Pistlar | 19. ágúst 2020 - kl. 15:34
Syngjum, hlæjum, grátum og biðjum, saman
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Ég held að nú sé ekki rétti tíminn til flokkadrátta. Til að finna sökudólga. Til að kenna einhverju eða einhverjum um eitthvað. Til að leita uppi meint fífl og hálfvita eða leita uppi meint mistök. Hvað hefði mátt fara betur og hvað hefði verið hægt að gera öðruvísi. Eðlilegt er að velta upp möguleikum og hvað sé skást að gera á hverjum tíma í erfiðum aðstæðum. En málið er að standa saman sem aldrei fyrr með því að taka utan um hvert annað í raunverulegum kærleika, umvefjandi nærveru þótt hún kunni að vera í meiri tímabundinni fjarveru í bili en við hefðum kannski kosið.

Grátum saman

Það er svo þungt að missa. Tilveran er skekin á yfirþyrmandi hátt. Angist fyllir hugann. Örvæntingin, tómarúmið, tilgangsleysið og umkomuleysið virðist blasa við og verða algjört.

Það er svo sárt að sakna. En það er gott að gráta. Tárin eru dýrmætar daggir. Perlur úr lind minninganna. Minninga sem tjá kærleika og ást, væntumþykju og þakklæti fyrir liðna tíma. Minninga sem þú einn átt og enginn getur afmáð eða frá þér tekið.

Tárin mýkja og tárin styrkja. Í þeim speglast fegurð minninganna.

Hlæjum saman

Hlæjum saman, því hláturinn losar um streitu og spennu. Hlæjum saman því það styrkir vináttuna. Hlæjum saman, því það stælir líkamann, nærir sálina og gleður andann. Hlæjum saman því það styrkir lungu og hjarta og eflir ónæmiskerfið. Hlæjum saman, því það styrkir magavöðvana, læknar kvilla og eykur orku. Hlæjum saman, því það styrkir bæði þína andlegu og líkamlegu vöðva. Hlæjum saman, því það gerir okkur jákvæðari og bjartsýnni. Hlæjum saman, því það gerir lífið svo miklu skemmtilegra. Hlæjum saman, því þá líður okkur svo miklu betur.

Og betra er að deyja úr hlátri en leiðindum.

Syngjum og biðjum

Hvort sem þú ert sorgbitinn eða glaður, dapur eða kátur, þá skaltu syngja og biðja.

Söngurinn mýkir hjartað, styrkir andann, gleður geðið og nærir sálina. Og með bæninni kemst jafnvægi á hugann og friður flæðir í hjartað.

Í bæninni nýturðu kyrrðar, hlustar á sjálfan þig, umhverfið og Guð. Þú metur stöðuna, hleður batteríin og fyllir á tankinn.

Bænin er kvíðastillandi og streitulosandi. Hún skerpir einbeitingu og færir huganum ró.

Söngurinn og bænin eru gömul og góð sívirk meðul af Guði gefin. Lækninum og lyfjafræðingnum sem megnar að græða sár. Hlúa að, uppörva og styrkja, líkna og lækna.

Heilræði

Fyrirgefðu og þér mun fyrirgefið verða. Brostu og til þín verður brosað. "Faðmaðu" og þú munt "faðmaður" verða. Uppörvaðu og þú munt uppörvaður verða. Gefðu og þér mun gefið verða. Elskaðu og þú munt elskaður verða. Syngdu og það verður tekið undir með þér. Farðu með bænirnar þínar og finndu friðinn flæða um þig. Leitastu við að lifa í kærleika, friði og sátt við Guð og alla menn og þér mun líða svo miklu, miklu betur.

Með samstöðu- friðar- og kærleikskveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga