Bókarkápa fyrri bindis
Bókarkápa fyrri bindis
Pistlar | 29. apríl 2021 - kl. 09:13
Sögukorn: Að gera konur sýnilegar
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Í dag væri Valgerður kölluð ofurkona segir Hildur, höfundur bókanna tveggja um biskupsfrúrnar, en Valgerður Jónsdóttir varð kona Steingríms biskups, gáfumanns og systursonar Jóns eldklerks Steingrímssonar. Áður átti hún Hannes Finnsson biskup, giftist honum aðeins 18 ára gömul og missti hann eftir fremur skamma sambúð. En eftir átti hún fjögur börn, sitt á hverju árinu.

Valgerður varð eiginkona tveggja biskupa „hún beitir sér af miklum dugnaði í lífinu og vinnur sigra en bíður einnig ósigra. Hún er gerandi, en hefur samt í heiðri þær óskrifuðu reglur sem forverur hennar höfðu ætíð fylgt. Hún skipti sér ekki af embættisverkum eiginmanna sinna og sýnir vissa hæversku þegar kemur að trúmálum. Eftir hana liggur mikið af bréfum, nánar tiltekið 453 bréf til 146 einstaklinga, þar á meðal kóngsins í Kaupmannahöfn."

Þarna birtist síðasta biskupsfrúin sem veflistakonan og rithöfundurinn Auður Hildur Hákonardóttir er að skrifa um. Hún hefur tekið rösklega til í sagnfræðinni, skrifað tvær bækur um biskupsfrúr í Skálholti í lúterskum sið og segir í formála:„Við siðaskipti var biskupum og prestum gert að kvænast og hjónabandi Marteins Lúthers og nunnunnar Katrínar frá Bóra haldið á lofti sem verðugri fyrirmynd."

Höfundurinn spyr sig – og lesendur sína:

„Hvernig er best að leita upplýsinga? Ég forðaðist í upphafi að lesa nokkuð um eiginmenn kvennanna en mikið hefur verið um þá skrifað allflesta. Í staðinn reyndi ég að kynnast konunum sjálfum – las úr ártölum, skoðaði ættarsambönd, systkinasambönd, fæðingarsveitir, fylgdi eftir ábendingum, líka fáránlegum og gúgglaði frjálslega, renndi augunum yfir nafnalista fræðirita (sem bar lítinn árangur) og leitaði uppi útfararræður. Síðan skoðaði ég hvernig hjónabandi þeirra hefði verið komið á, hvort Espólín hefði gefið þeim lyndiseinkunn eða varðveist hefði frá þeim eitthvert tilsvar og svo fór lífshlaup þeirra smám saman að taka á sig mynd. Þá fyrst lét ég eftir mér að lesa það sem þurfti um sögu eiginmanna þeirra og við hófum þetta sérkennilega samtal. Það merkilegasta sem kom í ljós var hvernig ættum var haldið við völd. Biskupsættir ganga sjaldan í erfðir frá föður til sonar. Þó kemur það fyrir. En biskupsfrúrnar í Skálholti voru frá tímum Helgu Jónsdóttur sem kemur þangað laust fyrir aldamótin 1600 með tveimur undantekningum náfrænkur og færðist embættið ýmist til systurdóttur eða jafnvel til ömmusysturbarns og hélst þetta kerfi í meira en 200 ár í þröngum farvegi meðal afkomenda Björns og Ara, þeirra tveggja sona Jóns Arasonar, sem létu þar líf sitt."

Og höfundur heldur áfram:

„Hugmyndin var að gera þessar konur sýnilegar. Gefa þeim nöfn í sögunni og ekki síst að kanna hvort tilvist þeirra og gerðir hefðu haft áhrif á samfélagið. Ég fékk nánast samviskubit af því að skálda þótt það yrði óhjákvæmilegt stundum. Í slíkum tilfellum hjálpaði ég til svo að söguþráðurinn yrði ekki bláþráðarlegur með lýsingum af umhverfi eða ímynduðu hugarástandi. Karl Sigurbjörnsson biskup hvatti mig til verksins og var hjálplegur þegar kom að því að útskýra fyrir mér þann ramma guðfræðilegs skilnings sem líklegt var að konurnar hefðu lifað og hrærst í."

Hér er vitnað til fyrra bindis og Auður Hildur heldur áfram að lýsa vinnu sinni og rannsóknum:

„Við þessa vinnu hef ég verið knúin áfram af einhverju utanaðkomandi afli eins og konurnar eigi eitthvað ósagt því þær vekja mig gjarnan eldsnemma á morgnana og krefjast þess að ég haldi áfram að fletta í bókum og skrifi niður og þær neituðu mér  um tíma að sinna öðrum áhugamálum. Ég held þær hafi leitt þessa vinnu og þetta sterka samband okkar varð til þess að ég notaðist við samtalsformið því við vorum orðnar svo nánar."

Enn ein tenging er hve margar biskupsfrúrnar rekja ættir til síðasta kaþólska biskupsins, þess sem líflátinn var í Skálholti 7. nóv. 1550, Jóns Arasonar.

Í samtali Valgerðar og höfundar kemur upptalning af jarðeignum sem biskupsekkjan keypti þegar stólsjarðir voru seldar 1785-90 en það tal leiðist fljótt að kvenfatnaði, skrifum Magnús Stephensen þar um en síðan að kirkjusmíði í Skálholti sem kom í hlut ekkjunnar Valgerðar að standa fyrir, jarðeigandanum í Skálholti.

Steingrímur, seinni maður Valgerðar, fær Oddann og er þar prestur í 14 ár áður en hann verður biskup og þau Valgerður flytja í Laugarnesið, í veglegt steinhús en kalt. Hún var ekkja eftir seinni mann sinn í ellefu ár og þau hvíla bæði í Gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu.

Lokakafli seinni bókarinnar á sér frumlegt nafn og þar hittir höfundurinn sögupersónur sínar saman og rabbar við þær. Hittustan heitir lokakaflinn. Höfundur upplýsir:

„Áður en varir hafa þær leitt mig inn í heim siðareglna sem sumar eiga sér rætur í Gestaþætti Hávamála og aðrar í Rómaríki. Þeir sem eru gestkomandi skulu kunna sér hóf í öllum hlutum og sýna af sér kurteislega og ekki síður viturlega framkomu. Einkum er það hófsemi í drykkju sem haldið er að mönnum og varað við ofáti."

Fimmtíu ítalskar siðareglur, kenndar við Bonvivino da Riva sem uppi var á 13. öld koma nú til sögunnar og á næstu síðu endurgerð þessara sömu reglna.

Annan siðameistara nefnir bókarhöfundur til sögunnar, nl. Erasmus, húmanistann hollenska sem átti í ritdeilu við Lúter: Erasmus skrifar:

„Eins og þú þværð hendur þínar (fyrir máltíð) þá skalt þú hreinsa öll vandræði úr huga þínum. Það er ekki góður siður að vera skapúfinn við matarborðið og láta öllum hinum líða illa. Hann bætir því við að góðir siðir séu það sem aðgreinir menn frá skepnum og ruddamennum og það sé til skammar ef framkoma og siðferði þeirra sem fæddir eru til forréttinda er ekki í samræmi við þjóðfélagsstöðu þeirra."

Í höfundi tengjast saman ólíkir landshlutar, móðir hennar prestsdóttir frá Skútustöðum en faðir hennar vel látinn og þekktur lögmaður, fæddur og alinn upp á Suðurlandi. Sjálf er hún að tengja við samtíma okkar lítt þekktar konur frá hinum erfiðustu öldum sögunnar, frá harðinda-, hafíss- og eldgosaárum.

Að gefa sögukonum sínum mál er galdur sögumanns, penni hennar finnur leið um víðáttumikil völundarhús og skilar til lesenda merkisbókum sem bækurnar Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú? eru.

Meira efni:
Skáld.is: https://www.skald.is/single-post/2020/07/25/-eins-og-huldukonur-%C3%AD-s%C3%B6gu-%C3%BEj%C3%B3%C3%B0arinnar-hildur-h%C3%A1konard%C3%B3ttir-segir-fr%C3%A1-biskupsfr%C3%BAm-fyrri
Biskupatal frá 1800: https://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_biskupa_%C3%8Dslands
Skálholtsbiskupar: https://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_Sk%C3%A1lholtsbiskupa#%C3%8D_l%C3%BAtherskum_si%C3%B0
Erasmus frá Rotterdam: https://da.wikipedia.org/wiki/Erasmus_af_Rotterdam
Kynning útgáfunnar: https://www.forlagid.is/vara/hvad-er-svona-merkilegt-vid-tad-ad-vera-biskupsfru/

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga