Pistlar | 31. ágúst 2020 - kl. 09:49
S├Âgukorn af J├│nasi og ├×orbj├Ârgu
Eftir Inga Hei├░mar J├│nsson

Þú stendur hér aleinn í straumnum  

I

„Mig langaði í tónlistarnám, þegar ég var ungur og þegar ég var 18 ára, fór ég til Páls Ísólfssonar í því augnamiði að læra eitthvað í tónlist. Páll hvatti mig til náms, en sagði mér jafnframt, að ekki væri líklegt, að ég fengi atvinnu sem hljómlistarmaður hérlendis. Þá var ekki komin sinfóníuhljómsveit eins og nú og mjög lítið fyrir hljómlistarmenn að gera. Þar með var sú áætlun tekin út af dagskrá, en síðar lærði ég orgelleik hjá Jakobi Tryggvasyni, sem nú er á Akureyri. Annars er varla hægt að segja, að ég hafi lokið því námi, því um það leyti fór sjónin að daprast svo mjög, að ég hætti að sjá nóturnar, og þá var sjálfgert að hætta. Síðan hef ég eingöngu spilað eftir eyranu."

Með þessum orðum birtist Jónas Tryggvason, iðnrekandi og söngstjóri á Blönduósi, í viðtali í Samvinnunni 1958. Ári síðar flytur hann frá Ártúnum í hús sitt nýbyggt á Blönduósi. Þar kynnist hann fljótlega konuefni sínu, Þorbjörgu Bergþórsdóttur kennara frá Fljótstungu, þau giftust vorið 1962 og bjuggu sér síðan heimili að Húnabraut 26, sem nú er heimili Tónlistarskóla Austur-Húnvetninga. Samvistanna nutu þau í tæp 20 ár, en Þorbjörg lést vorið 1981 eftir þungbær veikindi, hann rúmlega 2 árum síðar.

„Oft var gestkvæmt hjá Þorbjörgu og Jónasi því bæði voru þau gestrisin mjög. Tíminn leið fljótt við skemmtilegar samræður. Þau unnu bæði fögrum listum, bókum og náttúru Íslands. Bæði voru þau félagslynd og unnu mikið að framkvæmd góðra mála."

Þetta eru nokkur orð úr minningargrein um Jónas eftir Sólveigar Benediktsdóttur skólastjóra og organista á Blönduósi.

Grein Sólveigar ágæt hefst með einu ljóða Jónasar:

„Þú stendur hér aleinn í straumnum
þinn styrkur er samur í dag og í gær.
Þú lætur sem finnist þér fátt um
er fjörlega báran á grynningum hlær
og laugar þinn fótstall í ljóði
um leið og hún ögrandi hverfur þér fjær.

Flúðadrangur heitir ljóð eftir Jónas og er í bók hans Harpan mín í hylnum, þetta er hið fyrsta af sex erindum ljóðsins, en í því má finna margt, sem minnir á vissa þætti í skapgerð hans sjálfs. Fallinn er nú frá fjölgáfaður merkismaður og drengur góður. Vinmargur þrátt fyrir mikla einsemd. Bjart var í kringum hann og ljómandi eru minningarnar um hann.“

Um Tunguheimilið og foreldra Jónasar segir Sólveig: „Á heimili þeirra Guðrúnar og Tryggva lærðu börnin að unna góðum bókum og tónlist og öll hlutu þau tónlistargáfuna í vöggugjöf. Söngur og hljóðfæraleikur var mikið iðkaður í Finnstungu.

Snemma mun óvenju góðum gáfum Jónasar hafa verið veitt athygli. Að sögn kennara hans veittist honum barnaskólanámið leikandi létt en þá fór að draga ský fyrir sólu. Hann fór að missa sjónina þegar hann var á fermingaraldri. Sárt hefur það verið  fyrir gáfaðan og námfúsan ungling að þurfa að hætta skólanámi sem hugur hans hneigðist til. Og sjónleysið ágerðist. Hann fór til Akureyrar og lærði á orgel um tíma, en varð að hætta því sökum sjóndreprunnar. Hann var þrekmikill og lét ekki bugast. Hver og einn getur reynt að gera sér í hugarlund hvílíkt átak hefur til þess þurft að komast heill og óbugaður út úr eldrauninni. Það tókst honum með aðstoð foreldra og systkina. Hann stundaði öll venjuleg sveitastörf, fann hugsvölun í tónlistinni og orti ljóð. Í þeim er hvergi víl eða vol að finna, þó stundum gæti nokkurrar alvöru. Mörg ljóða hans eru óður til lífsins og gleðinnar og rímið lék honum á tungu. Nokkurs trega og jafnvel kvíða gætir endrum og eins, t. d. í hinu undurfallega ljóði Nú hnígur sólin sem hefst þannig:

Nú hnígur sólin og sumrinu hallar
þess söngur hljóðnar og deyr.
Drifhvítir svanir suður til heiða
svífa nú aldrei meir.

Þeir byggðu sér hús bræðurnir Jónas og Jón(ásamt Guðmundi bróður sínum og Tryggva föður þeirra) og nefndu það Ártún. Þar hófu þeir búskap og stundaði Jónas burstagerð samhliða bústörfum. Hann tók virkan þátt í félagsstörfum í sveitinni sinni og starfaði af lífi og sál í Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps." Þetta skrifaði Sólveig í áðurgreindum minningarorðum um Jónas.

II

Af högum Jónasar sumarið góða 1957 er það að segja að hann vann að iðnrekstri sínum í Ártúnum, burstagerð og dívana. Gjaldkeri sjúkrasamlags var hann, félagi okkar bróðurbarna sinna, sem ólumst upp með Guðrúnu ömmu og Jonna frænda, þau bjuggu bæði á efri hæðinni í Ártúnum og vorum við þangað velkomin þegar okkur langaði inn í vinnustofunni hjá honum og rabba, kannski að lesa upphátt fyrir hann ef hann var að draga í kúst eða sat við önnur kyrrlát verk. Tryggvi, næstelstur okkar systkina var rétt átta ára þegar hann fór að negla lok á kústana og gera þá að fullunninni vöru.  Texta samdi Jónas og vélritaði handa okkur til að æfa okkur í lestri og vel man ég hvað manni þótti merkilegt að sjá þar á prenti nöfn heimilismanna eða nýliðna atburði sem hann hafði skráð þar.

Hinn 7. júlí 1957 var félagsheimilið Húnaver vígt og þangað hópuðust burtfluttir sveitungar og nágrannar á fögrum sumardegi og einn þeirra var skáldið, kennarinn og Húnvetningurinn Guðmundur Frímann frá Akureyri.  Þurrviðri var þessa hátíðisdaga svo tekið var til við heyskapinn þegar gestirnir sneru aftur heimleiðis en hann var einn þeirra sem lengdu dvöl sína í heimasveitinni, Guðmundur dvaldi hjá Hilmari bróður sínum á Fremstagili og Jónas skrifar í dagbók sína tveim dögum síðar:

9. júlí „Ég er að hugsa um að skreppa út að Fremstagili í kvöld. Við Guðmundur Frímann mæltum okkur þar mót. Við þekkjumst ekkert áður, en hann var staddur í Húnaveri á sunnudag og þá réðst þetta með okkur. Hann kvaðst hafa farið hingað vestur að þessu sinni með þeim ásetningi að stofna til einhverra kynna við mig. Ég hugsa gott til þessa fundar. Um mörg ár hef ég verið hrifinn af ljóðum Guðmundar og einhvern veginn finnst mér, að ég hafi raunar þekkt hann persónulega allan þann tíma, þótt við höfum ekki hist fyrr.

10. júlí Það varð úr, að ég gisti á Fremstagili í nótt og kom heim um hádegisbilið í dag.

Það er skemmst af að segja, að þessi fundur okkar Guðmundar var ein ánægjulegasta stund, sem ég man eftir. Ég hef sannfærst um það sem ég taldi mig raunar vissan um áður, að við Guðmundur eigum ýmislegt sameiginlegt, þótt allt sé það meira og betra hans megin. Við lásum hvor öðrum ljóð og viðurkenningarorð hans um kvæði mín tel ég mér meir til inntekta en ýmislegt annað sem um þau hefur áður verið sagt.

Þau hjónin fóru norður í dag, höfðu ætlað sér að koma hér við, en urðu síðbúnari en þau gerðu ráð fyrir og renndu hér aðeins heim án þess að kom neitt inn. Ég gaf Guðmundi að skilnaði sex smákvæði uppskrifuð.

11. júlí Smáskúrir af og til í dag og varð ekki næðissamt við hey þótt ekki hafi þetta bleytt svo neinu verulega nemi.

12. júlí Féð var rekið á heiðina í dag og fóru þeir bræðurnir, Nonni og Mundi og svo Palli Halldórsson sem er í Brúarhlíð í sumar. Seint var lagt af stað og gekk treglega reksturinn því heitt var í veðri, einn heitasti dagurinn á sumrinu. Klukkan fimm voru þeir á Bollastöðum.

18. júlí Í Tímanum, sem kom nú með póstinum, er löng og skemmtileg grein um vígslu Húnavers, sennilega skrifuð af Stefáni Gunnarssyni frá Æsustöðum. Hefur blaðið tæpast í annan tíma veitt vígslu nýs félagsheimilis meira rúm í dálkum sínum. Nýtur Húnaver þess hér, að höfundur fréttagreinarinnar er næsta ritfær ella hefði vígslunnar að líkindum aðeins verið getið í fáorðri og þá ef til vill ekki ýkja skemmtilegri fréttaklausu.

31. júlí Þá er júlí að kveðja í þetta sinn, ég held einhver bjartasti og hlýjasti júlímánuður sem ég man, sannkallaður sólmánuður. Ég setti framleiðslumet í þessum mánuði, framleiddi vörur að verðmæti rúmar 10 þúsund krónur, en júnímánuður var um 500 krónum lægri og annar hæsti í röðinni. Hins vegar var minni sala í júlí en í þrem síðustu mánuðum. Þetta roggar svona sitt á hvað.

1. ágúst Heiðmar litli varð tíu ára í dag. Undur hvað þetta flýgur áfram.

1. okt. Ég lauk við kvæði í dag, sem ef til vill er mitt besta kvæði að þessu. Að öllum jafnaði koma ljóð mín á fund minn líkt og vængjaðir smáálfar, ég veit varla hvaðan. Ég sýni þessum smáálfum litla rækt, hagræði eitthvað búningi þeirra þegar best lætur, en oftast alls ekki neitt. Saga þessa kvæðis er allt önnur. Það byrjaði að mótast fyrir tveim dögum, en þá var mér næsta þungt í skapi. Síðan hefur það án afláts leitað sér búnings, fengið nýjan æ ofan í æ, framan af æði dökkan á lit en lýstist eftir því sem tímanum þokaði áfram. Loks hafði ég með nokkrum hætti kveðið mig sáttan , sjálfan mig og tilveruna og kvæðið kom úr deiglunni – ekki dekkra yfirlitum en efni standa til. Ég hlakka til að sýna sr. Gunnari þetta kvæði.

2. okt. Ég ætla að skreppa til Reykjavíkur á morgun með Guma í Bólstaðarhlíð. Hann er að fara á Kennaraskólann og fer suður með sinn bíl. Ég hef enga áætlun um það hvað lengi ég verð að heiman.

5. okt. laugard. Í dag lauk ég ýmsum erindum fyrir hádegi, fór síðan í Kópavoginn til séra Gunnars og sat þar fram undir miðnætti. Það var gaman að koma þar eins og alltaf áður. Ég sýndi séra Gunnari þrjú ný kvæði, m. a. það síðasta og ég er hæstánægður með ummæli hans um kvæðin.

7. okt. Eftir kvöldmat heimsótti ég Hannes Pálsson og sat þar fram yfir miðnætti. Það hefur reynst ógerningur að fá aðgöngumiða á Tosca, allt uppselt löngu fyrirfram og líklegast að ég fari svo heim að komast ekki á óperuna. Heldur var ekki nokkur leið að fá aðgöngumiða á söngskemmtun í kvöld sem Karlakór Reykjavíkur og nokkrir einsöngvarar héldu Stefáni Íslandi til heiðurs í tilefni af fimmtugsafmæli hans í gær. Söngskemmtunin var ekkert auglýst en allir aðgöngumiðar seldir löngu fyrirfram. Þannig fer maður fram hjá þessu öllu saman, sem var þó raunar alls ekki ætlunin.

9. okt. Kiddi kemur suður í nótt eða fyrramálið og ég held ég drífi mig með honum norður. Það er að vísu hálfvegis í óreiðu sumt af því sem ég var að erinda en það getur orðið það eins eftir nokkra daga í viðbót og ég má víst varla vera að þessum slæpingi lengur.

10. okt. Við Kiddi komum til Blönduóss um níuleytið í kvöld. Hann lagði af stað suður á fjórða tímanum í nótt, stansaði aðeins fjóra tíma í Reykjavík og þaðan fórum við aftur tæplega tvö. Vegurinn er seinfarinn með köflum eftir úrfellin að undanförnu.

11. okt. Þá er maður kominn heim úr þessari útilegu, sem er orðin níu dagar.

Þá „sest maður aftur að sömu gluggum uns næst er skipum rennt að rauðum sandi.“

Er rökkrið sveipaði rauðum tjöldum
að ranni mínum
þú gafst mér eld hins ófædda ljóðs
í augum þínum. JT/úr Dís næturinnar

Í dagbókarskrifunum hér að ofan koma við sögu þeir: Kiddi, Kristján Snorrason, mágur Jónasar, vörubílstjóri á Blönduósi, Hannes Pálsson frá Guðlaugsstöðum og séra Gunnar Árnason Æsustöðum sem var prestur í dölunum til 1952 en var þá kosinn prestur í Kópavogs- og Bústaðasóknum, báðum kirkjulausum þó vel rættist úr því er fram liðu stundir.

Gumi, Guðmundur Klemensson í Bólstaðarhlíð var við nám syðra þennan vetur til að öðlast kennararéttindi og kenndi síðan áfram í sveitinni – Húnaveri og síðar prestsetrinu Bólstað. Nonni og Mundi fóru að reka að reka á heiðina, það eru bræður Jónasar, bændurnir Jón í Ártúnum og Guðmundur í Finnstungu, en Palli, Páll Halldórsson var lausamaður, sem var í vinnumennsku í Brúarhlíð um þessar mundir. Áfram heldur Jónas að segja dagbókinni frá ljóðasmíðum sínum:

29. okt. „Ljóðadísin mín er mér eitthvað innan handar um þetta leyti. Á einum mánuði hef ég gert þrjú kvæði og er langt um meira en oftast gerist hjá mér. Stundum líða svo margir mánuðir að ekkert kvæði verður til og engin staka.

Ég skildi eftir hjá séra Gunnari þrjú eða fjögur kvæði og lét honum í sjálfsvald sett, hvort hann kæmi þeim einhvers staðar á framfæri. Þessi kvæði voru öll frá árinu sem er að líða utan eitt gamalt kvæði.

30. okt. Þriðja karlakórsæfingin var í gærkveldi og gengu nú fjórir nýir menn í kórinn, allir úr Svínadalnum, þeir Grímur í Ljótshólum, Þórður á Grund og Guðmundur og Sigvaldi á Rútsstöðum.

19. des. Ég var að skrifa Guðmundi Frímann og sendi honum kvæði sem ég gerði eftir lestur ljóðabókar hans, Söngvar frá sumarengjum. Þetta kvæði er ekki ritdómur eins og einn vinur minn kallaði það, aðeins mínar eigin hugsanir, mótaðar af hinum nýju ljóðum skáldsins úr Langadal.

Í kvöld var sagt frá í útvarpsfréttum kindum í sjálfheldu í norðanverðum hömrum Tindastóls. Engar líkur eru taldar til þess að kindunum verði bjargað og naumast búist við  að hægt verði að komast í skotfæri við þær. Þessi óhugnanlega skammdegisfrétt hefur rótað upp í huga mínum fyrstu drögum að kvæði sem þó kannski aldrei verður meira úr."

Hér skýtur upp kolli í dagbók Jónasar ljóð hans, Bergnumin hjörð:

4. - Sofandi kindur á sillunni dreymir.
Sunnan af vorgrónum heiðum
ber angan úr mýri og mó
andblæ þess sumars, er öræfin gisti
en á nú ei leið um
klettabrík, kreppta við sjó.

7. Skammdegisbylur um bjargflugið æðir.
Brimraustin ögrandi kveður
helsöng um bergnumda hjörð.
Fárbliki stafandi miðnætur máni
marvaðann treður
Svo sekkur í sortann öll jörð. JT/Bergnumin hjörð

Í heiðalöndum Húnvetninga finnast einnig háskaleg hrikabjörg þar sem jökulfljótið Blanda hefur grafið sig niður í bunguna vestan við Rugludal. Þaðan bárust stundum sögur af leitarmönnum á hættuslóðum, fé í einstigi, skútum eða strandað í Kolluhvamminum sjálfum. Minnisstæð verða kvöld við eldhúsborðið heima í Ártúnum þegar fréttir bárust af dilkám eða haustlömbum í ógöngum þar fremra og þá var gjarnan farið að rifja upp fyrri haust og hættuferðir til bjargar þessum sauðskepnum.

Úr dagbók JT 1958 13. jan.

„Það er alltaf öðru hvoru verið að tala um það við mig, að ég eigi að fara að gefa út kvæðin mín. Ég hef ekki haft mikinn hug á þessu, en svo má lengi brýna deigt járn að bíti. Það er nú komið svo, að ég er farinn að róta í þessu rusli mínu, vinsa úr því og skrifa upp á ný það tilkippilegasta. Ég er svo að hugsa um að senda séra Gunnari syrpuna, en honum treysti ég betur til þess að velja úr þessu, það sem til greina kæmi til útgáfu. Þetta verður lítið að vöxtum, en það gerði nú að vísu ekki svo mikið til, ef það væri þá ekki líka allt lítið á annan hátt.

Ég held, að ég sé nú búinn að skrifa upp 23 kvæði, en hálfsmeykur um að ég hendi aftur einhverju úr þeim áður er ég sendi þau, en það má einnig vera, að ég bæti þarna einhverju við af gömlu kvæðunum, þeim sem ég gerði á árunum fyrir 1940. Frá þeim tíma er til dálítil syrpa hjá mér en mér finnast þau kvæði flest eitthvað gölluð, meira eða minna.

Svo varð mér naumast ljóð á munni um tíu ára skeið. Yngri kvæðin eru flest frá síðastliðnum sex árum, oftast þetta eitt, tvö eða þrjú kvæði á ári nema á síðasta ári. Þá gerði ég ein sex eða sjö kvæði og hef víst aldrei ort annað eins á einu ári nema ef vera skyldi á árunum fyrir 1940 þegar ég var rúmlega tvítugur. En það er líklegast bættur skaðinn þótt ég hafi fæst skrifað niður af því sem ég þá orti.

31. jan. Ég er öðru hvoru að sanka einhverju inn á handritið, sem ég ætla að senda séra Gunnari. Enn eru kvæðin ekki orðin nema 28 og engan veginn víst að þeim fjölgi að mun úr þessu, en þó hefði ég endilega viljað ljúka við nokkur kvæði, sem vantar aðeins herslumuninn. En það er ekki nóg að hafa viljann.

13. febr. Í dag sendi ég frá mér til séra Gunnars litla syrpu af kvæðum, sem ég hef beðið hann að velja úr til útgáfu. Kvæðin voru 35 og sjálfur er ég ekki meira en svo ánægður með nema 24  hvað sem honum kann svo að sýnast. Þessi kvæði eru samtíningur frá meira en tuttugu ára tímabili, þau elstu frá árinu 1935, þá var ég nítján ára, síðan kannski eitt eða tvö frá hverju ári, en allmörg ár falla alveg úr, einkum á áratugnum 1940 - 50. Tíu kvæði eru frá síðustu tveim árum og þau þykja mér sjálfum skást. Ekki sendi ég allt, sem ég á uppskrifað. Nokkur gömul kvæði lagði ég alveg til hliðar og fannst þau ekki koma til álita einu sinni. Ég bað séra Gunnar að hlífast hvergi við að henda úr þessu og á von á að kvæðunum fækki a.m.k. um þriðjung í meðförum hans. Það dróst lengur en ég ætlaði að senda kvæðin frá mér. Ég var að bíða eftir ófullgerðu kvæði, sem ég vildi endilega hafa með. Því var lokið í gærkveldi og þá var mér ekkert að vanbúnaði. Þetta kvæði nefndi ég Bergnumda hjörð og ég held að það sé með skárri kvæðunum á þessum blöðum. Nú sér maður hvað setur. Ég er því alveg viðbúinn, að hann skeri þetta verulega niður og þá er bara að slá öllu saman á frest. Það er betra en rusla út einhverju sem maður er hálfvegis óánægður með.

III

Á annan páskadag 1958 sem er 7. apríl trúir Jónas dagbók sinni fyrir því að hann hafi ákveðið að breyta nú talsvert til: „Ég er búinn að fá lóð á Blönduósi og ætla að byrja þar á byggingu verkstæðis- og íbúðarhúss í vor. Vegna þess hvað sjóninni fer stöðugt aftur hlýtur að reka að því að ég dragi mig út úr á ýmsum sviðum þar sem ég hef til þessa reynt að fylgjast með. Eftir að svo væri komið held ég að mér yrði mjög örðugt að vera kyrr í mínu fyrra umhverfi. Það verður á vissan hátt léttara að skipta þá alveg um skreið en auðvelt verður það samt sem áður ekki. Fram að þessu hef ég reynt að koma til dyranna eins og einn af hinum sjáandi en það hefur fráleitt farið mér sem best upp á síðkastið. Einnig á þessu sviði er léttara að venda fokkunni í nýju umhverfi. Svo er enn eitt. Það er komin eins konar kyrrstaða í Dag minn og veg. Ekkert sem krefur einbeitni, áreynslu né fórna. Þannig verður allt tilbreytingarsnautt og innantómt. Maður verður að hafa eitthvað til að glíma við, eitthvað sem lyftir manni upp úr hversdagsmollunni og þeim andlega og líkamlega doða sem henni fylgir."

30. maí Það leggjast nú flestir á eina sveif um að draga úr mér kjarkinn við húsbygginguna. Ég held ég viti svo sem, að það eru margar hliðar á þessu máli og ekki allar glæsilegar og kannski engin þeirra, en það er ekki eins og þetta sé ákveðið í neinu sérstöku fljótræði. Ég þykist hafa velt þessu öllu saman fyrir mér um nokkurra ára skeið og kemst nú helst að þeirri niðurstöðu að of seint en ekki of snemma hafi ég loksins tekið af skarið. En það vill oft ganga svona til að maður heldur fast í það sem maður hefur, enda þótt fullvíst sé að maður hljóti að missa það fyrr eða síðar. Mér hefur liðið hér svo vel á allan hátt að það hefur jafnan dregið úr mér kjarkinn þegar á átti að herða. En nú verður ekki lengur hjá því komist að taka upp nokkuð róttæka lífsvenjubreytingu. Ég er ekki meiri maður en það, að ég treystist ekki til þess að lifa lífinu áfram á sama hátt og ég hef hingað til gert og þetta er tilraun – vera má að hún mistakist – til þess að skapa mér nýtt líf, sem verði mér meira við hæfi eins og nú er komið.

6. júlí Það er nóg um samkomurnar í Húnaveri um þessa helgi. Í kvöld sýnir Leikskóli Ævars Kvaran og verður dansað á eftir, annað kvöld er samkoma félags ungra Framsóknarmanna í Skagafirði og Húnavatnssýslu og á þriðjudag verður flutt þar revíetta, sem nú er að fara af stað úr Reykjavík út á land.

Um þessa helgi er einmitt ársafmæli Húnavers, en það var vígt ellefta sunnudaginn í fyrra. Gaman væri að vita hve margir hafa komið þar á þessu ári, en það eru sennilega ekki neðan við 5-6 þúsund manns.

9. júlí Seint í gærkveldi, um tólfleytið, komu hingað fjórir gestir úr Reykjavík, þeir séra Gunnar og Stefán sonur hans, Gísli Sigurðsson, blaðamaður frá Samvinnunni og Gunnar Hilmarsson starfsmaður hjá SÍS. Þeir gistu hér í nótt, en héldu áleiðis suður aftur eftir hádegið í dag, nema Stebbi, sem varð eftir og ætlar að eyða sumarfríi sínu hér á æskuslóðum. Blaðamaðurinn átti erindi við mig. Hann ætlar að skrifa nokkra þætti um athafnamenn í hópi blindra, þá Skúla á Ljótunnarstöðum, Þórð á Mófellsstöðum, Eirík í Hveragerði og Guðmund í Víði.

Kvæðin sem ég sendi séra Gunnari í vetur sitja enn hjá Ragnari í Helgafelli en hvorki mun hann gefa þau út né heldur skilar hann þeim aftur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir séra Gunnars til að fá þau aftur í hendur.

1959 11. febr. Ég var að fá bréf frá Guðmundi Frímann. Hann er - enn sem fyrr - ekki myrkur í máli um kvæðin mín, en mér finnst ég tæpast geta að fullu tileinkað mér það lof, sem hann bar á þau. Við erum kannski of andlega skyldir til þess að vera fullkomlega krítískir hvor á annars ljóð. Samt þykir mér ósegjanlega vænt um viðurkenningarorð vinar míns og sum kvæðin mín eiga hreinlega tilveru sína að þakka skáldinu úr Langadal.

27. mars föstudagurinn langi. Rólegur dagur. Ég skrifaði talsvert í dag og tók nú aftur til við handritið þar sem frá var horfið á dögunum. Í kvöld eru kvæðin orðin 26 og nú fer víst að verða fátt um fína drætti og þá helst eitthvað í elstu kvæðunum, sem ég vil endilega hafa með þótt mér líki nú orðið fátt vel af þeim.

Ég þyrfti að rubba þessu af núna um páskana. Ég ætla að senda Guðmundi Frímann handritið og þetta er búið að dragast of lengi ef eitthvað á að verða úr þessu í sumar.

29. mars Páskadagur Ég lauk við handritið í dag og skrifaði Guðmundi með því. Kvæðin urðu að lokum 40 og er vafalítið of langt gengið hjá mér að taka ýmislegt með sem þarna ætti ekki að vera.

Jæja, það hefur nú þetta, sem komið er og ég ætla að senda bréfið norður með séra Birgi, sem fer norður um miðja vikuna að jarðarför vígslubiskupsins.

Það er eins og létt hafi af mér þungu fargi við að sjá á eftir öllu klabbinu ofan í umslagið. Nú hef ég engar áhyggjur af þessu fyrsta sprettinn. Ég hef falið Guðmundi að gerast staðgengill minn um allt, sem að útgáfunni lýtur og það er allt saman í góðum höndum þar.

19. apríl Síðasti sunnudagur í vetri. Ég vann eina þrjá tíma á vinnustofunni í dag en hef annars gert lítið að því á sunnudögum upp á síðkastið. Apríl ætlar víst ekki að verða sérlega beysinn mánuður hjá mér hvað afköstin snertir. Annars gerist sitt af hverju í þessum apríl.

Ég er búinn að skrifa Guðmundi Frímann og útkoma bókarinnar minnar er nú ákveðin á þessu ári, kemur að líkindum út í ágúst eða september. Ég samþykkti 6 þúsund króna víxil til fyrirframgreiðslu upp í prentun og pappír en útgáfukostnaður verður alls rúm 20 þúsund miðað við 600 eintök og megnið í bandi. Ég þarf að fá m.k. 300 áskrifendur til að sleppa í byrjun án halla. Jæja, ég átti kannski ekki að fara í þetta útgáfustand núna, hef líklegast nóg horn í að líta með greiðslur þótt ekki bætist þetta við en nú er þetta ákveðið og verður að skeika að sköpuðu með niðurstöðurnar.

27. maí Ég fékk áskriftalistann að kvæðabókinni í gær og í gærkveldi og morgun skrifaði ég 18 manns og sendi þeim listann, flestum hér nyrðra en þónokkrum sunnan heiða. Ég þarf enn næstu daga að bæta um þetta og mun a. m. k. senda listann í 40 staði áður lýkur.

Fyrsta próförk átti að vera tilbúin nú um sama leyti og koma með listanum en það varð ekki og seinkar þessu öllu eitthvað, eflaust vegna óvenjulegs annríkis í prentsmiðjunni í tilefni af kosningunum.

29. maí Ég hef enn skrifað 14 manns og sent þeim áskriftalistann og fara nú að minnka bréfaskriftirnar því til margra næ ég hér í grenndinni án þess bréf þurfi að fylgja.

13. júní Áskriftalistinn að kvæðunum mínum er nú kominn í hendur um fimmtíu manna í átta sýslum og átta kaupstöðum. Víða mun að sjálfsögðu lítið koma út af þessu en ég er nú samt vongóður um að ég fái nógu marga áskrifendur til þess að tryggja hallalausa útgáfu. Þegar hafa safnast um 100 áskrifendur á nokkra lista hér í nágrenninu. Þar er vinur minn, Guðmundur á Bergsstöðum, lengst kominn, búinn að fá yfir 50. En þetta er nú allt saman af því svæði, sem ég bjóst við mestu af. Ekki kemur enn fyrsta próförkin og átti þó að vera tilbúin í maí. Það seinkar öllu eitthvað vegna prentaraverkfallsins og svo er allt vitlaust í prentsmiðjunum í sambandi við kosningarnar. Ekki að vita, að ég fái fyrstu próförk fyrr en í júlí.

11. júlí Ég hef fengið í hendur fyrstu áskriftarlistana að bókinni minni, 5 lista með 69 nöfnum samtals. Þetta er mest hér úr nágrenninu en þó strjálingur af nöfnum víðs vegar að sem gripin hafa verið upp á förnum vegi.

Ég var loksins í gær að fá fyrstu próförkina og seinkar þessu öllu saman að mun.

Það er talsvert af villum í henni – eins og gengur – en ég þarf að koma henni sem allra fyrst norður aftur.

25. júlí Það eru byrjaðir að berast til mín aftur áskriftarlistarnir að kvæðabókinni, 6 listar komnir með samtals 84 nöfnum en auk þess er mér kunnugt um 30-40 nöfn komin á lista hér í nágrenninu. Ég held að þetta ætli að ganga miklu betur en ég þorði að vona fyrirfram. Ég sendi út nú nýlega eina sjö lista til viðbótar þeim sem ég setti í gang í júní og eru þeir orðnir milli 50 og 60 í allt, í 10 sýslur og 10 kaupstöðum.

5. sept. Það bólar enn ekki á þriðju próförkinni að norðan. Ég er nú farinn að verða hissa á þessum drætti, en mér hefur ekki tekist að ná í Guðmund Frímann í síma í heila viku til þess að fá fregnir af þessu.

Áskriftarlistarnir eru að smáberast úr ýmsum áttum og eru komin rúmlega 200 nöfn.

Enn hefur ekki borist helmingur listanna, en þó þykir mér ótrúlegt, að tala áskrifenda eigi eftir að tvöfaldast en ég er ánægður fyrr en svo sé.

29. sept. Það gengur enn hægt með útgáfuna. Önnur próförk kom  fyrst í fyrri viku og ég sendi hana til baka eftir þrjá daga.

Það er viðbúið að allt fari í hönk með að fá bókina bundna nú í haustönnunum þótt prentun yrði ekki lokið á næstunni, en það er nú alls ekki víst eftir því sem þetta hefur gengið hingað til.

Áskrifendum smáfjölgar og munu nú vera að nálgast 350 að því meðtöldu sem ég hef frétt til enda þótt ekki sé komið til mín.

24. okt. Fyrsti vetrardagur Alhvít jörð í morgun en hefur tekið upp fölið í dag nema til fjalla. Þá er nú bókin mín loks komin úr prentun og byrjað að binda hana. Að öllum líkindum getur hún komið út tímanlega í nóvember. Áskrifendum smáfjölgar enn og eru víst orðnir liðlega 400, verða trúlega fast að 500 um það lýkur og er það mjög góð útkoma og miklu betri en ég gerði mér vonir um áður en í þetta var lagt.

29. okt. á fimmtudegi flutti Jónas til Blönduóss.

14. nóv. „Ég ætlaði að ná í Guðmund Frímann í síma í dag en það tókst ekki. Bókin átti að koma nú í vikunni en það bólar enn ekki á henni. Einhverju hefur enn seinkað.

Áskrifendatalan er nú að nálgast 500 og enn er eitthvað ókomið af listum.

15. nóv. Sunnudagur. Ég náði í Guðmund í kvöld. Það er nú loksins verið að leggja síðustu hönd á bókina og hann sagði að hún myndi koma um miðja vikuna. Það verður ekki mikill afgangur af því að hún komist til allra áskrifenda fyrir jól.

22. nóv. Sunnudagur Enn er bókin ókomin og enn talaði ég við Guðmund í dag. Nú kemur hún um miðja vikuna sagði hann að þeir hefðu lofað á bókbandsstofunni og þá sér maður til eina vikuna enn.

28. nóv. Ég var að fá nokkur lög frá Ragnari Björnssyni sem hann var að yfirfara fyrir mig. Karlakórinn er að hugsa um að láta ljósprenta nokkur lög í tilefni af 35 ára afmæli sínu á næsta ári og það hefur verið talað um að taka sín fimm lögin eftir hvern þriggja fyrrverandi söngstjóra kórsins, þá bræðurna Gísla og Þorstein og mig. Enn er þetta allt í deiglunni og óvíst hvað úr verður.

1. des. Loksins fékk ég bókina mína í gærkveldi og tók strax til við að búa hana til dreifingar. Alls urðu þetta tæp 650 eintök og urðu um 100 eftir á Akureyri til áskrifenda þar en öðrum hundrað kem ég af stað til Reykjavíkur á morgun. Ég held að áskrifendurnir séu nú orðnir um 570 svo að enn er mikið verk fyrir höndum að koma bókinni út.

Ég er að hugsa um að bregða mér í Húnaver í kvöld á karlakórssamkomuna.

2. des. Ég fór frameftir í gærkveldi og það var mjög gaman. Gils Guðmundsson flutti þarna ræðu, Indriði G. Þorsteinsson las upp kafla úr óprentaðri skáldsögu og kórinn söng nokkur lög. Dansað til klukkan tvö.

Ég lét Indriða hafa eitt eintak af kvæðabókinni og hann segist ætla að skrifa um hana.

Í dag hef ég pakkað inn talsvert mörgum eintökum og komið sumu frá mér en mikið er þó enn eftir.

7. des. Vikan, sem leið, varð mér allúrgangssöm á vinnustofunni. Bókin tók upp svo mikið af tímanum, en nú er þetta að verða að mestu frá og ég verð aftur að að taka til við burstagerðina af kappi því að nóg liggur fyrir af verkefnum fyrir jólin.

Ég er að hugsa um að skreppa fram eftir um jólin en ég get helst ekki farið fyrr en alveg upp á það síðasta ef ég fæ þá hentuga ferð.

17. des. Enn hafa komið nýir áskriftalistar á elleftu stundu og hef ég nú alls sent frá mér 621 eintak af bókinni, þar í að vísu meðtalin um 50, sem ekki voru fyrirfram pöntuð og þarf tæpast að reikna með sölu þeirra allra nú.

Það er orðið víst, að fjárhagslega fer ég vel út úr þessu fyrirtæki og miklu betur en hægt var að búast við. Þá er hitt eftir, sem meira er undir komið, hvernig fer ég út úr þessu sem höfundur einnar lítillar ljóðabókar. Enn hefur ekki, svo ég viti til, verið skrifað um bókina, en hennar hefur verið getið í nokkrum blöðum. Ég er viðbúinn hinu versta og verst mundi mér falla, ef enginn yrði til að minnast á bókina, betra að fá gagnrýni og enda skammir en alveg þögn.

21. des. Það drífa að mér áskriftagjöldin fyrir kvæðabókina, fyrr en ég bjóst við. Það mun vera kominn inn þriðjungur allra áskriftagjaldanna og þó er þetta ekki nema rúmur hálfur mánuður síðan ég kom frá mér megninu af upplaginu.

Hjá mér eru nú aðeins örfá eintök eftir, 12-15, en vafalaust fæ ég eitthvað til baka af því sem ég hef sent út.

23. des. Þorláksmessa. Ég er kominn fram að Ártúnum, heim, finnst mér, eins og fyrri daginn og það er einkennilegt, að þegar ég kom hér inn úr dyrunum í kvöld, fannst mér helst að ég hefði verið að heiman aðeins nokkrar nætur."

Í ljóðabók Jónasar, Harpan mín í hylnum, má finna 41 ljóð, þar á meðal Bergnumin hjörð, ljóðið sem hann var að bíða eftir að fullmótaðist í huga hans er hann var að útbúa pakkann til sr. Gunnars:

Eitt andartak seytlar um afkima bergsins
ómur frá sumarsins tónum.
Svo verður válega hljótt.
Hópurinn þéttist, hann hnappar sig saman
Höggdofa sjónum
er starað í stirðnaða nótt.

IV

Fljótlega eftir að Jónas flutti til Blönduóss í október 1959, var farið að kalla hann til söngstjórnar og frá ári mínu þar í skóla, í 2. bekk unglingadeildar 1960-61, situr í minni mínu ein æfing JT með okkur unglingsstrákunum og síðan hafa stelpurnar fengið æfingu, líklega fleiri en við því þær sungu fyrir heiminn á Sumardaginn fyrsta.

Sólveig Benediktsdóttir kunnugur heimamaður segir í minningagrein sinni um Jónas:

Hann kenndi söng í Barnaskólanum á Blönduósi og lék undir og stjórnaði almennum söng á mannamótum. Í mörg ár stjórnaði Jónas sönghópum, sem nokkrir af vinum hans skipuðu. Öll lögin raddsetti Jónas og lék undir þegar sungið var. Voru Jónas og félagar og síðar Lionskórinn eins og þeir voru kallaðir oft fengnir til að syngja við góðar undirtektir á skemmtisamkomum á Blönduósi og víðar. Þetta starf var Jónasi og félögum mikill gleðigjafi. Æfingar voru alltaf heima hjá Jónasi og Þorbjörgu. Þar ríkti glaðværð og góður andi."

Í afmælisgrein sóknarprestsins, sr. Árna Sigurðssonar, um Jónas sextugan 1976 byrjar hann greinina á að þakka honum forgöngu um söfnun fyrir flygilskaup en þá hafði tónlistarfélag og skóli starfað í 6 ár. Jónas lá ekki á liði sínu að vinna þessum félögum, átti mörg símtöl og samtöl vegna þessara óskabarna sinna og starfaði meðan honum entust kraftar. Engin laun hefur hann þegið frekar en Jón bróðir hans fyrir áratuga söngstjórn og organistastörf eða Guðmundur bróðir þeirra sem handskrifaði heila bók - og nótur þegar kórinn varð 35 ára. Sjá má af þessari sögu að fjöregg byggðanna tekst ekki að varðveita nema til komi hugsjónamenn - ættu kannski ekki að þurfa að vera alveg ólaunaðir þó skáld og listamenn hafi lengi hlotið og unað því hlutskipti.

Samskipti og tengsl hafa um langan aldur verið manninum hamingjulind og Jónas fann það hnoða þegar hann fékk örvun utan úr heiminum stóra sem hvoru tveggja gerir: að hræða og heilla. Kjarkur hans er ótrúlegur að leggja ekki árar í bát þegar verðbólgan gerði áhlaup og hann er nýbúinn að hefjast handa um bygginguna á Húnabraut 26, en í dagbók hans sést að móðir hans Guðrún, einnig heimilismaður í Ártúnum letur hann ei til stórræða sem þó flestir gera um þær mundir. Hann gefur henni ljóðabók sína, Harpan mín í hylnum, á afmælisdegi hennar.

Á fremstu síðu hefur hann látið listaskrifarann, Guðmund bróður sinn, skrifa þessa tileinkun:

Til mömmu 14.3. 1960

Ósnert gull frá æsku sinni
árin geta lengi geymt.
Endurskin af ástúð þinni
er í mínu ljóði geymt.

Jonni

Heimildir og ítarefni:
Árni Sigurðsson/Um JT sextugan: https://timarit.is/page/3573988?iabr=on#page/n12/mode/2up/search/j%C3%B3nas%20tryggvason%20bl%C3%B6ndu%C3%B3si
Stefán Gunnarsson/Tíminn 12/7 1957 Vígsla Húnavers: https://timarit.is/page/1030179?iabr=on#page/n5/mode/2up
Nokkur ljóð JT, þ. á. m. Flúðadrangur: http://stikill.123.is/blog/2011/11/11/550654/
Bergnumin hjörð: http://stikill.123.is/blog/2009/01/22/342206/
Fleiri ljóð JT, þ. á. m. Dís næturinnar: http://stikill.123.is/blog/2011/10/23/547953/
Úr dagbók JT 1960: http://stikill.123.is/blog/2009/03/02/354784/

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga