Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 28. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 21:59 0 0°C
Laxárdalsh. 21:59 0 0°C
Vatnsskarð 21:59 0 0°C
Þverárfjall 21:59 0 0°C
Kjalarnes 21:59 0 0°C
Hafnarfjall 21:59 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
17. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
15. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
11. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Glitský yfir Vatnsdal. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Glitský yfir Vatnsdal. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Pistlar | 04. janúar 2021 - kl. 09:20
Sögukorn: Að draga sagnaviði á land
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Félag merkir eftir orðanna hljóðan að hafa saman sjóð, leggja saman fé sitt, félagar stefna að sama marki, setja sér sömu reglur eftir sem þeir ákveða og skrifa á bók. Þá er komin skráning, reglan hefur verið skráð sem hefur verið mikils metið allt frá því Hafliðaskrá var gerð á Breiðabólstað í Vesturhópi 1117-1118.

Áar/afar menntafúsir, en löngu gengnir af þessum heimi, stofnuðu sér og okkur niðjum sínum, sögufélag árið 1938 til að skrá það sem geymst hefur á pappír, í munum eða huga og markvert telst.

Hér að neðan er bréf til Húnvetninga, undirritað af stjórninni/formanni í nýja félaginu og dagsett hjá Gunnari presti í Langadalnum sem myndaði þríeyki um stjórn félagsins með Magnúsi á Syðra-Hóli og sveitunga sínum Bjarna kennara og fræðimanni í Hólum í Blöndudal. Þessir komu sögufélaginu á legg og áttu sinn fyrsta fund til undirbúnings hjá Tryggva Jónassyni í Finnstungu.

Félagið okkar, nú komið á níræðisaldur, er sæmilega virkt og fundafært, m. k. nægilega til að minna á sögufélagsritin, Svipi og sagnir í fimm bindum, bækur Magnúsar, 3 bindi sem POB á Akureyri gaf út, Húnaþing I – III um 1970, Æviskrár Austur-Húnvetninga I-IV um síðustu aldamót, en ýmsir fleiri komu að útgáfu bókanna, en sagt er nánar frá útgáfumálum félagsins í Húnavöku 2014, sjá krækjur í greinarlok.

Héraðslýsing og saga í Föðurtúnum, útg. 1950, byggir á sama grunni og sögufélagið heima í héraðinu og höfundurinn Páll Kolka var í fyrstu stjórn félagsins en hann gaf sjálfur út bókina í þrá við Húnvetningafélagið í Reykjavík. Þeir Húnvetningafélagsmenn höfðu í fyrstu fengið hann til að setja saman bókina og ætluðu að einnig að gefa hana út. En þá var að komast á laggir bygging Héraðshælisins og hagnaður af sölu bókarinnar skyldi fara til þeirrar framkvæmda.

Liðin voru 12 ár frá stofnun Sögufélagsins þegar Föðurtún koma út, en höfundur getur þess lítt, þó á sömu slóðum sé, fyrr en kemur að Brandsstöðum og útgáfu á annál Björns fræðimanns þar Bjarnasonar.

Sögufélagið Húnvetningur var að gefa út fjórða rit Sögufélagsins, Hlyni og hreggviði árið 1950, en áður höfðu komið út 1.) Brandsstaðaannáll í félagi við Húnvetningafélagið í Reykjavík, 2.) Búnaðarfélög Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppa, 3.) Svipi og sagnir, og svo 4.) Hlyni og hreggviði árið 1950.

Um Magnús á Syðra-Hóli segir höf. Föðurtúna, Páll Kolka:„ . . MB hreppsstjóri og sýslunefndarmaður, fræðimaður ágætur, sem manna best hefur rakið ættir Skagstrendinga og atburði úr þeim sveitum. Hann er einn af helstu heimildarmönnum þessa ritverks,“ þ. e. Föðurtúna.

Héraðsritið Húnavaka er 60 ára um þessar mundir og hefur tekið upp sum af þeim markmiðum sem koma fram í bréfi Sögufélagsins til Húnvetninga sumarið 1938.

Við ársritið hafa hingað til starfað tveir ritstjórar, Stefán Jónsson á Kagaðarhóli sem stofnaði Húnavökuna 1961 með Þorsteini Matthíassyni skólastjóra á Blönduósi en Stefán starfaði síðan að útgáfunni sem ritstjóri til 2008 er hann missti heilsuna. En þá tók Ingibergur Guðmundsson upp merkið, hafði áður starfað í ritstjórn og á líka heiðurinn af vandaðri höfunda- og leiðréttingaskrá sem kom út með fimmtugasta árganginum.

En snúum nú aftur að upphafsári Sögufélagsins og bréfi formanns og stjórnar til Húnvetninga þar sem birtist hugur og áræði félagsmanna:

                                Æsustöðum 17/7 1938

Heiðraði sýslungi

         Þann 9. júní þ. á. var stofnað hér í sýslunni Sögufélagið Húnvetningur með það markmið fyrir augum, að safna til sögu Húnavatnssýslu og íbúa hennar – einkum á síðustu öld –  og varðveita allar þær söguminjar, sem verulegt gildi hafa og til kynnu að vera í sýslunni.

         Verksvið félagsins er svo víðtækt og margþætt, að óhugsandi er að á næstu árum verði annað gjört en marka og draga á land sem mest af þeim sagnaviðum smáum og stórum, sem nú fljóta fyrir landi og á hverjum tíma er hætt við að næsta alda skoli út. En hér er sú bót í máli, að þarna er raunar verkefni fyrir öll heimili sýslunnar, þar sem fjöldi manna geta lagt sinn skerf af mörkum, ef þeim vilja. Því hver bær á sína sögu svo og hver ætt og raunar hver einstaklingur. Þetta er að vísu mjög mismerkt, en oft eru það þeir steinar byggingarinnar er minnst ber á, sem hún má síst án vera. Því má enginn slá því föstu að óhugsuðu máli, að hann geti þessum málum ekkert lið lagt, heldur skyldi sérhver fús til að gera það sem í hans valdi stendur til að þetta verk er nú er hafið, megi á sínum tíma bera oss það vitni, að vér höfum eigi síður verið geymnir á hið forna, en fúsir til allrar framsóknar.

         Á þessum miklu breytingartímum sem vér nú lifum er þessa hin mesta þörf að hafist sé þegar handa, að forða hinum fornu sporum frá því að sandverpast eða grasgróa.

         Hvað eina sem þér teljið því að geta haft sögulegt eða almennt gildi á einhvern hátt hafið þér möguleika og raunar skyldu til að varðveita.

Í því trausti að þér hafið á því fullan skilning og velvilja til þessa máls, leyfum vér oss að senda yður meðfylgjandi spurningar sem vér biðjum yður að svara eigi síðar en um næstu áramót og senda svör yðar til einhvers af oss undirrituðum.

Um spurningarnar sjálfar skal þetta aðeins tekið fram:

  1. Vér leggjum ríka áherslu á að öllu sé svarað svo rétt og greinilega sem kostur er á.
  2. Ef um einhverjar minjar eða handrit er að ræða, sem men vildu láta af hendi og félagið kynni að gera eignast, er sú tilætlunin að slíkt verði varðveitt innan sýslunnar.
  3. Stjórnin mun að sjálfsögðu virða óskir manna um þagnarskyldu viðvíkjandi einstökum atriðum í gömlum einkabréfum sem ekki eru eingöngu sögulegt eðlis.
  4. Þó spurningum sé beint til húsráðenda, er náttúrlega ekki síður ætlast til að þær séu lagðar fyrir aðra heimilismenn, að því leyti sem þeir geta úr þeim leyst.
  5. Vér biðjum yður að gæta þess vel að sleppa eigi að svara þeim spurningum, sem þér getið og viljið svara þó aðrar séu þannig vaxnar að þér látið vera óleyst úr þeim.

                                                           Vinsamlegast

                                               Gunnar Árnason frá Skútustöðum

                Bjarni Jónasson                     Jón Jónsson í Stóradal

                Magnús Björnsson                 Páll V. G. Kolka

Spurningar stjórnar Sögufélagsins Húnvetningur

  1. Gjörið svo vel að gefa oss upp ættartölu yðar og konu yðar (ef þér hafið kvongast) að því leyti sem ættin er yður kunnug.
  2. Hvað vitið þér um ættmenn yðar, sem þér vilduð halda á lofti eða getur haft sögulegt gildi.
  3. Kunnið þér nokkrar sagnir um ættmenn yðar eða aðra, sem gagn eða gaman er að. Ef þær eru prentaðar eða skráðar, segið þá til hvar það er.
  4. Hvað vitið þér um jörð yðar: Er hún landnámsjörð, hverjir hafa búið þar og hvenær, hefur hún gengið kaupum og sölum, orðið fyrir miklum náttúruáverkum o.fl.
  5. Eru nokkrar fornar söguminjar á jörð yðar: Rústir, dysjar, eyðibýli o. s. frv.
  6. Hafið þér ritað upp örnefni á jörð yðar eða eruð fús til að gjöra það um hin merkustu svo og um þau ummæli, sem við þau kunna að vera tengd.
  7. Eigið þér nokkra gamla og merka smíðisgripi, ættargripi, listaverk eða annað slíkt, sem hefur sögulegt gildi.
  8. Eigið þér nokkrar bækur, sem prentaðar eru hérlendis eða erlendis fyrir árið 1850.
  9. Eigið þér nokkur gömul eða ný söguleg handrit eða hafið þér haldið dagbók eða einhvers konar annála.
  10. Eigið þér ekki gömul sendibréf eða gjörninga.
  11. Eigið þér ekki gömul landamerkjabréf eða lögfestur, staðarlýsingar o. s. frv.
  12. Hvenær var bærinn yðar reistur og getið þér, ef þér búið í nýju húsi, lýst fornum byggingum á jörð yðar eða bent á þann, er til þess væri fær.
  13. Hvenær kom hin „nýja öld“ í sveit yðar og á bæ yðar í búnaðarháttum, þ. e.
  1. Hvaða verkfæri hafa fallið úr notkun og hver komið í staðinn og hvenær.
  2. Hvenær hætt fráfærum.
  3. Hvenær styttur vinnutími og hve mikið.
  4. Hvað margt fólk í heimili fyrr og nú
  5. Hver breyting á áhöfn á sama tíma: tala, kynbætur, aðkeypt.
  6. Hvaða jarðarbætur unnar, hvenær fyrst, hvenær mestar o. s. frv.
  1. Hvaða breytingar eru yður minnisstæðar um klæðnað manna, reiðver o. s. frv.
  2. Hvaða breytingar á sveitarsiðum munið þér, t.d. meðferð á ómögum, gamlar veislur, kirkjusiði o. s. frv.
  3. Kunnið þér nokkrar húnvetnskar þjóðsagnir óprentaðar eða sögur um einkennilega men, slysfarir, frægðarfarir o. s. frv.
  4. Kunnið þér ekki húnvetnskar lausavísur eða ljóð sem óprentuð eru.
  5. Þekkið þér ekki margfrótt gamalmenni, sem vert væri að rita upp eftir.
  6. Eigið þér ekki gamlar ljósmyndir af ættmennum yðar eða öðrum og viljið þér láta þær af hendi ásamt mynd af yður og öðrum heimilismönnum yðar sem stofn að mannamyndasafni Húnavatnssýslu, sem félagið hefir í hyggju að koma á fót. Myndunum þarf að fylgja nafn og heimilisfang (og aldur myndanna sé ákveðinn ef unnt er.)

Hér lýkur bréfaskriftum nýju stjórnarinnar til Húnvetninga en í lokin bætast við fáein orð um nýja formanninn á Æsustöðum, sem taldi félaga sína Bjarna eða Magnús meiri formannsefni en sig sjálfan, en þeir skoruðust báðir undan vegna hlédrægni.

Nývígður prestur og Þingeyingur, Gunnar Árnason frá Skútustöðum, kom til starfa hjá Húnvetningum árið 1925, á stórfelldu breytinga- og mótunarskeiði í héraðinu. Hann tók sér ekki búsetu á prestsetrinu á Bergsstöðum, en hafði makaskipti á þessari víðáttumiklu jörð í miðjum Svartárdalnum við Gísla Pálmason bónda og organista á Æsustöðum, sem var í miðju prestakallinu, byggði þar nýtt íbúðarhús og þangað flutti Sigríður kona hans og prestsdóttir frá Auðkúlu. Prestur tók þátt í sveitarstjórn, ungmennafélagi og fræðslumálum auk prests- og bústarfa.

Hann varð fyrsti formaður félagsins sem stofnað var 1938 og nefndist Sögufélagið Húnvetningur. Hann ritaði merka búskaparsögu af innanverðum Laxárdal meðan hann var enn mestallur í byggð. Til hans var leitað þegar semja skyldi 35 ára sögu Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps. Fjöldi af útfararræðum sr. Gunnars er varðveittur í Héraðsskjalasafninu á Blönduósi. Hann var kosinn til að starfa í byggingarnefnd Húnavers, þó hann flytti burtu áður en sú framkvæmd kæmist í gang að marki.

Eftir að prestsfjölskyldan flutti suður 1952 var oft gestkvæmt hjá þeim af Norðlendingum eftir nær 27 ára þjónustu prests hjá Húnvetningum og sr. Gunnar varð þá líka útvörður Sögufélagsins við Faxaflóann. Hann tók við preststarfi í Bústaðaprestakalli 1952, en það náði líka yfir Kópavog þar sem fjölskyldan bjó að Digranesvegi 6, en 12 árum síðar varð Kópavogur sérstakt prestakall sem hann þjónaði til 1971.

Heimildir og ítarefni:
Sögufélagið Húnvetningur 75 ára: https://timarit.is/page/6456131#page/n153/mode/2up
Um Gunnar prest á Æsustöðum: https://timarit.is/files/44905219
Viðtal Elínar Pálmad. v/sr. Gunnar: https://timarit.is/page/1424368#page/n9/mode/2up
Ísmús/sr. Gunnar Árnason: https://www.ismus.is/i/person/uid-bc9e17a5-711e-4532-b376-8028be0c2702
Sögukorn af héraðsritinu Húnavöku: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17361
Sögukorn af Jónasi í Brattahlíð: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16731
Sjóndeildarhringur með eyktamörkum: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=15485

Ingi Heiðmar Jónsson

 

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið