Sigurbjörn Jóhannsson
Sigurbjörn Jóhannsson
Pistlar | 16. mars 2021 - kl. 10:04
Stökuspjall - Ljóðafugl
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

4. Við orf og reku oft ég samdi kvæði
og yfir hjörð um sumar jafnt og vetur
en oftast þó í næturvöku næði.
Í næturkyrrð sá andinn jafnan betur
þótt fyrir ljós mitt löngum drægi skugga
í líki svölu, hamhleypan á glugga.

Til Egils á Borg – forföður Íslendinga, þeirra ljóðelsku og annarra  –  verður bóndanum og skáldinu Sigurbirni Jóhannssyni hugsað, fluttur vestur um haf og heldur áfram að yrkja – og rækta félagsskap með löndum sínum.

En Egill Skallagrímsson fór austur um haf, kvað Höfuðlausn sér til að varnar, átti til þess aðeins eina nótt og þó næðisfáa lengi vel því svala sat við gluggann og truflaði skáldið. En Egill átti vin, sem ekki þurfti að hringja í, Arinbjörn hersir kom að vitja hans um óttubil eftir sumbl með félögum sínum, hrakti frá honum hamhleypuna en settist sjálfur við gluggann svo vinur hans mætti semja, nema og flytja síðan konungi ljóðið Höfuðlausn næsta dag og þiggja fyrir það hjalmaklett, þ.e. höfuð sitt.

Bóndinn þingeyski sem flutti vestur um haf 1889, kvað - þá orðinn fimmtugur að aldri:
Fyrr ég aldrei fann hvað hörð
fátækt orkað getur.
Hún frá minni móðurjörð
mig í útlegð setur.

Eftir hálfrar aldar töf
ónýtt starf og næði
leita ég mér loks að gröf
langt frá ættarsvæði.

Um ættstofn skáldsins orti sýslungi hans, Indriði Þorkelsson á Fjalli:

Frá rótum hans eru runnir
rammir um aldamót þrenn
allflestir innan vors héraðs
orðsins kunnáttumenn.

Og Indriði kvaddi skáldbróður sinn með eftirfarandi hendingum:

Þess snilldardrengs sem fór af föðurlandi
sem flóttaþegn – á meðan hjartað brann.

Sigurbjörn orti margt tækifærisljóða, s.s. brúðkaups-, erfi- og afmælisljóð auk ljóðabréfa, en hann sendi líka löstum þjóðarinnar tóninn:

Hér er bakmáls hnútukast
heimsku drifið gjósti.
Öfund, hatur, lýgi´ og last
logar í sumra brjósti.

Í kaupstað heima á Fróni kvað hann:

Margur hér til gildru gekk
glópsku feril taman:
Þræll að vera, þræls í hlekk
þykir mér ei gaman.

Og

Oft ég skrafa fávís fátt
fólk að lasta trauður.
Til að lafa heims við hátt
hlæ ég gleðisnauður.

Til Kristjáns Dalman, vinar vestan hafs yrkir Sigurbjörn:

Þú komst hér frjáls á frjálsa storð
úr faðmi Íslands dala
þig fýstu vestræn frelsis orð
við frjóseminnar nægtaborð
þinn aldur hér að ala.

Sigurbjörn hefur notið íþróttar sinnar, skáldagáfunnar, hjá löndunum vestra og bók með ljóðum hans kom út í Winnipeg 1902, ári fyrir andlát hans.  Við  Fótaskinn í Aðaldal sem nú er nefnt Helluland er hann oft kenndur, Sigurbjörn Jóhannsson er fullt nafn hans og hann byrjar ljóðabókina sína með ljóðinu Til landa minna eins og þetta stökuspjall byrjar einnig því ljóði, fjórða erindi. Því lýkur einnig með erindum úr sama ljóði, því síðasta og því fyrsta – skáldið sendir löndum sínum ljóðafuglinn, sem leitar skjóls og hlakkar til vorsins.

10. Svo flýr minn ljóðafugl á ykkar náðir.
Hann fá þarf skjól því oft blés kalt á móti.
Hans rödd er veik og vængjastúfar hrjáðir
af volki löngu heims í ölduróti.
Þó gegn um allt hann sól og sumri unni
en svartnætti og éljum illa kunni.

1. Ég fer af stað í fátæklegum línum
að finna ykkur kæru landar mínir.
Mér bárust aldrei blóm frá menntahæðum
það búningurinn ljóða minna sýnir.
Þau skreyttu fötin aldrei eignast hefi´ eg
og að mér sama forna kuflinn vef eg.

Meira efni:
Egilssaga 61. kafli: https://www.snerpa.is/net/isl/egils.htm
SJ á Húnaflóa – vísnavef: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/visur.php?VID=34295
Afmælisgrein um dóttur skáldsins, Jakobínu Johnson: https://timarit.is/page/1318535#page/n8/mode/2up

Fleiri vísur og ljóð:

1. Er það mögulegt?

Fær minn andi endurbót
ævi hraknings tíðar?
Getur skeð að reyrs af rót
rísi pálmi síðar. 

2. Afsökun

Hug minn gráleitt hjúpar ský
hróðrar stjá það letur
liggur dái andinn í
eins og strá um vetur.

3. Um Skjónu Jóns Ól.

Skjóna grjóti skeifum frá
skirpir fljót í bragði
trauða fóta missa má
mæði hót ei kennir á.

Beisla hindin bráðfjörug
brokkar yndislega
hröð sem vinda bóls um bug
beini´ í skyndi valur flug.

Penna iðju þarfan þjón
þrátt í hryðjum ferða
ístaðs bryðjan efld sem ljón
Ólafs niðja flytur Jón.

4. Yfir gripahjörð

Einn við hala hjörð eg gala
hund og malinn við mig gleð
eins og smalar Íslands dala
engu talinn fólki með. 

5. Stökur

Sumra orð hjá eyra manns
eru vinskaps hljómur
en þá bak við horfir hans
harður palladómur.

Oft ég skrafa fávís fátt
fólk að lasta trauður.
Til að lafa heims við hátt
hlæ eg gleðisnauður.

6. Tveir menn kepptu um ábúð á lélegu koti

Er þá Glaumbær salur sá
sælt nægt hvar ríkir?
Menn um kotið ýtast á
úlfa kindum líkir.

Færast lög í flækjuhnút
fólginn endi liggur.
Hver vill hrinda öðrum út
og það réttlátt hyggur.

7. Við Þ. Jóhannesson

Þótt vort lýist líf og kraftur
ljóð fram knýjum Steini minn
þú hefir nýjað okkar aftur
æsku hlýja vinskapinn.

8. Í miðju Atlantshafi

Nú er oss fjarri fjalley há
vor fósturjörðin kæra
þá miðju djúpi Atlants á
vér eigum hvílu væra.
Hér er það fátt, sem oss var tamt
vor augu til að bæra
en himinn guðs er sami samt
og sólin undurskæra.

Oss gufu drekinn ruggar rótt
á Ránar yfirklæði
og drífur skriðið dag og nótt
þótt Dröfn með súðum æði.
Hún nöldrar til vor:Gleym, þú, gleym
því gamla hafíslífi."
En andinn leitar heim, - já heim
þótt hingað aftur svífi.

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga