Sólarupprás við ósa Blöndu. Ljósm: Róbert D. Jónsson.
Sólarupprás við ósa Blöndu. Ljósm: Róbert D. Jónsson.
Pistlar | 29. október 2020 - kl. 09:07
Sögukorn: Af langferðum
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Snæbjörn Halldórsson var biskupssonur, en kona hans Sigríður Sigvaldadóttir var af prestaættum frá Húsafelli og Snæbjörn hóf prestskap sinn á Þönglabakka í Fjörðum 1767 en þangað fluttu á áliðnu vori rúmri öld síðar fjölskylda Theódórs Friðrikssonar frá Flatey og þannig lýsir hann komunni þangað:

„Alls staðar blöstu við grænir og grónir hagar fyrir skepnurnar. Átti það vel við skaplyndi föður míns að dunda við vinnu langt fram á kvöld, ganga kringum ærnar og gefa lömbunum auga. Hann tók á móti tveimur kúgildum með jörðinni, tólf ám með lömbum. Þessar ær voru hagvanar á Þönglabakka og voru líkur til að þær myndu mjólka vel um sumarið. Undir eins og vestur kom, tók kýrin að græða sig og komst hún upp í átta merkur í mál. (úr 4 mörkum meðan hún var í Flatey)

Tíðin var einmuna góð, ýmist hlýr sunnanvindur eða blæjalogn og leysing til fjalla svo að lækir og ár ultu fram með ólgandi straumi, úthaginn greri og ilmaði úr grasi."

Sr. Snæbjörn var alinn upp að Staðastað, biskupssonur við góð efni en átti framundan hátt í 12 ára veru og þjónustu í Þönglabakkaprestakalli á svo miklum harðindatímum að fannalög voru á túnum í Fjörðunum á sólmánuði 1778. Í ársbyrjun 1779 segir hann af sér brauðinu, leitaði inn til Eyjafjarðar og réðst sem djákn hjá Möðruvallapresti og fór svo 20 árum síðar vestur í Vatnsdal þar sem prestlaust var í Grímstungu.Ein dætra þeirra giftist Auðólfsstaðabónda og eignaðist með honum dótturina Margréti Ólafsdóttur, formóður Jóa í Stapa en systur Arnljóts prests á Bægisá og Sauðanesi og forgöngumanns um Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum.

Prestar fóru víða eins og fleiri eftirlætismenn okkar og birtast stundum í sögukornum eða stökuspjall. Í verið fór líka Jón Árnason bókavörður, vinur hans og lærisveinn Jón Borgfirðingur ferðaðist víða, jafnvel Jón Sigurðsson forseti að ógleymdum Jóni frá Bægisá sem átti sögugreypta ferð vestan úr Fjörðum til nýrra sveitunga sinna í Öxna- og Hörgárdal.

Jói í Stapa sótti líka vinnu vítt um land á yngri árum sínum, en er á leið ævina og hann flutti suður 1986 og varð fjarlægari sveitungum og frændum á Norðurlandi komu til hagyrðingamótin á hverju hausti. Þau hófust í þorpi Kristjáns vinar hans á Skagaströnd Hjartarsonar haustið 1989 en áttu eftir að berast vítt um land og kenna okkur landa- og félagsfræði, þeim er mótin sóttu hvort sem við gátum gert nokkra vísuna.

Það þarf líka góða félaga til að hlusta á þá skáldmæltu, kannski aka bílnum þeirra, skrifa niður nýorta vísu og svo auðvitað taka þátt í félaginu um stökuna og vináttuna.

Einn af stólpunum undir þessi vinsælu mót var systursonur Jóa, Guðmundur Ingi 1950-2015, prentari kennari og hagyrðingur, ólst líka upp á Skagaströnd þó við kynntumst honum sem Dalvíkingi og hann var sannarlega góður sonur þeirrar byggðar. Hann sparaði hvorki erfiði né snúninga til að hafa jafnana vísnakverið tilbúið fyrir næsta mót. Og kostaði aldrei meira en 500 krónur.

Má ég nefna nokkra staði hagyrðingamóta s. s.: Núp, Hólmavík, Blönduós, Hallormsstað, Djúpavog, Smyrlabjörg, Efri-Vík og svo Reykjavík fimmta hvert ár en fjórðungarnir gömlu deildu hinum árunum.

Síðasta hagyrðingamótið var á Húsavík 2012, en þá lagði Jói ekki í að koma. Gils Einarsson, félagi okkar Jóa frá árum okkar upp í Ytri-Hrepp og bjó þá í Auðsholti, hann greiddi þessa ferð svo vel að sunnan með því að aka okkur aftur heim til Selfoss um nóttina. En við áttum góða stund hjá Jóa í Varmahlíð á norðurleiðinni þó ekki tækist okkur að fá hann með okkar til Húsavíkur. Og svo var organistinn kominn heim í tæka tíð til að spila í hátíðarmessu í Villingaholtskirkju á sunnudeginum – og hafði af nokkru að guma, þó Gils hefði meira til þess unnið.

Heimildir og ítarefni:
Ágúst Sigurðsson/ Forn frægðarsetur IV Rv. 1982
Theódór Friðriksson/Í verum Helgafell 1977
Frá Dalvík kom Guðm. Ingi https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16978
JÁrnason og sálarkufl: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13068
Öxlin gnæfir yfir Þingið: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=12707
Þorsteinn Arnljótsson: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17236
Jón Borgfirðingur: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16965
Séra Arnljótur á Sauðanes/Bægisa: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16409
Tjarnarprestur og Vatnsnesingaskáld: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13905

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga