Axlaröxl. Mynd: HAH/Sigurh E. Vignir
Axlaröxl. Mynd: HAH/Sigurh E. Vignir
Pistlar | 16. maí 2021 - kl. 14:18
Þættir úr sögu sveitar: Auðurinn á Stóru-Giljá
2. þáttur. Eftir Jón Torfason

Á Stóru-Giljá hafði búið frá 1752 Jón Arnbjörnsson, auðmaður mikill. Móðir hans hét Kristín Jónsdóttir Þorleifssonar og lagðist til þessara ættmenna brot af arfi afabróður Jóns Arnbjörnssonar, Guðmundar ríka Þorleifssonar á Narfeyri sem var einn mesti auðmaður á Vesturlandi um sína daga. Í þjóðsögum er talað um hrafnager við kirkjuna jarðarfarardag Guðmundar ríka og segir í þeim að kistan hafi orðið fislétt þegar hún var borin inn um sáluhliðið,  þótti hvort tveggja ógnvænlegur fyrirboði um sáluheill auðkýfingsins eftir dauðann.

Arnbjörn faðir Jóns var prestur á Undirfelli alla sína starfstíð og sömuleiðis eldri bróðir hans, sem hét líka Jón, en sá dó 1742, og átti ekki afkomendur, þannig að arfur eftir hann féll í skaut systkina hans. Eldri systir Jóns á Stóru-Giljá hét Þórdís og giftist vildarklerki, séra Eiríki Hallssyni í Grímstungu. Sonur þeirra varð hinn alþekki Einar Eiríksson prestur í Grímstungu sem var á endanum dæmdur frá prestsskap fyrir margvíslega vanhæfni.

Stuttlega er sagt frá Jóni Arnbjörnssyni í Húnvetninga sögu: „Jón var fjárgæslumaður mikill og fégjarn og þó nokkuð svakafenginn. Voru mörg orðtök höfð eftir honum. Sagði hann svo sjálfur að eigi hefði hann mátt prestur verða fyrir ágirnd og hvorki átti hann konu né börn.“ Og haft er eftir honum, eftir að sagt hefur verið frá afdrifum Reynistaðarbræðra og félaga þeirra á Kili 1780, þegar fimm menn fórust: „Og er hann spurði Staðarmenn úti orðna sagði hann: „Ojá, maður“ ─ það var orðtak hans ─ „skaðinn var mikill, maður, að mönnum en peningatjónið, maður. Það var óbætanlegt.“[1]

Með Jóni bjó yngri systir hans Valgerður Arnbjörnsdóttir. Hún hafði lagt hug á mann, Tómas Tómasson að nafni. Þeim var meinað að eigast, því mannamunur þótti mikill, en þau áttu þó einn son saman, Árna Tómason, sá var settur til skólalærdóms og varð prestur á Bægisá ytri á Þelamörk. Jón Arnbjörnsson ríki var ókvæntur og þegar hann lést 1785 erfði Valgerður hann. Hún dó svo þremur árum síðar og þá stóð Árni sonur hennar til arfs eftir hana en hann drukknaði sama sumar og móðir hans lést, 1788, þannig að synir hans tveir, Jón og Arnbjörn, erfðu ömmu sína. Arfurinn, sem þeir bræður skipti milli sín, nam tæpum 2000 ríkisdölum sem var dágóð summa. Þar með er hins vegar allt talið, föt og búsáhöld og kvikfé, en mest verðmæti voru fólgin í jörðunum. Í dánarbúi Valgerðar voru 15 jarðir og jarðarpartar sem samanlagt voru 232 #[2] og 100 álnir að auki. Jarðaleigan, landskuldin, var ár hvert tæp 8 hundruð sem þýðir að þriðja hvert ár væri hægt að kaupa meðaljörð (24 #) til viðbótar fyrir leigutekjurnar.

Á þessum jörðum voru samtals 16 ½ leigukúgildi sem mundi samsvara 99 mylkum ám. Í kúgildi var ein kýr eða sex ær loðnar og lembdar. Kúgildaleigurnar voru ekki síður arðbærar en jarðar afgjöldin og námu svipaðri upphæð og landskuldin.

Að öðru óbreyttu mátti gera ráð fyrir að sá sem keypti jörð, og gæti lagt út fyrir verðinu af eigin aflafé, hefði náð jarðarverðinu aftur á 8-10 árum með kúgildaleigum og landskuldinni, þannig að kaup á jörðum var arðvænleg fjárfesting. Þess vegna er hér á eftir talsverðri athygli beint að jarðeignunum.

Þeir bræður Jón og Arnbjörn Árnasynir erfðu Valgerði ömmu sína sem fyrr sagði. Jón fékk í sinn hlut Stóru-Giljá og Beinakeldu 40 #, hálfa Litlu-Giljá 5 #, hálft Móberg 20 #, Grafarkot 20 #, hálft Óskot 5 #, Skeggjastaðir 10 #, í Barkarstöðum í Miðfirði 17 #, 50 álnir og að auki 2 kúgildi á Másstöðum.

Í hlut Arnbjarnar kom Stóri-Ós í Miðfirði 20 #, hálft Óskot 5 #, hálfir Oddsstaðir 8 #, hálf Litla-Giljá 5 #, Grundarkot 10 # og hálft Móberg 20 #. Einnig Saurar 10 #, Kálfshamar 10 #, í Ósi 1 #, 100 álnir og loks í Barkarstöðum 7 #, 70 álnir. Samanlagt jarðagóss hvors þeirra bræðra nam 107 hundruðum og 50 álnum. Til viðbótar skiptu þeir á milli sín hátt í 500 rd. í reiðufé og síðan voru búsmunir og klæðnaður og sitthvað fleira. Jón var 14 ára þegar Valgerður dó, fæddur 1774, en Arnbjörn tveimur árum yngri, fæddur 1776.

Eitthvað tálgaðist af þessu jarðagóssi á næsta áratug, t.d. hafa Bergsstaðir og Móberg verið seld árið 1801, en eftir sem áður hafa bræðurnir verið stórefnamenn.

Kona séra Árna Tómassonar hét Helga Jónsdóttir og fór með forræði sona sinna. Hún var af grónum prestaættum af Norðurlandi og var Jón faðir hennar prestur á Myrká í Hörgárdal fram um miðja 18. öldina. Vorið 1789 flutti hún að norðan, settist að á Stóru-Giljá og átti þar heima til dauðadags 28. janúar árið 1800. Heimilisfólk á Stóru-Giljá var annars þetta árið 1790:

Helga Jónsdóttir, prestsekkja, 54. Læs.
Jón Árnason, hennar sonur, 15. Læs.
Arnbjörn Árnason, hennar sonur, 13. Læs.
Þorsteinn Magnússon, vinnumaður, 27. Læs.
Illugi Þorvarðsson, vinnumaður, 29. Læs.
Jón Illugason, vinnumaður, 19. Læs.
Guðmundur Pétursson, léttadrengur, 15. Læs.
Gróa Tómasdóttir, náungi, 45. Læs.
Helga Helgadóttir, vinnukona, 20. Læs.
Þórunn Jónsdóttir, vinnukona, 36. Læs.
Guðrún Einarsdóttir, brauðbítur, 66. Læs.
Þorbjörg Þórarinsdóttir, tekin, 4. Ólæs.
Þorsteinn Benediktsson, húsmaður, 47. Læs.
Ragnhildur Sigurðardóttir, hans kona, 49. Læs.

Helga Jónsdóttir er talin fyrir búinu næstu árin en 1795 kvæntist Jón sonur hennar og tók við búsforráðum að einhverju leyti. Kona hans hét Helga Sveinsdóttir Halldórssonar, bóndadóttir frá Bægisá syðri í Öxnadal. Sveinn Halldórsson var þá löngu látinn en ekkja hans og móðir Helgu, Þuríður Skúladóttir, hafði gifst aftur Marteini nokkrum Guðmundssyni, sem var mestur bóndi í Myrkársókn á sínum tíma og dugnaðarforkur hinn mesti.[3] Fluttu þau hjón vestur í Húnaþing með Helgu og áttu síðan heimili á Stóru-Giljá og Beinakeldu og raunar víðar hér um slóðir.

Þau Jón Árnason og Helga Sveinsdóttir eignuðust þrjú börn, Árna f. 15. ágúst 1796, Þuríði, f. 25. september 1797 og Jón yngra f. 18. janúar 1799, eftir lát föður síns, en Jón Árnason lést 31. ágúst 1798 úr „forstíflun,“ sem var einhver innvortis sjúkdómur.

Nú skiptust eigur Jóns í fjóra staði, Helga ekkjan, fékk helminginn en hitt skiptist milli barnanna, þannig að Árni Jónsson fékk 15 # í Stóru-Giljá, hálfa Skeggjastaði, 5#, og hálfa Litlu-Giljá 5#. Jón bróðir hans fékk hálfa Stóru-Giljá, hálfa Skeggjastaði og hálft Óskot, 5#. Þuríður systir þeirra fékk Beinakeldu 10 # enda fengu konur aðeins hálfan arf móts við bræður sína og gilti sú regla fram um miðja nítjándu öld.[4] Helga móðir þeirra fékk Bægisárjarðirnar í sinn hlut, hún átti 20 # í Syðri-Bægisá og 10 # í Ytri-Bægisá. Að auki var í dánarbúinu talsvert lausafé,  skepnur og ýmsir bús- og heimilismunir.[5]

Helga Sveinsdóttir, ekkja Jóns Árnasonar, giftist fáum árum síðar Ólafi Tómassyni, sem var ættaður að norðan eins og hún. Þau bjuggu fáein ár á Stóru-Giljá, síðan fjögur ár á Þingeyrum en þá gerðist Ólafur prestur í Blöndudalshólum og áttu þau þar heima til dauðadags, dóu með fárra daga millibili haustið 1834. Sennilega hafa efni gengið af þeim hjónum í harðindakaflanum í upphafi 19. aldar því þau seldu smám saman flestar jarðeignir sínar.

Árni sonur Jóns og Helgu Sveinsdóttur varð bóndi á Múla í Línakradal en Jón Jónsson bjó á Stóru-Giljá alla tíð og átti hana, eða að minnsta kosti stóran hluta jarðarinnar. Meðal barna hans var Benedikt á Skinnastöðum langafi Grétu á Húnsstöðum og þeirra systkina og Jón í Öxl í Þingi.

Þuríður, systirin, giftist Guðmundi Guðmundssyni Sigurðssonar á Móbergi og eiga þau afkomendur víða í sýslunni. E.t.v. hefur hún fengið einhvern hluta Móbergs eftir föður sinn, en þó virðist hún ekki eiga neitt í þeirri jörð skv. jarðamati frá 1804.

Arnbjörn, yngri bróðir Jóns Árnasonar, var á Stóru-Giljá um árabil, bjó síðar á Akri nokkur ár en flutti árið 1815 vestur í Miðfjörð og bjó á eignarjörð sinni, Stóra-Ósi, til dauðadags 1835. Hann fékk „góða giftingu,“ sem svo má kalla, því kona hans var Sigurlaug Bjarnadóttir, dóttir Guðrúnar Skúladóttur á Torfalæk, sem síðar verður minnst á, og fékk hann með henni 20 # í Torfalæk, þ.e. hálfa jörðina. Þegar dánarbú Arnbjarnar var gert upp deildust jarðeignirnar hins vegar milli margra barna hans.[6]

Það kemur fram í Íslenskum æviskrám að Arnbjörn hafi verið í Hólaskóla og síðar heimaskóla hjá séra Jóni Konráðssyni í Glaumbæ, þekktum lærdómsklerki, hafi útskrifaðast vorið 1799, og fær þessa umsögn í æviskránum: „Hann var talinn mjög tornæmur en búmaður góður“[7] og hafa búhyggindin sjálfsagt komið honum betur en latínulærdómurinn.

Sigurlaug kona Arnbjarnar var Bjarnadóttir Jónssonar, sem var launsonur Jóns Árnasonar Hólaráðsmanns, sem svo var nefndur, og þar með hálfbróðir séra Björns í Bólstaðarhlíð en miklar ættir eru komnar frá dætrum séra Björns sem kunnugt er. Sigurlaug mun fædd í lausaleik, en þegar Guðrún móðir hennar giftist Erlendi Guðmundssyni á Torfalæk hefur hagur þeirra beggja vænkað og þær komist í álnir.

Nú á dögum finnst manni sérkennileg sú athugasemd í kirkjubókinni, að þegar þau Arnbjörn og Sigurlaug voru gefin saman, væntanlega í stóru timburkirkjunni sem enn hékk uppi á Þingeyrum, var kallað í prófastinn, séra Jónas á Höskuldsstöðum (sem er reyndar langa-langa-langa-afi minn) til að vígja þau saman „þar brúðguminn er geistlegur stúdent.“ Það var nefnilega borin virðing fyrir lærdómi á þeim dögum, þótt sá lærdómur hafi e.t.v. verið harðsóttur.


[1] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 317.
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/3, örk 395. Dánarbú 1787-1795. Þetta tákn „#“ merkir hér „hundrað.“ Í hverju hundraði voru 120 álnir. Jarðir sem töldust 10 hundruð máttu heita kot, 20-30 hundraða jarðir voru meðaljarðir en 50-60 hundraða jarðir voru stórbýli.
[3] Sbr. Eiður Guðmundsson frá Þúfnavöllum: Mannfellirinn mikli. Ritsafn I, bls. 80.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/1, örk 1, bls. 227.
[5] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/4, örk 1, bl. 124.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/3, örk 2, bls. 51. Skiptabók 1834-1839, sbr. ED2/15, örk 23. Dánarbú 1835 og EC1/1, örk 5, bls. 229. Uppboðsbók 1831-1837.
[7] Íslenskar æviskrár I, bls. 22-23.

Þættir úr sögu sveitar
Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga