Pistlar | 26. ágúst 2020 - kl. 08:27
Tækifærin í Covid
Eftir Unni Valborgu Hilmarsdóttur

Það er líklega kaldhæðni fólgin í því að tala um tækifæri í Covid í ljósi áhrifa faraldursins á heilsu og efnahag heimsbyggðarinnar allrar. Það er hins vegar ekki hægt að horfa framhjá því að strax í upphafi faraldurs, og eftir því sem honum fram vindur, höfum við séð breytingar á hegðun okkar á mjög margan hátt. Einhverjir hafa fullyrt að heimurinn verði ekki samur - hvort það er rétt skal ósagt látið en ljóst er að margt af því sem breyst hefur er komið til að vera.

Aukin netverslun
Ein þessara breytinga er aukin verslun á netinu. Með auknum sóttvörnum fórum við að fækka búðarferðum og panta meira á netinu. Kannanir hafa sýnt að 40% fólks á aldrinum 18-54 ára verslar meira á netinu nú en fyrir 12 mánuðum. 75% þessa sama aldurshóps telur að þau muni auka kaup sín á netinu á næstu fimm árum. Með aukinni vefverslun öryggisins vegna lærðum við því hraðar en annars hversu þægilegt það er að versla á netinu. Auk sóttvarnanna spara það tíma og eykur þægindi.

Aukin vefverslun hefur knúið fyrirtæki til að hraða þróun veflausna sinna og nú er það svo vönduð vefverslun getur skilið á milli feigs og ófeigs í verslunarrekstri. Samhliða hefur þróun lausna fyrir vefverslanir tekið kipp, hvort sem er þróun hugbúnaðar eða afhendingarlausna.

Tækifæri fyrir landsbyggðina
Í þessari breyttu verslunarhegðun felast tækifæri fyrir verslanir og framleiðendur á landsbyggðinni. Þó vissulega gefist tækifæri til hraðari afhendingar innan Reykjavíkur, sé verslun þar staðsett, skiptir að öðru leyti sjaldnast máli hvar vefverslunin er staðsett. Pakka er allt eins hægt að senda frá Norðurlandi vestra og suður til Reykjavíkur eins og í hina áttina. Það er meira að segja búið að fjölga afhendingardögum á höfuðborgarsvæðinu sem styttir enn afhendingartíma á sendingum sem þangað eru sendar. Auðvitað er grundvöllur vefverslunar góð póstþjónusta en því miður hefur hún verið skert verulega á undanförnum misserum, einkum í dreifbýli. Aukin vefverslun verður vonandi til þess að úr því verði bætt að nýju. Góð póstþjónusta er því með þessari þróun orðin enn mikilvægari þáttur í byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en áður.

Við hjálpum til við þróun netverslunar á Norðurlandi vestra
Það er að mörgu að hyggja þegar sett er upp vefverslun. Lausnirnar eru fjölmargar og getur verið erfitt fyrir okkur flest að greiða úr þeim frumskógi svo við getum nýtt þetta tækifæri sem hefur skapast fyrir verslun og framleiðendur á landsbyggðinni. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) mun því bjóða upp á ör-ráðstefnu á vefnum 17. september nk. þar sem leitast verður við að varpa ljósi á verslun á netinu, hvað einkennir góða vefverslun, hvað ber að varast og hvað getur haft áhrif á sölu. Einnig verður fjallað um Omni Channel hugmyndafræðina og hvernig hún getur verið mikilvægur þáttur í upplifun viðskiptavina af fyrirtækjum.

Viðburður ör-ráðstefnunnar á facebook

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga