjó í honum eitthvað af því eðli, sem verður strá að deiluefni, líkt og skáldið mikla kemst að orði. Það er eins og sumum sé þras og þrætur nauðsynlegt fjörlyf eður örvandi drykkur, er varnar önd þeirra að trénast eða verða að stöðupolli. Ég hygg, að þeir feðgar, séra Arnljótur og Þorsteinn, hafi átt heima í þessum flokki, enda var Arnljótur í báðar ættir af bardagablóði runninn og alinn upp í ófriðar- og illindasveit. Er og hætt við, að fábreytni og fásinni á útskaga eða í menningarsnauðri sveit magni bardagahvötina, auki deiluþörfina.

Þorsteini var hér sjaldgæflega farið. Hann var gæddur næmum og liprum skilningi listamannsins á mörgu því, er henda má breyska bræður á illa vörðuðum ævivegi. Hann hafði þörf á að glíma við höfuðgátuna þá, hvað leyndist bak við tjald lífs og dauða, í hvert horf skyldi haldið í dómum og líferni og var þar tamt að vega rök og gagnrök, tefla líkum gegn líkum. En hann var jafnframt málflutningsmaður, er fyrir hvern mun vildi sigrast á andstæðingi eður andmælanda og varð þess snemma vart. Föðurfrændi hans, Sæmundur læknir Bjarnhéðinsson, er var honum ungum samtíða á Bægisá, hefir sagt mér, að hann hafi þá verið óvæginn og fylginn sér í kappræðum. Annar maður, nákominn og nákunnugur Þorsteini, hefir sagt mér, að hann hafi á fyrri árum verið mun harðsnúnari í orðasennum en faðir hans. Séra Arnljótur hafi stundum látið undan síga, játað rökum andmælanda. Þorsteinn hafi alltaf setið fastur við sinn keip. Þá er þannig er barist, er mönnum meira um það hugað að verða ofan á heldur en hitt, hvað satt sé og rétt. Leikmanni virðist málflutningsgáfan hættuleg, ekki óskyld sverðunum fornu, er þau álög hvíldu á, að þau skyldu vinna níðingsverk....

Þótt Þorsteinn væri stundum meinyrtur, sem fyrr er ritað, var hann ekki einn þeirra, sem öllum niðra. Sá var ekki formælandalaus, er hann varði, hvort sem í hlut átti maður eða málsstaður. Og hvað sem leið ráðum hans og krókaleiðum, er sumum stóð beygur af, er víst, að honum var ólagið að „muldra“ sannfæring sína „ofan í bringu“ sem skáldið kveður. En aldrei skaust honum kurteisin í orðaskiptum, þá er ég hlýddi á. En samfara deilulund hans var mikil hlýja, er aflaði honum einlægra velunnara og vina. Hann var mikill fyrir sér í ástúð og andúð, gerr úr „frosti og funa“.

Hann tók þátt í kosningasnerrum í kjördæmi og sveit. Ég efa eigi, að hann hafi reynst þar liðfær á við ýmsa heilbrigða. Í þjóðfélagsmálum var hann heldur íhaldssamur og var þar í mörgum efnum svipaðrar skoðunar og faðir hans hélt fram í Auðfræði sinni. Samt var hann mannúðarmaður, reyndist vel fátækum, að því er mér er sagt af vandalausum, léði og hjálpaði, þar er aðrir höfðu synjað. Hr. Jón Guðmundsson ritar:„Það var engin tilviljun, að flestir fátæklingar hér voru reikningsmenn Þorsteins Arnljótssonar“. Og hann segir síðar: „Hygg ég að flestir hér kveðji hann með hlýjum hug, en þó sérstaklega smælingjarnir“.

Sigurður segir í upphafi V. og lokakafla þáttarins:

„Í upphafi ritgerðar þessarar vék ég að því, að hann hefði eigi verið gæfumaður. Ef til vill mælti ég þar að nokkru eins og svonefnd heilbrigð skynsemi eða fávísar konur tala. Það er ekki auðskorið úr því, hver er gæfumaður. Oft leynist gæfa í ógæfulíki og ógæfa í gæfulíki. Öllu má venjast að nokkru, meira að segja löngum veikindum og jafnvel fangelsisvist.

Að lokum örfáar athugasemdir um þetta efni.

Á það má benda þeim sem hyggja gæfuna fólgna í gleði, að glaðværð og gamansemi léku oft við legurúm hans. Hr. Jón Guðmundsson ritar:„Oft kom ég hryggur í huga inn til hans, en aldrei hafði ég dvalið þar lengi svo, að mér yrði ekki létt í skapi.“ Og hann bætir við:„En bjartsýni hans var öðru vísi háttað en flestra annarra. Hann reyndi aldrei að villa sér sýn á hlutunum og lífinu með því að einblína á aðra hliðina en forðast hina. Það verður flestum, þegar þeir vilja gleðja sig og aðra, að draga gleymskuhulu yfir skuggahliðina og snúa sér að birtunni. En hann reyndi ekki til að fá menn til að gleyma því sem að amaði, heldur til að líta á það með augum hins sannþroskaða manns“.

Hér lýkur ræðu Jóns Guðmundssonar í Garði en Sigurður tekur við:

„Allt er þetta vel og réttilega athugað. Hvorki hæfileikar hans né aðstaða veittu honum færi á að hugga sig á nokkurri lífslygi, sem Ibsen kallar. Hver dagur og hver leifturstund minntu hann á æviböl hans. Hann vænti héðan í frá einskis bata, ekki metorða né meiri auðs. Hann gat ekki skipt um stöðu, trauðla um aðsetursstað. Hann gat ekki á neinn hátt orðið ginningarfífl gæfunnar. Hann gat ekki vænst mikillar andlegrar þroskabótar, því síður meiri lærdóms. Hann varð að horfast í augu við beiskan sannleikann, hugga sig við hann eða lifa án huggunar. Hann átti því láni að fagna, að sú gæfa sem honum hlotnaðist, var ólogin, ófölsuð. Hún var raunsönn sem sjúkdómur hans og æviböl, var samgróin persónuleik hans og hugarauði, en hvíldi ekki á utanverðum sjóðum, né gögnum, né draumskrökum. Því var hún líka ósvikin, huggun sú og hressing er frá honum lagði til þunglyndra og þjáðra.

Skylt þessu er það, að hann var undir niðri hógvær og lítillátur, fannst fátt til um framkvæmdir sínar og störf. Hann var svo mikill vitmaður, að hann gat hvorki talið sér trú um, að hann hefði gert það, sem hann hafði eigi gert, né miklast af kaupmannsgróða sínum, sem sumum óvitrum stéttarbræðrum hans og fjárhappamönnum stríðsáranna veittist raunalega auðvelt. Hann sá líka muninn mikla á því, sem var og verða mátti, hvað hann var og hefði getað orðið. Af þessu spratt hæverska, sem alltaf er hið „fegursta blóm“. Hann ritar 5. mars 1920: „Égveit vel, að ég hefi ekkert verulegt mér til ágætis þó að úr mér kynni eitthvað að hafa orðið, ef ég hefði fengið að njóta fullrar heilsu og líkamskrafta. En ég hefi þá eðlilega sloppið við að verða hégómamaður“. Þessi máttvana sjúklingur, sem framkvæma virtist mikið eftir heilsu og biluðu líkamsafli ásakar sjálfan sig um framkvæmdaleysi:„Ég hefi nóg af góðum ásetningi, en framkvæmdirnar verða, því miður, oftast nær minni“. Þessi hæverska hans var áreiðanlega ekki uppgerð ein. Hennar varð vart í viðtali og viðkynning. Þá er honum voru stundum þakkaðar veitingar eða ýmiskonar greiði, var eins og honum fyndist ekkert að þakka. Hefi ég fáum kynnst honum líkum í þessu efni. 

Saga Þorsteins er örlagasaga, einstök í árbókum þjóðar vorrar. Hún geymir stórmerkilegan fróðleik um mannlegt líf. Því hefi ég sagt eins rækilega frá henni og mér var unnt. Hún sýnir að lífið á margra kosta völ. Þótt þetta eða hitt bregðist, má í staðinn fá annað er gagna má....

Þorsteinn Arnljótsson á marga raunabræður þótt ekki beri eins á böli þeirra og harmi hans. Við heiðavötn lífsins getur margan svan, er una verður ævi við brotna vængi og bilaða sundfætur.“

Heimild: Sigurður Guðmundsson 1878-1949: Ívar beinlausi endurborinn/Tímaritið Eimreiðin 1923

Þessi ritgerð um Þorstein Arnljótsson kemur úr penna og huga Sigurðar skólameistara, sem byggir hana upp með líkingu við Ívar beinlausa, ógangfæran herkonung sem bera varð á skjöldum eða stöngum en fór með bræðrum sínum í herferðir og hafði þar forystu og „fann ráðin og brögðin er unnu borgir og stórsigra.“ Það efni er fellt niður en mikill hluti ritgerðarinnar birtur, stafsetning færð til nútíma nema sögnin hefir sem heldur hér sinni aldargömlu mynd til að minna okkur á að þarna er texti frá þessum snjalla rithöfundi og íslenskumanni.

Eftirmáli IHJ:

Amma mín, Jósefína Pálmadóttir í Holti, hafði dálæti á frænda sínum og sveitunga Sigurði skólameistara Guðmundssyni og skrifum hans, sem rifjast upp þegar ég rakst á þennan ítarlega og snjalla þátt meistarans um Þorstein prestsson frá Sauðanesi í snjáðri og lúinni bók frá Lestrarfélagi Þingvallahrepps og geri hér tilraun til að birta hann að nýju eftir tæpa öld.  Aðgangs Jóa í Stapa að Íslendingabók hef ég fengið að njóta með honum síðustu tvo áratugi, en Jói er kominn af Snæbirningum í Vatnsdal - frá sr. Snæbirni og Sigríði Sigvaldadóttur í Grímstungu(1800). Formóðir Jóa, prestsdóttirin Margrét Snæbjörnsdóttir húsmóðir á Auðólfsstöðum var einnig móðir Arnljóts Ólafssonar sem kom víða við þjóðarsöguna, allt frá Pereatinu 1850 til Endurminninga Friðriks Guðmundssonar sveitunga og sóknarbarns sr. Arnljóts á Langanesinu. Gott er og að minnast þess að það var sr. Arnljótur sem upphaflega - 1875 - bar fram tillöguna um Möðruvallaskólann sem braut síðar ísinn fyrir stofnun Menntaskólans á Akureyri 1930.

A. Orðkyngi Sigurðar skólameistara MA var við brugðið og mér ánægjuefni að lesa þátt hans um þennan snjalla en hamlaða Norðlending og fiska úr henni mergjaðar setningar eða orðmyndir. Sjá t.d.: Skýrskorinn, djúpsett samúð, goð bjóða mannraunir, ganga um sýslur sínar, sniðföst kurteisi, hljómur mjallhreinnar og málmsskærrar íslensku, minningaloft, hugarleikur, raunaroði, mikill leiftramaður, harðvíg samkeppni, kúnni Síbylju fylgdi skrílkraftur, hugkvæmilegur orðhengilsháttur o. fl.

B. Jóhanna Arnljótsdóttir Hemmert f. 1872, systir Þorsteins  var verslunarstjórafrú á Skagaströnd 1901, var þar í 20 ár, á Blönduósi um 1930, fluttist þaðan til Reykjavíkur 1939 Ísl.bók.

C. „Valgerður, systir Þorsteins, þjáist af sama sjúkdómi sem hann en er ekki eins aflvana. Hún situr stuðningslaus upprétt, hefir handstyrk meiri en bróðir hennar, þótt mjög sé henni þorrinn máttur í höndum. Hún er kona stórgáfuð, höfðingleg og einkennileg í sjón og raun. Virðist sú kynfylgja móðurfrænda Arnljóts prests, að á sumum þeirra hafa fátíð og óblíð örlög dunið. En gæddir voru þeir miklum hæfileikum og fjölbreyttum. Myndu sumir þeirra nú á dögum kallaðir „marglyndir“. Hefir það komið þeim í koll, valdið að nokkru raunum þeirra og ógæfu“ segir Sig.Guðm. skólameistari í grein sinni Ívar beinlausi endurborinn/Eimreiðin 1923 sem þátturinn hér að ofan er tekinn úr.

D. Í Langnesingasögu segir:„Árið 1905 stofnaði Þorsteinn verslun á Þórshöfn og keypti hús bræðranna Björns og Friðriks Guðmundssona. Hann átti við vanheilsu að stríða frá æsku. Um tíma fékkst hann við barnakennslu á Akureyri en sjúkleiki hans ágerðist og hann varð lamaður á höndum og fótum og algerlega ósjálfbjarga líkamlega. Þess vegna hafði hann alla tíð verslunarstjóra. Sá var Davíð Kristjánsson mágur hans, kvæntur Halldóru Arnljótsdóttur. Árið 1910 byggði Þorsteinn hús úr steinsteypu fyrir verslun sína. Það stóð norðvestan við Örumsverslun. Auk alhliða varnings verslaði Þorsteinn með hljóðfæri. Var hann umboðsmaður hljóðfæraverksmiðja bæði í Evrópu og Ameríku og hafði viðskipti með hljóðfæri um allt land. Þá rak hann líka útgerð og búskap. Átti hann bryggju á Þórshöfn fyrir atvinnurekstur sinn eins og stærstu fyrirtækin. Þorsteinn var ókvæntur en átti dóttur með Rósu Friðbjarnardóttur og son með Margréti Jónsdóttur. Þorsteinsverslun var um árabil önnur helsta verslun á Þórshöfn og var starfrækt til dauða Þorsteins árið 1921“. Friðrik G. Olgeirsson Langnesingasaga 1 bls. 322

Fleiri heimildir:

Myndir af Arnljóti Ólafssyni á Bægisá/Sauðanesi: https://www.bing.com/search?form=MOZLBR&pc=MOZD&q=arnlj%C3%B3tur+%C3%B3lafsson
Sig. Guðm. skólameistari - Öll ritgerð hans um Þorstein Arnljótsson: https://timarit.is/page/4819767?iabr=on#page/n0/mode/2up/search/%C3%BEorsteinn%20arnlj%C3%B3tsson

Vísindavefurinn: Arnljótur Ólafsson: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63031
Friðrik Guðmundsson/Endurminningar Um Arnljót prest á Sauðanesi: http://stikill.123.is/blog/2011/10/18/547408/
Sauðneshúsið: https://www.northiceland.is/is/afthreying/thjonusta/saudaneshus-the-old-vicarage-langanes

Ingi Heiðmar Jónsson
 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga