Forsíða Húnavöku 1965
Forsíða Húnavöku 1965
Pistlar | 19. september 2020 - kl. 13:37
Sögukorn: Annasamar stundir en ánægjulegar
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Annasamar en alltaf ánægjulegar eru einkunnir sem Ingibergur Guðmundsson, ritstjórinn jákvæði, gefur þeim tíma sem hann hefur notað til að skrifa Húnavökuna, eða hringja, eða aka, finna myndir eða yfirleitt að finna ný ráð til að skapa ársrit handa sveitungum sínum og sýslungum - allt í kringum Holtavörðuheiði, rits sem beðið er eftir frammi í dalnum, úti á nesinu, í þorpunum við flóann og af borgarbúum allt frá Borgarnesi austur á Hvolsvöll.

Í Húnavökunni fá vísur sveitaskáldanna rúm, góðskáldin mála bláma flóans með orðskrúði, örsaga birtist af hringjandi síma í hestsmaga, ritstjórar rabba við oddvita, daladrósir, sérvitringa og þorpsþrjóta, annálaritarar sjá ekki fram úr verkefnum sínum, en safna og skrifa án afláts alla tólf mánuðina. Æviferill nýlátinna Húnvetninga er rakinn í minningagreinum og verður fljótt dýrmætt efni enda er Húnavakan rit sem fræðimenn og grúskarar leita til seint og snemma. Á síðustu árum hefur mátt finna efnið og skoða á timarit.is sem auðveldar mjög aðganginn.

Við hljótum að launa vel - og hafa launað - þessum snjöllu og þrautseigu mönnum sem halda ritinu úti, en stofnendur ritsins, eru báðir látnir, heimamaðurinn Stefán Jónsson bóndi og kennari á Kagaðarhóli og Þorsteinn Matthíasson frá Kaldranesi á Ströndum, skólastjóri á Blönduósi áratuginn 1959-´68.

Að leiðir þessara heiðursmanna lágu saman við Barna- og unglingaskólann á Blönduósi varð héraðsbúum dýrmætt og er enn frekar nú - 60 árum síðar - að mega áfram njóta ávaxtanna af áhuga og kjarki þessara ötulu skólamanna.

Stefán fór að kenna við Barnaskólann haustið 1958, Þorsteinn kom til liðs ári síðar og tók þá við skólastjórastarfinu af Steingrími Davíðssyni, öðrum brautryðjandanum til. Haustið 1960 hófst unglingaskólinn á Blönduósi og seinni hluta þess vetrar kom út fyrsta hefti Húnavökunnar - í fjölriti.  Með þrautseigju, þolinmæði og af ótrúlegu þreki stýrði Stefán síðan ritinu í nær hálfa öld þar til núverandi ritstjóri, Ingibergur Guðmundsson tók við stýrinu en hann hafði áður starfað í ritnefndinni með Stefáni og fleiri góðum mönnum, sem greint verður frá hér að neðan.

Tvær konur tóku nýverið sæti í ritnefndinni, þær Þórhalla Guðbjartsdóttir skólastjóri á Blönduósi og Jóhanna Halldórsdóttir bóndi og skáldkona í Blöndudal. Í nefndinni voru fyrir: Jóhann Guðmundsson sem kom til liðs 1970, Unnar Agnarsson frá 1974, Páll Ingþór Kristinsson frá 1981 og Magnús B. Jónsson frá 1983, en Ingibergur ritstjóri tók sæti í ritnefndinni 1983.

Ýmsir fleiri hafa lagt hönd á plóg við efnisöflun og vinnu fyrir þetta góða rit, þessa trausta fylginauts Húnvetninga síðustu 60 ár: Sr. Pétur Ingjaldsson sat í nefndinni í 18 ár, Kristófer Kristjánsson í 10 ár, Magnús Ólafsson í 7 ár, sr. Jón Kr. Ísfeld í 6 ár, Jón Torfason í 6 ár, Einar Kolbeinsson í 3 ár, sr. Hjálmar Jónsson í 3 ár, Stefán Hafsteinsson í 3 ár og Hafþór Sigurðsson í 2 ár.

Á 50 ára afmæli Húnavökunnar, árið 2010, tók Ingibergur ritstjóri saman höfundatal og skráði einnig efni fyrri rita auk þess sem villur eru leiðréttar. Þar vann hann mjög tímafrekt nákvæmnisverk sem eykur notagildi ritsins margfalt. Í Húnavöku 2020 er höfunda- og verkaskrá fyrir síðustu 10 ár þannig að allt efni Húnavökunnar er mjög aðgengilegt á vef og skrám.

Fyrstu ritstjórarnir, Stefán Jónsson og Þorsteinn skólastjóri voru kennarar mínir við unglingaskólann veturinn 1961-62 og þar sá ég mætast hjá þessum merku skólamönnum áræði Strandamannsins og seiglu Húnvetningsins sem birtist okkur enn á nýju ári í þessum sextugasta árgangi síungrar Húnavöku.

Ritstjórann og brautryðjandann Stefán á Kagaðarhóli kvaddi ritnefndin í Húnavöku 2010. Þar segir:

„Ásamt Þorsteini Matthíassyni, skólastjóra á Blönduósi stóð Stefán að stofnun ritsins árið 1961, en þá var Stefán kennari þar og ritari Ungmennasambandsins. Fyrstu tveir árgangarnir voru fjölritaðir en síðan hefur bókin verið unnin í prentsmiðju. Ekkert ár hefur fallið úr útgáfunni og var Stefán ritstjóri í 48 ár, frá fyrstu útgáfu og meðan heilsan entist.

Ritstjórn hans einkenndist af óbilandi áhuga á að varðveita í ritinu sem mest af menningu og sögu héraðs og þjóðar. Hann stýrði útgáfunni af lipurð og nærgætni en þó af festu sem hefur dugað allan þennan tíma til að halda úti riti byggðu á sjálfsprottnum áhuga þeirra sem að standa.

Stefán mótaði Húnavökuna í stærstum dráttum og hefur meginstíl ritsins verið haldið lítt breyttum um árabil. Hann var mikill íslenskumaður, talaði og ritaði gott mál sem kom sér vel við útgáfuna. Við prófarkalestur ritsins voru oft teknar snarpar umræður um einstök orð eða orðasambönd og reyndi þá á hæfileika Stefáns til að komast að ásættanlegri niðurstöðu. Heiðarleiki Stefáns, drenglyndi og áhugi hafði þau áhrif að þeir sem staðið hafa að útgáfu ritsins hafa starfað þar í áratugi.“ segir ritnefndin í Húnavöku 2010 þar sem hún kveður ritstjórann látna.

En tilefni þessa sögukorns er að Ingibergur ritstjóri hefur lýst því yfir - í síðustu Húnavöku - að hann muni nú láta af því starfi. Það má vera okkur tilefni að þakka honum og samstarfsmönnum hans þetta mikla og óeigingjarna starf sem ritnefndin hefur unnið fyrir samfélag sitt.

Það, sem lengi hefur varað eða staðið, verður stundum svo sjálfsagt að við gleymum að þakka. Við þökkum stundum með rjómatertu það sem okkur er vel gert en á tímum kófs og handþvotta er gott að geta gripið til letursborðs og fá síðan inni hjá öðrum ötulum og árvökulum ritstjóra, nl. RZG í Húnahorninu.

Megi Húnavaka, ársrit Ungmennasambandsins, lengi lifa! 

Ingi Heiðmar Jónsson

Meira efni á vefnum:
Ársritið Húnavaka á vefnum: https://timarit.is/page/6342425#page/n0/mode/2up
Kveðja ritnefndar til Stefáns ritstjóra: https://timarit.is/page/6454787?iabr=on#page/n9/mode/2up Viðtal Þorsteins Matthíassonar við hjónin, Elísabetu og Stefán frá Gili í Svartárdal: https://timarit.is/page/6342442?iabr=on#page/n17/mode/2up   
Minningagrein Sigurlaugar Hermannsdóttur um ÞM: https://timarit.is/page/6350623?iabr=on#page/n181/mode/2up  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga