Hofskirkja. Ljósmynd: kirkjukort.net
Hofskirkja. Ljósmynd: kirkjukort.net
Pistlar | 17. ágúst 2020 - kl. 09:43
Sögukorn: Hofskirkja hefur alltaf verið vinsæl
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Marmarans höll er sem moldarhrúga
musteri Guðs eru hjörtun sem trúa. EBen

Á þessum ljóðlínum „skáldsins okkar" byrjar Sigurður á Örlygsstöðum þátt sinn af „Hofskirkju á Skagaströnd" í Húnavöku 1979 og fer að rifja upp ástand kirkjunnar þegar Jón Þórðarson prófastur á Auðkúlu visiteraði söfnuðinn vorið 1868:

„Kirkjuhúsið var svo að falli komið að ekki var talið fært að koma þar saman til messuhalds. Enginn umsækjandi var um Hofsprestakall svo að þangað vantaði bæði prest og kirkju. Prófastur varð að ráðstafa rifi og burtflutningi gömlu kirkjunnar og byggingu þeirrar nýju. Þetta gerði hann á þann hátt að byggja jörðina Hof Sigurði Helgasyni, trésmið frá Auðólfsstöðum. Hann tók að sér að endurbyggja kirkjuna af því efni sem honum yrði sem honum yrði til þess fengið. Skyldi því verki lokið innan tveggja ára. Söfnuði Hofskirkju var gert að skyldu að fjarlægja gömlu kirkjuna og gera grunn undir þá nýju sem smíðuð skyldi úr timbri. Fyrir kirkjusmíð skyldi Sigurður fá greidda 400 ríkisdali. Nú þurfti að fjarlægja gömlu kirkjuna og annast alla aðdrætti til þeirrar nýju með þeim tækjum sem þá voru tiltæk, sem varla hafa verið annað en krókar, kláfar og sleðar. Kerra mun ekki hafa verið til á þessum dögum. Þetta hefur því tekið mikinn tíma og ærið erfiði frá öðrum störfum heimilanna. Mættum við sem nú höfum not af þessu húsi en höfum litlu fyrir það fórnað, minnast þess „er við göngum í Guðshús inn."

Sigurður Helgason stóð vel við alla samninga. Húsið var komið upp á áramótum 1869 og 70 og vígt til nota fyrsta sunnudag í níuviknaföstu 1870."

 

Þannig hefst þáttur Sigurðar á Örlygsstöðum, skráður fyrir rúmum 40 árum, en síðar heldur hann áfram:

 

„Hofskirkja hefur alltaf verið vinsæl. Það hefir einkum komið fram í því að sóknarbörn hafa séð þörf hennar og bætt úr, oft henni að kostnaðarlausu. Bæði með frjálsum peningasamskotum, ágóða af samkomum eða beinum peningaframlögum frá einstaklingum."

og áfram heldur Sigurður:

„Fyrst og fremst tel ég vinsældir kirkjunnar sprottnar af því hve heppin hún hefur verið með presta sína. Þeir hafa allir verið vinsælir sæmdarmenn sem stutt hafa hag hennar meir og minna og stundum úr eigin vasa. Og fordæmið sem þeir gáfu, jafnvel meira virði. Þá hefir kirkjan verið heppin með kirkjubændur og konur þeirra ekki síður því að messudagar í sveitakirkjum eru þeim oft erilsamir.

Ég hef í þessu spjalli um Hofskirkju, Hofspresta og Hofskirkjusöfnuð sneitt hjá mannjöfnuði. Með prestskonurnar bregð ég út af þessu. Ég þekki ekki til annars en þær hafi allar búið mönnum sínum góð heimili og á allan máta verið miklar sæmdarkonur. Ég segi það aftur hér og nú, sem ég sagði fyrir nokkrum árum eftir að hafa hlusta á barnatíma í sunnudagaskóla hjá frú Dómhildi Jónsdóttur, konu sr. Péturs Þ. Ingjaldssonar: Þessi kona á ekkert að gera annað en kenna."

 

Svo taldi þessi orðhagi bóndi á Örlygsstöðum upp presta sem þjónað hefðu auk kvenna þeirra og gleymdi ekki nágrannaprestunum: sr. Gunnari á Æsustöðum, sr. Þorsteini í Steinnesi og sr. Arnóri í Hvammi sem hefðu unnið prestsverk í Hofskirkju í forföllum sóknarpresta.

 

Hafskipið glæstar og fjörunnar flak

fljóta bæði, trú þú og vak.

Marmarans höll er sem moldarhrúga

musteri Guðs eru hjörtun sem trúa

þótt hafi þau ei yfir höfðinu þak. Einar Benediktsson

 

Mánudagurinn 17. ág. er fæðingardagur Jóns Árnasonar bókavarðar og þjóðsagnasafnara

Hann fæddist á Hofi 1819 og lést 4. sept. 1888

 

Heimild:

Efni sögukornsins er tekið úr Húnavöku 1979 - ársriti USAH - bls. 89-94

Sigurður Björnsson Örlygsstöðum Hofskirkja á Skagaströnd

 

JÁ í gömlu stökuspjalli:

Kalt er við kórbak: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=15980

 

Ingi Heiðmar Jónsson

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga