Ljósm: Róbert D. Jónsson
Ljósm: Róbert D. Jónsson
Pistlar | 26. ágúst 2020 - kl. 08:41
Sögukorn: Felld niður Hofsmessan 30. ágúst
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Veiran engin gefur grið svo ekki tjóar að fitja upp á guðsþjónustu í þessum góða mánuði, í ágúst 2020, afmælismánuður Jóns bókavarðar Árnasonar en nota má tækifærið og rifja upp aðra merkismenn tvo sem auðgað hafa bókmenntir heimabyggðar sinnar með ritverkum sínum.

Annar bjó fram í dölum, Jónas Illugason í Brattahlíð en hinn út á strönd, Magnús Björnsson á Syðra-Hóli, fræðimenn báðir. Magnús skrifar um Jónas ítarlegan þátt þar sem hann rekur æviskeið hans og viðfangsefni og segir:

„Þessi frásögn mín um Jónas Illugason er ígripavinna og öll lausmótaðri  og verr gerð, en ég hefði viljað og vert var. Ég þekkti hann aðeins af afspurn áður en hann flutti til Blönduóss og þar hafði hann búið nokkur ár er kynni okkar hófust að ráði. Eftir það sótti ég oftast á hans fund, ætti ég leið á Blönduós og sat hjá honum eins og tími og ástæður leyfðu. Okkur bar margt í tal en oftast það sem báðum okkar var ofarlega í hug, liðin tíð, ættir, sagnir og hættir genginna kynslóða. Hef ég engan fræðasjó fyrir hitt í þeim greinum, slíkan sem hann, meðal alþýðumanna. Ég undraðist oft stálminni hans og nærfærin skilning á fólki og tildrögum sögulegra atburða. Af hans fundi fór ég alltaf fróðari en ég kom. Því miður hafði ég ekki minni á borð við Jónas. Því gleymdist, eða varð óljóst, sumt það er hann sagði mér. Margt skrifaði ég eftir honum, er heim kom, og las honum síðan og bar undir hann, þar sem skrifað hafði til að leiðrétta það sem missagt kynni að vera og sneiða hjá glöpum af minni hendi."

Þeir félagar, Jónas og Magnús, tengdust og kynntust er sá fyrrnefndi brá búi, flutti á Blönduós, fékk sér land uppi á brekkunni innan við á, byggði þar hús og fjós og nefndi þar Fornastaði. Þar bjó Stella frænka mín til skamms tíma og eitt sinn var þar organistinn á Blönduósi og frændi okkar Stellu Skaftadóttur, Þorsteinn Jónsson og Ingibjörg ljósmóðir kona hans.

Já, húsið hefur oft hýst merkismenn. Móðir Immu, Elísabet á Gili, skrifaði systur sinni mörg bréf sem geyma merka viðburði úr hversdagslífi sveitafólks og sum eru varðveitt í Stikli 5.

Þeir tengdust fræðilega, Jónas og Magnús og þannig kviknuðu nýir þættir er Magnús hélt um pennann en Jónas leitaði í „stálminni" sínu að sögum og vísum og miðlaði vini sínum. Enginn sér fyrir hvenær ný tengsl kvikna, s.s. á fundum í Hnitbjargakjallara eða Eyvindarstofu, í strætó eða Skálanum, í messukaffi í Skagabúð eða í heita pottinum á Blönduósi hjá ljósmyndaranum góða, Róbert Daníel og fólki hans sem ber okkur heitt kaffi út að heita pottinum - jafnt handa mösurum, gösprurum og fróðleiksfólki. Þökk sé þeim og lesum áfram Magnús og Jónas og svo endilega Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga