Pistlar | 04. júní 2021 - kl. 07:45
Hugleiðingar varðandi sameiningarviðræður í Austur-Húnavatnssýslu
Eftir Ragnhildi Haraldsdóttur, varaoddvita Húnavatnshrepps

Nú þegar styttist í kosningar þann 5. júní, eru nokkur atriði sem koma upp í hugann, þá sérstaklega eftir að hafa setið sem fulltrúi í samstarfsnefndinni og fylgst með íbúafundum sem fram hafa farið í sveitarfélögunum fjórum. Í þessari umræðu kom það sjónarmið fram að sveitarfélögin væru hvert og eitt vel í stakkbúin til þess að takast á við þær áskoranir sem að okkur sækja, þá langar mig að velta því hér upp. Af hverju hefur okkur þá ekki tekist betur upp með að snúa við neikvæðri íbúaþróun? fjölga atvinnutækifærum og bæta hér vegi? (ef vegi mætti sum staðar kalla).  

Hvernig eiga minni sveitarfélög að takast á við síauknar kröfur frá ríkisvaldinu þar sem oftar en ekki fylgir lítið fjármagn með og hvernig eiga sveitarfélögin að geta veitt sómasamlega þjónustu við íbúanna. Mín framtíðarsýn er að hér verði samfélag þar sem börnin mín og afkomendur þeirra vilji snúa aftur í að námi loknu þar sem við erum umhverfisvænt sveitarfélag, með nægum atvinnutækifærum, greiðfærar samgöngur, ásamt öflugu menningar, íþrótta- og tómstundastarfi.

Sveitarfélögin hafa átt í ágætri samvinnu sín á milli í gegnum byggðasamlög en í því samstarfi hefur líka risið upp ágreiningur og núningur, eins og víða annarstaðar þar sem byggðasamlög eru rekin. Er ekki komin tími til að leggja þau niður, hættum innbyrðis kíting, hættum að berja á hvort öðru og notum frekar orkuna í það að berja sameinuð á ríkisvaldinu til að krefjast alvöru aðgerða, svæðinu til heilla. Ég legg til að við merkjum við X við aukinn slagkraft, X við framfarir í atvinnu-byggða og samgöngumálum, X við umhverfisvænt sveitarfélag og að lokum, X við tillögu samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna Skagastrandar, Skagabyggðar, Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar.

Ragnhildur Haraldsdóttir, varaoddviti Húnavatnshrepps

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga