Hlíðará, ofan við Húnaver. Mynd: stikill.123.is
Hlíðará, ofan við Húnaver. Mynd: stikill.123.is
Pistlar | 09. apríl 2021 - kl. 15:48
Stökuspjall: Hirðir best um Bergsstaði
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Hvað tengir helst saman: Land eða fjörður, grannavinátta, ísaganga 3-4 útmánuði yfir Blöndu eða kannski bændaríma. Friðgeir í Hvammi orti bændarímu um sveitunga sína og þessi vísa birtist í mansöngnum, þe inngangi að sjálfri rímunni:

Víki þögn og þunglyndi,
það er brögnum leiðindi.
Hlýðum sögn úr sveit vorri,
sumra fögnum búsnilli.

Svo hóf hann bændatalið í Bólstaðarhlíð, hjá Klemensi smið og stórbónda, sem smíðaði kirkju þá sem þar stendur enn:

Ærumaður ár og síð,
engum skaða vekur stríð,
kann að hraða kirkjusmíð
Klemens -staðar Bóls- í -hlíð.

Innrímið var Friðgeiri skáldi nærtækt, en næsta vísa er um Magnús tengdason Klemensar, er sömuleiðis lofleg en þá leitar í hugann frásögn Jónasar Illugasonar af kjörum foreldra hans, sem hlutu að víkja af Botnastöðum fyrir bróður Magnúsar, en Klemens Klemensson, átti og réði jarðeignum þar í dal, báðu megin Hlíðarár. Fluttu foreldrar Jónasar með hann yngstan barna sinna til Björn Ólafssonar að Finnstungu og voru þar í húsmennsku fardagaárið 1872-73. Eldri börnum þeirra varð að koma annað þrengsla vegna í Tungu.

Sr. Markús prestur á Bergsstöðum fær tvær vísur sem var einstætt í rímunni en hann á eftir að flytja yfir hálsinn og verða síðasti prestur Blönddælinga sem sviptir voru presti sínum og sókn 1880 en Bugsbæir lögðust til Svínavatnssókna, framdalurinn að austan til Bergsstaða en prestsetrið forna Blöndudalshólar og bæirnir út að Svartá, þ.e. Tunguplássið urðu hluti af Bólstaðarhlíðarsókn.

Hrósið ber af bændunum,
bestu hér að kenningum,
mjög óþver í manndyggðum
Markús séra á Bergsstöðum.

Markús prestinn menn lofi,
mælir flest af skynsemi,
hirðir best um Bergsstaði,
beina gestum veitandi.

Gísli á Eyvindarstöðum, afi og alnafni Gísla skálds Ólafssonar frá Eiríksstöðum, en langalangafi minn/IHJ fær þessa glaðlegu vísu:

Mitt í röðum rekka þar
rækir hröðu skyldurnar
hug með glöðum, greiðasnar
Gísli á stöðum Eyvindar.

Kemur nú að Hólaklerki, sr. Hjörleifi Einarssyni, ættföður skálda og leikara:

Hjörleif, prestinn Hólum frá,
heyrði eg bestan lofstír fá,
helgra lestur syngur sá,
sama flestir um það tjá.

Birni það eg frétti frá
fæstum skaða veitir sá,
hýr og glaður gumum hjá,
greiðamaður Tungu á.

Og þá birtist hér Björn í Tungu, móðurbróðir Jónasar Illugasonar og faðir bændanna Sigvalda á Skeggsstöðum og Ólafs á Árbakka á Skagaströnd en bróðir sr. Arnljóts á Sauðanesi þingskörungs, hagfræðings og málfræðings – án prófa –  og forgöngumanns um stofnun Gagnfræðaskólans á Möðruvöllum 1880 þangað sem Magnús á Syðra-Hóli og margir Norðlendingar sóttu menntun og andríki.

Frumvarp Arnljóts Ólafssonar sem hann flutti á alþingi 1877 var aðeins sjö orð:

Á Möðruvöllum í Hörgárdal skal stofna gagnfræðaskóla.

En Arnljótur varð skrifari nefndarinnar sem kosin var í framhaldi frumvarpsins: form. varð Grímur Thomsen, en Einar í Nesi, Jón Blöndal og Tryggvi Gunnarsson nefndarmenn.

Annar skóli stóð við Húnaflóa, starfaði fyrsta vetur sinn 1879 fram á Undirfelli í víðum Vatnsdal, hjá nýnefndum sr. Hjörleifi Einarssyni sem var þar prestur frá 1876, en Kvennaskóli Húnvetninga var næstu 2 vetur vestur á Lækjamóti í Víðidal, fjórða veturinn á Hofi en þá var komið að staðfestu skólans á Ytri-Ey þar sem skólinn stóð fram að aldamótum en flutti þá að Blönduósi í nýbyggt skólahús.

Að Ytrieyjarskóla kom stúlka vestan úr Arnarfirði 1895, Sólveig Guðmundsdóttir og átti fleiri erindi til Norðurlands en að nema vetrarlangt við skólann en hún eignaðist mann úr Þinginu og soninn Sigurð með honum. Þá fer Sólveig suður til ljósmóðurnáms og verður síðar ljósmóðir hjá Svínvetningum, síðast í Tungunesi en þaðan flytur fjölskyldan að Botnastöðum, Gili og síðar upp að Selhaga. Hún var ljósmóðir hjá Hlíðhreppingum til 1914. Síðar fór hún á námskeið hjá Jónasi lækni Kristjánssyni á Sauðárkróki og tók aftur upp þráðinn sem hjúkrunarkona heima í sveitinni 1920-24 en þá flutti fjölskyldan til Akureyrar. En heimilisfaðirinn Halldór Hjálmarsson var viðloða gömlu sveitina sína árum saman.

Elsti sonur Selhagahjónanna, hagyrðingurinn Sigurður, hefur leitað fanga víða þegar vísur birtust á blöðum eða voru á vörum. Hann sótti vísur úr dagblöðum, sagnfræðiritum og úr Skáldaskinnu, gestabók, sem varðveitt var á dögum annars Húnvetnings, Rögnvalds Rögnvaldssonar 1912 – 1987 undir kirkjutröppunum á Akureyri 1960-70.      

Þessu spjalli um vísnasafnarann, hagyrðinginn og Hlíðhreppinginn Sigurð Halldórsson lýkur með nokkrum vísum hans sjálfs.

Þegar ógna vetrarvöld
vor er ljúft að dreyma
og ævidaga undir kvöld
æskuna sína heima. SH 

Ýmsum lýsir lífs um skeið
lukku sólin bjarta
aðra villir út af leið
ólánsmyrkrið svarta. SH

Flett í vísnasafninu:

Lífs á svæði lán mig bjó
lítt að gæðum sínum.
Hálfáttræður finn ég fró
er fletti ég skræðum mínum. SH

Svartárdalur kvaddur
Söknuð falinn seytla eg finn
sálar innst um kynni
er kveð ég dalinn kæra minn
kannski í hinsta sinni. SH

Haustvísa

Falla strá um fit og holt
fölnar brá á túnum.
Fjallið háa hreykir stolt
hélugráum brúnum. SH

Ellidrungi að mér sest
ama slunginn vési.
Þarna ungur undi ég best
yfir í Tungunesi. SH

Enn er til fróðleiks:

Á síðustu áratugum staðar/prestseturs/beneficium í Blöndudalshólum sátu þar 6 prestar, flestir vel kunnir og niðjaríkir og eru:

1.     Auðunn Jónsson 1778-1807 Ættfaðir Blöndalsættar
2.     Ólafur Tómasson 1807-1834 afi Bertels Þorleifssonar og Köldukinnarmanna    
3.     Sveinn Níelsson frá 1835  móðurfaðir og nafni Sveins forseta Björnssonar
4.     Þorlákur Stefánsson frá 1844 faðir Þórarins B. Þorlákssonar listmálara og föðurfaðir          Jóns Þorlákssonar verkfr., borgarstj. í Rv og forsætisráðherra.
5.     Hjörleifur Einarsson frá 1859 faðir Einars og sr. Tryggva Kvaran.
6.     Markús Gíslason frá 1869 – 1880
7.     Tveir þessara presta, Sveinn og Þorlákur, urðu tengdasynir sr. Jóns Pétursson í Steinnesi, en kona hans var Elísabet Björnsdóttir prests í Bólstaðarhlíð. Börn þeirra sem upp komust: Síra Björn á Stokkseyri, Pétur í Bæ í Hrútafirði, Ingibjörg átti síra Stefán Þorvaldsson í Stafholti, Guðrún, s.k. síra Sveins Níelssonar á Staðastað, síra Jón í Steinnesi, síra Halldór að Hofi í Vopnafirði, Ólafur alþm. á Sveinsstöðum, Elísabet s.k. síra Böðvars Þorvaldssonar á Mel, Stefán á Barkarstöðum í Miðfirði, Þórunn átti síra Þórarinn Böðvarsson í Görðum á Álftanesi, Sigurbjörg átti síra Þorlák Stefánsson að Undirfelli. Heimild. PEÓl. Ísl. æviskrár. 

Nokkrar krækjur
Friðgeir í Hvammi/Bændaríma um 1850 http://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=2202
Andlát og útför Sigvalda á Skeggsstöðum, dagbók JT: http://stikill.123.is/blog/2009/01/19/341072/
Eitt ár – mannlýsingar höf. JI: http://stikill.123.is/blog/record/485013/
Bergsstaðir, Blöndudalshólar og Auðkúla, prestatal: http://stikill.123.is/blog/2010/05/16/454453/
JIllugason – Eitt ár/hluti: http://stikill.123.is/blog/2009/02/17/350800/
Síðustu Hólaprestar: http://stikill.123.is/blog/2014/07/16/siustu-holaprestar/  
Gagnfræðaskólinn á Möðruvöllum, hátíðaljóð DStef. þ.á.m. Undir skólans menntamerki: https://is.wikipedia.org/wiki/Gagnfr%C3%A6%C3%B0ask%C3%B3li_Nor%C3%B0urlands_(h%C3%A1t%C3%AD%C3%B0arlj%C3%B3%C3%B0)
Möðruvallaskóli: https://is.wikipedia.org/wiki/M%C3%B6%C3%B0ruvallask%C3%B3li 
Sr. Arnljótur Ólafsson: http://stikill.123.is/blog/record/425463/
Sr. Arnljótur: http://stikill.123.is/blog/2009/02/16/350514/
Jón Blöndal þm Skagfirðinga 1874-78: https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=296
Kvennaskólinn á Blönduósi 100 ár : https://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=9339
Mæðginin Sólveig og Sigurður í Selhaga: http://stikill.123.is/blog/2017/02/24/761266/
Vísur Sigurðar frá Selhaga: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=18178

Ingi Heiðmar Jónsson
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga