Pistlar | 02. maí 2021 - kl. 10:22
Sameining eða ekki í A-Hún.
Eftir Halldór G. Ólafsson

Þann fimmta júní næstkomandi gefst íbúum í Austur Húnavatnssýslu tækifæri til þess að taka afstöðu til hvort sameina beri öll sveitarfélögin í sýslunni í eina stjórnsýslueiningu. Undirbúningsvinna hefur staðið yfir lengi og því mikið magn upplýsinga á www.hunvetningur.is sem kjósendur geta kynnt sér áður en kosning fer fram. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þau gögn sem lögð hafa verið fram er tilraun til þess að meta núverandi stöðu og draga upp framtíðarsýn um hvernig hlutir gætu hugsanlega orðið í nýju sveitarfélagi. Margt sem sett hefur verið fram hefur ekki verið kostnaðarmetið og verður að skoðast í því ljósi. Ef sameining verður samþykkt verður það í höndum nýrrar sveitarstjórnar að ákveða hvernig rekstri hins nýja sveitarfélags verður háttað innan þess ramma sem ríkisvaldið setur sveitarfélögum í landinu. Ný sveitarstjórn er því á engan hátt bundin af því sem sett hefur verið fram þó svo að flestum þætti eðlilegt að hafa þau gögn til hliðsjónar. Fjárhagur hins nýja sveitarfélags mun þarna hafa afgerandi áhrif.

Eitt sem er mikilvægt að hafa í huga er að öll sveitarfélögin hafa ákveðið að aftengja svokallaða 2/3- 2/3 reglu sveitarstjórnarlaga. Það þýðir í raun að þessar kosningar munu einungis taka á sameiningu allrar A-Hún. Verði kosning felld í einhverju sveitarfélaganna þurfa að eiga sér stað nýjar viðræður milli einstaka sveitarfélaga sem kynnu að vilja sameinast engu að síður. Vinnan sem hefur farið fram nýtist að sjálfsögðu í slíku tilliti og beinast myndi liggja við að hafa aðrar kosningar í tengslum við alþingskosningar nú í haust ef vilji verður til þess .

Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að kjarni þessara viðræðna eigi að snúast um atvinnumál með það fyrir augum að fjölga íbúum sýslunnar. Landshlutinn hefur á engan hátt náð að bregðast við breyttum atvinnuháttum í landbúnaði og sjávarútvegi og fátt hefur snúist okkur í hag þó margir áhugaverðir sprotar séu til staðar. Laxeldi er t.d. óheimilt í Húnaflóa og orkunýting á svæðinu hefur ekki skilað nægilega mörgum störfum til að skapa alvöru viðspyrnu. Sameining sveitarfélaga má að sjálfsögðu ekki ýta undir brottflutning af svæðinu. Áform um breytingar á skólastarfi á Húnavöllum og Blönduósi mega ekki leiða til fækkunar starfa í sýslunni. Aðkoma stjórnvalda mun hér skipta höfuðmáli.

Undanfarnar vikur hafa átt sér stað viðræður við alla þingflokka á Alþingi þar sem áherslur landshlutans í atvinnu- samgöngu og byggðamálum hafa verið lagðar fram. Að sjálfsögðu hefur vel ígrunduðum hugmyndum okkar verið vel tekið en enn er ekkert fast í hendi að hálfu ríkisins. Frekari eftirfylgni mun fara fram á næstu vikum.  

Veirufaraldur hefur komið í veg fyrir að hægt hafi verið að halda hefðbundna kynningarfundi í tengslum við sameiningarviðræðurnar. Vonir eru bundnar við að hægt verði að framkvæma slíkt uppúr miðjum maí og í byrjun júní. Hvet ég íbúa sýslunnar að taka virkan þátt í kynningarstarfinu og mynda sér vel ígrundaða skoðun á málinu. Einnig er afar mikilvægt að fólk nýti kosningarétt sinn og mæti á kjörstað þann fimmta júní næstkomandi.

Á kjördegi þarf kjósendum að vera fullkomlega ljóst hvort hugsanleg sameining hafi í för með sér aukna velsæld og að hún færi þeim og byggðarlögunum þar sem þeir búa nýja framtíðasýn til sóknar.

Halldór G. Ólafsson
Oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga