Pistlar | 08. júní 2021 - kl. 07:29
Bæn dagsins, alla daga
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Lifandi Guð!

Við biðjum þig um að vaka yfir okkur, fjölskyldu okkar og vinum. Viltu hjálpa okkur að halda friðinn, varðveita einingu og blessa viðleitni okkar til samstöðu og einingar, þótt við skemmtilega ólík að einhverju leiti kunnum að vera.

Blessaðu einnig samskipti okkar við alla samferðamenn og viltu miskunna þeim sem sæta ofbeldi eða kúgun, lifa við misnotkun og stöðugan ótta. Vak einnig yfir öllum þeim sem búa við stríðsógnir og stríðsátök hvar sem vera kann í veröldinni.

Skapa með okkur vilja til að reyna að gera betur, líta í eigin barm og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma á réttlæti og friði í nær umhverfi okkar sem og í heiminum öllum. Þar sem við mættum horfast í augu og taka tillit til þarfa hvert annars með því að lifa í kærleika og friði þar sem allir eru virtir til jafns og fái að njóta sín og sinna hæfileika, náunganum og umheiminum til blessunar, þér til dýrðar og þannig sjálfum sér til farsældar og heilla.

Við biðjum einnig fyrir þeim sem nýlega eða einhvern tíma hafa misst ástvin og þekkja því af eigin raun hvað það er að syrgja og sakna.

Biðjum einnig fyrir þeim sem orðið hafa fyrir hvers kyns vonbrigðum og eða hafa upplifað áföll og gengið í gegnum erfiða tíma.

Við biðjum svo ekki síður fyrir öllum þeim sem daglega ganga til sinna hversdagslegu verka og heyja þannig sína stöðugu lífsbaráttu. Já, öllum þeim sem elska lífið, þrá að höndla það, fá að halda í það og njóta þess.

Blessaðu okkur svo öllum þessar þráðu sumar vikur og allt sem fram undan er. Hjálpaðu okkur að gera okkar besta og standa saman í þínum anda sem bræður og systur svo allt fari eins farsællega og mögulegt er í öllum aðstæðum og áskorunum ævinnar göngu.

Njótum stundarinnar, alla ævi. Í Jesú nafni.

Verum móttækilegur jarðvegur og farvegur fyrir blessun Guðs

Guð vill fá að planta blessun sinni í garð okkar hvers og eins. Leyfum honum það og tökum á móti í auðmýkt og með þakklæti. Leyfum blessuninni svo að þroskast í garðinum okkar og dýpka. Vaxa síðan upp, dafna og njóta sín. Hugsum vel um garðinn okkar og höldum honum við. Vökvum hann og gleymum ekki að reita arfann. Látum blessunina ekki kafna í illgresi vegna hirðuleysis.

Frelsarinn okkar, Jesús Kristur, gefi ykkur öllum og andi á okkur sínum heilaga góða anda. Anda sem uppörvar, minnir okkur á og hvetur til góðra verka. Veitir sköpunarkraft, djörfung og Þor, styrk og gleði. Djúpa og varanlega von sem öllu breytir og fylgir varanleg hamingja og kærleikur, friður, réttlæti, sátt og líf.

Einlægar blessunaróskir með kærleiks- og friðarkveðju.
- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga