Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 30. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:42 0 0°C
Laxárdalsh. 01:42 0 0°C
Vatnsskarð 01:42 0 0°C
Þverárfjall 01:42 0 0°C
Kjalarnes 01:42 0 0°C
Hafnarfjall 01:42 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
17. maí 2024
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Axlaröxl. Mynd: HAH/Sigurh E. Vignir
Axlaröxl. Mynd: HAH/Sigurh E. Vignir
Pistlar | 30. maí 2021 - kl. 09:38
Þættir úr sögu sveitar: Brestasamt vinnufólk á Stóru-Giljá
3. þáttur. Eftir Jón Torfason

Á flestum bæjum í sveitinni bjó kjarnafjölskylda, stundum með vinnukonu og/eða vinnumanni, og e.t.v. einum niðursetningi. Stóra-Giljá var hins vegar höfuðból þar sem oft bjuggu tvær fjölskyldur og fjöldi vinnufólks og stundum húsfólk að auki. Hér skal hugað stuttlega að nokkrum úr hópi vinnufólksins 1790 sem talið var upp í síðasta þætti.

Þorsteinn Magnússon vinnumaður hafði verið á Stóru-Giljá frá 1786 og var það meðan Helga Jónsdóttir lifði. Bræður Þorsteins þessa voru m.a. Jón Magnússon á Sveinsstöðum, d. 1804, Þórður sterki á Sporði og Magnús Magnússon sem mun vera faðir Agnesar Magnúsdóttur. Kristín nokkur Grímsdóttir (1770-1851) kom sem vinnukona að Giljá 1794 og tókust náin kynni með þeim Þorsteini, kannski við heyskap í sumarblíðu niður á engjunum eða tóvinnu á vetrarkvöldum í baðstofunni. Hvernig sem því var varið gengu þau í hjónaband 19. ágúst 1799 og var ekki seinna vænna því frumburður þeirra, Guðmundur síðar bóndi á Hólabaki (d. 1848), fæddist tveimur dögum síðar, 21. sama mánaðar. Þorsteinn átti orðið nokkur efni til búskapar því hann tíundar 3 hundruð lausafjár 1799 og 4 hundruð árið eftir sem gefur til kynna að þá hafi hann átt bústofn sem samsvaraði 24 mylkum ám. Þessi nýju bóndahjón fikruðu sig nú fram eftir Sveinsstaðahreppi, bjuggu fyrst nokkur ár á Litlu-Giljá, þá í Brekku og loks Vatnsdalshólum þar sem Kristín bjó síðan til elli eftir lát Þorsteins. Þegar dánarbú[1] Þorsteins var gert upp haustið 1811 var talin fram ein kýr og kvíga, á fimmta tug áa og milli 15 og 20 sauðir, sem mátti teljast dágott bú.

Annar vinnumaður á Stóru-Giljá árið 1790 var Illugi Þorvarðsson, fæddur 1761 eða 1764, „svarti“ að auknefni. Hann er kominn að Stóru-Giljá 1784 og fær þá þessa umsögn í sóknarmannatali prestsins: „Læs. Flysjungur, þó skýr.“ Arnbjörnssystkinin virðast hafa haft nokkuð traust á honum því hann fer norður að Bægisá þegar séra Árni Tómasson deyr og kemur til baka með Helgu ekkju hans 1789, er þar þetta ár en verður bóndi á Litlu-Giljá næstu árin. Nú fær hann betri vitnisburði hjá prestinum, sagður „Þægur. Skýr.“ Kona hans hét Kristín Jónsdóttir og var dóttir hennar frá fyrra sambandi einmitt Kristín Grímsdóttir kona Þorsteins Magnússonar áður nefnds.

Heldur andar köldu til Illuga svarta í Húnvetninga sögu Gísla Konráðssonar sem segir hann hefði „verið nafnkenndur í Húnaþingi um drykkjuskap og áflog. Slarkaði hann oft undir Jökli vestra og átti þar í ryskingum. ... Kom svo að Illugi fékk flog drukkinn og er mælt að mest líktust ginklofa.“[2] Ef til vill hefur maðurinn verið flogaveikur og það átt þátt í hátterni hans. Hvað sem því líður virðist Illugi hafa verið í góðu sambandi við Stóru-Giljárfólkið.

Neðar á listanum um heimilismenn 1790 kemur Gróa Tómasdóttir, kölluð „náungi.“ Hún var hálfsystir Árna föður Jóns og Arnbjarnar og þannig mágkona Helgu Jónsdóttur, gömlu eða eldri húsfreyjunnar. Hún var komin að Stóru-Giljá einhverjum árum fyrr og átti heimili hér til dauðadags. Gróa giftist aldrei en það kom ekki í veg fyrir að hún ætti fjögur börn með fjórum mönnum, tvö hafa sennilega dáið ung, en hin börnin eru Jón Illugason, titlaður vinnumaður á Stóru-Giljá 1790, og Guðmundur Pétursson[3] líka á Stóru-Giljá, sagður „tekinn“ í húsvitjunarbókinni. Þessir piltar hafa alist upp á Giljá og eru fermdir í Þingeyrakirkju með ágætum vitnisburði, eru nokkur ár vinnumenn á Giljá en áttu síðar lengst af heima út á Skaga.

Gísli sagnaritari Konráðsson var talsvert gefinn fyrir að slúðra og kemur Jón Illugason lítillega við eina slíka sögu. Oddur Stefánsson (1741-1804), sem var umboðsmaður á Þingeyraklaustri um árabil, flutti sig að Stóru-Giljá árið 1803 en dó árið eftir, líklega úr holdsveiki. Gísli sagnaritari segir hann hafi „jafnan verið vel þokkaður og ljúflátur.“[4] Sennilega hefur hann komist í töluverðar fjárkröggur í hörmungum móðuharðindanna en virðist þó hafa liðsinnt sveitungum sínum og samferðamönnum eftir mætti. En Gísli segir að kona hans hafi verið „hrædd um bónda sinn fyrir konu þeirri er Þórunn hét Gísladóttir (1778-1812) norðan úr Fljótum. Var hún með þeim að Þingeyrum og hafði Oddur gift hana þeim manni er Jón hét Illugason. Höfðu þau búið að Hnausum um hríð. Gaf Oddur þeim til bús. Hafði og Jón verið húskarl hans.“[5]

Það er að minnsta kosti satt í þessu hjá Gísla að þau Jón og Þórunn voru gefin saman í Þingeyrakirkju 3. júlí 1798 með „stiftamtmanns leyfi af 11. maí“ en á undan fór „trúlofun og lýsingar af prédikunarstólnum,“ eins og segir í kirkjubókinni. Ekki virðist hafa verið kært með þeim hjónum því eftir tíu ára basl flutti Þórunn suður í Mosfellssveit þar sem hún lést 1812, en Jón gerðist vinnumaður út á Skaga og dó þar 1851. Kannski var þarna eitthvað á ferðinni sem hefði komið upp í „metoo-byltingunni,“ en kannski ekki.

Neðar á lista heimilismanna á Giljá 1790 eru svo Guðrún Einarsdóttir, sögð brauðbítur, þ.e. til framfæris, og Þórunn Jónsdóttir vinnukona, 36 ára og er óljóst hverra manna þær voru. Enn ein vinnukona var Helga Helgadóttir, f. 1772, og verður stuttlega getið í næsta þætti.

En stúlkubarnið sem er sögð „tekin“ í húsvitjunarskránni hét Þorbjörg Þórarinsdóttir, dóttir Þórarins Jónssonar (1755-1816) prests á Myrká og Möðruvöllum, skáld gott. Hann orti m.a. tíðavísur, afar merkileg kveðskapargrein, eins konar rímaðir annálar, og er margt af því lipurt hjá honum. Ein tækifærisvísa séra Þórarins lýsir gömlum og nýjum sannindum:

Auðnuslyngur einn þá hlær
annar grætur sáran,
þriðji hringa fold (þ.e. konu) sér fær,
fjórða stinga dauðans klær.

Þorbjörg var næstu tíu árin á Giljá og hefur væntanlega verið í einhvers konar „vildarfóstri“ því ekki kom hún þangað vegna fátæktar. Hún giftist síðar Kristjáni Þorsteinssyni sem var prestur á nokkrum stöðum í Eyjafirði, síðast á Völlum í Svarfaðardal, þar sem Þorbjörg dó 1846. Hún varð þannig formóðir merkra ættmenna sem kenna sig gjarna við Tjörn í Svarfaðardal.

Loks eru þetta ár á Stóru-Giljá Þorsteinn Benediktsson, húsmaður, 47 ára, og Ragnhildur Sigurðardóttir, hans kona, 49 ára, en hún var móðir Helgu Helgadóttur vinnukonu og verður sagt frá þeim í næsta þætti.


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/1, örk 3, bls. 69.
[2] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 438.
[3] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 317. Sbr. Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 358.
[4] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 439.
[5] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 439.

Þættir úr sögu sveitar
Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið