Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Þriðjudagur, 19. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 05:17 0 0°C
Laxárdalsh. 05:17 0 0°C
Vatnsskarð 05:17 0 0°C
Þverárfjall 05:17 0 0°C
Kjalarnes 05:17 0 0°C
Hafnarfjall 05:17 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Bjarna Jónsson
17. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
15. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
11. mars 2024
70. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Pistlar | 10. maí 2021 - kl. 16:19
Í framboði fyrir Samfylkinguna
Eftir Jónínu Björgu Magnúsdóttur

Kæru Húnvetningar. Ég heiti Jónína Björg Magnúsdóttir, 55 ára og er í 2.sæti á lista Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi til Alþingiskosninga sem fara fram 25.sept. 2021. Mig langar til að kynna sjálfa mig í kjördæminu og fyrir hvaða skoðanir og lífsgildi ég stend en fyrst ber að kynna hverra manna ég er.

Þegar ég er spurð hvaðan ég sé þá hef ég alltaf sagt að ég sé fædd og uppalin á Akranesi EN að móðurættin mín sé af Vestfjörðum og föðurættin af Austfjörðum. Faðir minn hét Magnús Sigurjón Guðmundsson og var frá Hrauni á Reyðarfirði en móðir mín hét Sigurbjörg Oddsdóttir og var fædd á Flateyri og ólst þar upp fyrstu árin en síðan á Álfadal á Ingjaldssandi og er meðal annars systir Benna Odds bílstjóra frá Flateyri og Jóns Oddssonar refaskyttu og Bjarts málara. Ég er yngst 10 systkina en 9 komust á legg. Í svona stórum hópi þarf maður að hafa fyrir því að láta í sér heyra. Ég man fyrst eftir því að það hafi borið árangur að rífa kjaft þegar ég var sirka 5 ára. Þá höfðu bræðurnir verið að horfa á enska boltann og barnaefnið var byrjað. Við yngri fengum ekki frið til að horfa á okkar efni en þegar enski boltinn var þá fengum við ekki að segja orð. Ég yngsta krílið stóð þá upp og gaf þeim rökstudda yfirhalningu sem bar samstundis árangur. Bræðurnir hlógu en stóðu upp og fóru út úr stofunni.

Á æskuheimili mínu var tónlist í heiðri höfð. Pabbi söng í kórum og spilaði á orgel, nikku og melódiku og sög og kenndi okkur systkinum að það er margt tónlist þó ekki komi hún frá hefðbundnum hljóðfærum. Mamma var ekki sérlega lagviss en elskaði að dansa og oft tók pabbi upp nikkuna á sunnudagskvöldum og mamma dansaði við okkur í eldhúsinu eins og hún hafði alist upp við að amma Villa gerði í stofunni á Álfadal. Ég er ekki sérlega góður dansari en lét þó syni mína ekki fá vasapening nema þeir væru búnir að dansa nokkra hringi af „kassa-vals“ við mig.

Sambýlingur minn til 39 ára er Guðmundur Sigurðsson hljóðfæra-, húsa- og eldsmiður. Hans ættir eru að mestu frá Suðurlandsundirlendinu en hann ólst á sumrin upp á Dröngum á sumrin, stjúpsonur Sveins Kristinssonar og er þar oft nefndur Gummi Gunnvarar en tengdamamma hét Gunnvör Björnsdóttir. Þau ár lögðu að miklu leyti til hans handverksgrunn og að kunna til verka en af Dranga bræðrum hefur hann m.a. lært grjót og torfhleðslu. Við Gummi eigum 3 börn, tvíburana Sigurð og Magnús fædda 1986 og dótturina Steinunni Ingu fædd í Svíþjóð 1993. Barnabörnin eru 10 og er ég mjög þakklát fyrir fjölskylduna mína. Ég er mikil barnakerling og líður aldrei betur en með eitt lítið á öxlinni og það er ekki vetur nema ég nái að búa til eins og einn snjókarl og renni mér að minnsta kosti eina ferð.

Frá æskuheimili mínu tók ég með mér út í lífið ríka réttlætiskennd, samkennd með fólki og þá sérlega þeim sem að minna mega sín í lífinu. Ég er þeim ósköpum búin að geta illa þagað þegar óréttlæti á sér stað og tek þá til máls og er þá nokkuð sama við hvern ég hef að etja eða fyrir hvern ég er að opna munninn. Ekkert starf tel ég vera fyrir neðan virðingu mína að vinna og ég hef víðtæka starfsreynslu. Mest hef ég þó unnið umönnunarstörf með fötluðum og sem stuðningsfulltrúi í grunnskólum Akraneskaupstaðar. Ég tel það heldur ekki fyrir neðan virðingu mína að hlusta á alla óháð aldri eða uppruna og læra af þeirra orðum og hugsun. Allir hafa eitthvað til málanna að leggja og við öðlumst ekki virðingu náungans nema að veita öðrum virðingu. Ég er ekki merkilegri en nokkur annar og enginn eitthvað merkilegri en ég.

Vorið 1988 tók ég stúdentinn frá Fjölbrautaskóla Akraness og hélt svo til Svíþjóðar með fjölskylduna. Fyrst áttum við heima í Stokkhólmi 1 ½ ár þar sem að ég nam málvísindi og ensku en fluttumst svo til Umeå í norður Svíþjóð þar sem að við áttum heima í  6 ½ ár og ég hélt áfram enskunáminu og vann á sambýlum fyrir fjölfatlaða. Af náminu er það að frétta að ég á enn eftir lokaritgerð til BA prófs en við fluttum heim til Íslands 1996

Eftir heimkomuna tók við mikil vinna til að eiga í sig og á og get ég ekki sagt að þau störf hafi verið hálaunuð. Haustið 2010 hóf ég vinnu í frystihúsinu HB-Granda á Akranesi og vann þar þangað til að þeir lögðu niður sína bolfiskvinnslu haustið 2017. Á þeim árum voru miklar tæknibreytingar og hagræðingar sem fólkið á gólfinu tók á sig möglunarlaust. Við tilkomu vatnsskurðarvélarinnar,  sem skannaði flakið og skar út beinagarðinn með vatnssprautu, jukust afköst fyrirtækisins. Sú vél kallaði á meiri mannafla því að allt að helmingi meira fór í gegnum húsið dag hvern. En hver voru launin fyrir að leggja á sig að vinna helmingi meiri afla í húsnæði sem var jafnstórt og áður? Vélasalurinn var ekki stærri og lyftaramaðurinn eins og útspýtt hundskinn að sinna öllu sínu, fólkið í pökkuninni og konurnar á línunni sömuleiðis. Allir lögðust á eitt. Launin verkafólksins var íspinni! Þá gerði ég íspinnalagið fræga Sveiattan, sem fékk 10 þúsund áhorf á netinu fyrsta sólarhringinn. Á 3 vikum fengum við bónusinn hækkaðan, eitthvað sem hafði tekið trúnaðarmenn 3 ár að reyna að fá úrbætur á. Ég veit því að ég get breytt kjörum fólks með því að berjast fyrir málefninu.

Frá haustinu 2017 hefur margt rekið á mínar fjörur. Fyrir utan að hafa kynnst atvinnuleysi þá hef ég samt aldrei verið atvinnulaus í langan tíma. Ég hef unnið sem stuðningsfulltrúi í Brekkubæjarskóla á Akranesi en einnig bætt við mig námslega með stuttum námskeiðum. Ég fór til dæmis í Leiktækniskóla Magnúsar Jónssonar og Þorsteins Bachmann (grunn og framhaldsnámskeið) sem hefur hjálpað mér mikið í leik og starfi og þá sérlega við söng í erfiðum aðstæðum eins og jarðarförum.

Öðru námi hef ég líka sinnt vel og það er að bæta við þekkingu mína í þjálfun en ég er keiluþjálfari hjá Keilufélagi Akraness og hef verið aðstoðarmaður landsliðsþjálfara í verkefnum Unglingalandsliðsins í keilu, síðast í Qatar í febrúar 2020. Ég er með 3.stig af þremur í þjálfun frá ÍSÍ og 2.stig af 3 hjá ETBF (Evrópska Keilusambandinu) og hef þjálfað keilu hjá Keilufélagi Akraness í hartnær 20 ár en við hjónin rekum 3 brauta keilusal á Akranesi, í kjallaranum á Íþróttahúsinu við Vesturgötu.

Afskipti mín af stjórnmálum hófust í kringum tvítugt og þá sem fulltrúi Alþýðubandalagsins í Æskulýðsnefnd Akraneskaupstaðar. Alþýðubandalagið var skemmtilegur flokkur með sterkar skoðanir og líka mikla tónlist og söng á fundum félagsins, tónlistin náði mér enda er hægt að segja mikið með söngtextum. Samfylkingin er samruni nokkurra flokka. Það segir mér að þar rúmist ýmsar skoðanir og ekki getum við öll verið eða þurfum að vera sammála alltaf. Hins vegar erum við í góðum málum þar sem að grunngildin um jöfnuð eru í hávegum höfð því það samræmist mínum skoðunum og gildum. Stundum vildi ég óska að minn flokkur væri meira afgerandi en með minni þátttöku í flokknum og starfi hans get ég bætt þar úr.  Ég vil bæta kjör þeirra sem að minnstu launin hafa og finnst skipta máli að sinna erlenda verkafólkinu okkar og passa uppá þeirra réttindi og bæta þeirra aðbúnað. Íslenskukennsla og móðurmálskennsla fyrir börn af erlendum uppruna er mikið áhugamál hjá mér og mun ég beita mér fyrir því.

Í komandi kosningum get ég ekki ætlast til að fólk kjósi mig ef að það þekkir mig ekki eða hefur ekki séð mig svo að sumrinu ætla ég að eyða í að kynna mér kjördæmið og kjósendur þess. Ég elska að tala og ég elska kaffi og ef að þú býður mér ekki kaffi get ég kannski boðið þér sopa af minni uppáhellingu. Hlakka til að sjá ykkur sem flest og fá að syngja fyrir sem flesta annaðhvort með gítarinn í hönd, bara ég sjálf eða með fleiri mér við hlið.

Eigið góðar stundir
Ykkar einlæg
Nína

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið