Pistlar | 25. janúar 2021 - kl. 15:32
Hvar er kirkjan?
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Í bók einni er út kom í lok febrúar 2020 og bar heitið, Faðmlög, má finna eftirfarandi orð á einni af síðum bókarinnar. Þess má reyndar geta að nánast var sett lögbann á faðmlög fáeinum dögum eftir að Faðmlögin bárust hingað til lands af skiljanlegum ástæðum út af „sottlu“ sem ekki þarf að rekja nánar hér. En hvað um það, faðmlög eru nauðsynleg, þótt þau þurfi vissulega að útfæra með viðeigandi hætti á hverjum tíma.

Hvar er kirkjan?

Ef við komumst ekki
til kirkju
þá verður kirkjan
einfaldlega
að koma til okkar
með það faðmlag
sem henni var ætlað
og setjast þar að
ef hún ætlar að lifa af.

Nýjar víddir
Frá þeim tímapunkti í fyrra þegar faðmlög voru bönnuð og flestu skellt í lás og allar götur síðan, ekki síst á aðventunni og um jólin hefur kirkjan einmitt tekið vel við sér og sinnt köllun sinni með lofsverðu framtaki og komið til fólskins í gegnum tæknina. Með sjónvarpsþáttum og margvíslegu streymi frá söfnuðunum þar sem sendar hafa verið út heilu guðsþjónusturnar meðal annars á Facebook. Einnig styttri helgistundir með hrífandi og gefandi tónlist og söng þar sem ritningarorð, ljóð, stutt frásögn, vitnisburðir og hugleiðingar hafa verið fluttar. Einnig hafa sumar kirkjurnar sent út spjallþætti þar sem prestar, djáknar og annað starfsfólk kirkjunnar hefur fengið til sín fólk til að spjalla um lífið og tilveruna, trúna, vonina og kærleikann. Hefur þessi nýbreytni tekist einkar vel til og veit ég að margir hafa notið heima í stofu eða við tölvuna og er ég sannarlega þeirra á meðal. Það eru líklega mörg ár ef það hefur þá gerst að maður hefi fengið að njóta jafn mikils fjölda kyrrðar- íhugunar og bænastunda jafnvel samdægurs, viku eftir viku. Virkilega vel gert og sannarlega þakkarvert hjá starfsfólki kirkjunnar.

Að sjálfsögðu skiptir samfélagið miklu máli og það að fá að vera á staðnum og að taka beinan þátt. En á þeim fordæmalausu tímum sem við höfum verið að fara í gegnum síðastliðið ár hefur mér þótt afar uppörvandi að sitja bara einn við tölvuna og njóta alls þess góða boðskapar sem kirkjunnar fólk hefur flutt okkur á erfiðum tímum auk huggandi, nærandi og uppörvandi tónlistar, þannig að maður hefur jafnvel getað fengið útrás fyrir tilfinningar á erfiðum tímum og tárast í hljóðri bæn hér og nú þar sem enginn sér mann nema Kærleikans lífgefandi Guð. Guð vonarinnar og friðarins.

Þökk sé starfsfólki kirknanna fyrir að koma svo ljúflega inn í aðstæður með kærleika Guðs að vopni, færandi erindi frelsarans Jesú Krists fyrir heilagan anda á framfæri með þessum hætti á svo hugmyndaríkan og lausnamiðaðan hátt.

Guð blessi kirkjurnar og allt þeirra hljóða en útbreidda mannbætandi, fjölbreytta og vandaða starf sem fylgir líkn og lausn, umhyggjusemi, fyrirgefning og mannvirðing. Um leið og þakkað er fyrir lífið, jörðina okkar og allt sem lifir. Þar sem við sjálf, fjölskylda, vinir og vandamenn sem og heimsbyggðin öll er lögð í bæn í Guðs hendur í trausti þess að hann muni leysa okkar úr ánauð hins illa og vel fyrir sjá. Með sínu undraverða og lífgefandi faðmlagi sem enginn skilur en allir mega þiggja og njóta.

Með einlægri samstöðu- kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga