Pistlar | 14. janúar 2021 - kl. 08:28
Nýtt upphaf
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Þá hefur árið 2020 sem margir horfðu með eftirvæntingu til hvatt okkur og er horfið í aldanna skaut. Heilt yfir reyndist árið heimsbyggðinni þungt í skauti enda rústaði veiran illræmda, Covid 19, lífi fjölda fólks og skók heimsbyggðina með illþyrmandi hætti.

Ekkert ár er án áfalla og ekkert ár er gleðisnautt. Við getum lært margt og mikið af viðbrögðum okkar og samskiptum á árinu 2020 og tekið mjög margt gott með okkur inn í nýja árið, þótt vissulega hafi fórnarkostnaðurinn verið allt of mörgum allt of þungbær.

Hvað sjálfan mig varðar væru það herfileg mistök að vera ekki þakklátur þegar litið er aftur og farið er yfir árið 2020. Jafnvel þótt ég eins og svo margir, jafnvel flestir hafi verið pínu einangraður og lokaður af vegna Covid 19, þá opnuðust einnig nýjar dyr og gluggar með nýjum tækifærum og ævintýrum sem maður sá ekki fyrir og er þakklátur fyrir. Fyrir utan það að á árinu 2020 hóf ég inntöku nýrra líftæknilyfja vegna krabbameinsins sem ég hafði þá barist við í sex ár. Og viti menn ég svaraði lyfjunum vel og hafa krabbameinsgildin fallið hressilega og æxlin ekki stækkað á árinu sem er náttúrulega bara ekkert annað en kraftaverk. Ég get því ekki annað en glaðst og þakkað.

Með hverju ári er nýtt upphaf byggt á gömlum merg og aldanna reynslu. Hverju ári fylgir ákveðið óvissustig en einnig von og þrá eftir hamingju. Ég held að aðal málið sé að missa ekki trúna. Vera Guði falin og leggja hvern dag og hverja stund í hans hendur í trausti þess að hann muni vel fyrir sjá. Þannig færist hamingjan yfir. Jafnvel þegar stormur geysar og það næðir um eða í sárustu aðstæðum.

Lífið er ævintýri

Lífið er ævintýri, þrátt fyrir allt. Nýtum því augnablikið eins og frekast er kostur og reynum að njóta stundarinnar miðað við aðstæður.

Guð gefi að frelsisverk Jesú Krists mætti skína úr augum okkar alla daga. Líka á dögum vonbrigða og sorgar. Því lífið er í eðli sínu fallegt og gott, þrátt fyrir allt. Óttumst ekki, því við eigum lífið fram undan, hvernig sem allt fer. Spáðu í það.

Lesendum Húnahornsins sem og þjóðinni allri vil ég leyfa mér að biðja Guðs blessunar og varðveislu, kærleika og friðar nú við upphaf nýs árs. Með einlægu þakklæti fyrir samfylgd hér á síðum blaðsins frá 1984 eða í 37 ár.

Gleymum ekki Guði, náunganum eða okkur sjálfum. Förum vel með jörðina okkar og stöndum saman í átt til sumars og sólar í hjarta. Því hamingjan felst í því að vera með himininn í hjartanu.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga