Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 19. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 22:13 0 0°C
Laxárdalsh. 22:13 0 0°C
Vatnsskarð 22:13 0 0°C
Þverárfjall 22:13 0 0°C
Kjalarnes 22:13 0 0°C
Hafnarfjall 22:13 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Axlaröxl. Mynd: HAH/Sigurh E. Vignir
Axlaröxl. Mynd: HAH/Sigurh E. Vignir
Pistlar | 12. júní 2021 - kl. 09:07
Þættir úr sögu sveitar: Sullaveikur bókbindari
4. þáttur. Eftir Jón Torfason

Önnur vinnukonan á Stóru-Giljá árið 1790 hét Helga Helgadóttir, f. 1772. Hún giftist síðar Hákoni nokkrum Þorsteinssyni og bjuggu þau á Hörghóli í Vesturhópi. Helga dó 1819 en Hákon lifði til 1847. Móðir Helgu var Ragnhildur Sigurðardóttir (1741-1816) og var líka búsett á Giljá þegar þetta var. Fyrri maður hennar og faðir Helgu hét Helgi Illugason, fæddur um 1740, d. 1775 eða 1776, og bjuggu þau á Reykjum á Reykjabraut þar til Helgi dó.

Síðari maður Ragnhildar hét Þorsteinn Benediktsson (1743-1797) og bjuggu þau á Reykjum fram yfir móðuharðindin, en þá hafa þau líklega flosnað upp. Til er skýrsla eftir séra Sæmund Oddsson í Steinnesi um fjárfellir í harðindunum og kemur fram í henni að vorið 1783 voru á Reykjum 6 kýr, 30 ær mjólkandi og 8 hross, sem er bú í góðu meðallagi, en vorið eftir,1784, voru allar skepnurnar dauðar nema 8 kindur.[1] Eftir tveggja ára búskap á Kálfshamri á Skaga voru þau nú komin að Stóru-Giljá, þar sem Þorsteinn taldist húsmaður 1790. Þau Þorsteinn og Ragnhildur áttu saman dóttur, Guðrúnu að nafni, fædd 1778. Hún hefur sennilega dáið ung, þótt nafn hennar finnist ekki í dánarregistrum, en hún er a.m.k. ekki í manntalinu 1801. Þau hjónin voru nú komin á sextugs aldur og heilsan farin að bila því Ragnhildur er stundum sögð „tekin,“ þ.e. hefur verið á framfæri húsbænda en ekki unnið fyrir sér nema þá að nokkru leyti. Hafa verður í huga að orðalag í húsvitjunarbókum presta um þá sem þurftu á framfæri að halda er ekki samræmt, þannig að „tekin(n)“ getur bæði þýtt að gefið er með viðkomandi úr hreppssjóði, hann fái styrk frá ættingjum eða að húsbændur á bænum annist framfæri hans, en orðið gefur til kynna, að viðkomandi getur ekki framfært sjálfan sig að öllu leyti.

Árið 1803 hafa Oddur Stefánsson, umboðsmaður Þingeyraklaustursjarða, og Ólafur Tómasson, sem þá var kvæntur Helgu Sveinsdóttur ekkju Jóns Árnasonar og áður er rakið, bústaðaskipti þannig að Oddur flytur að Stóru-Giljá en Ólafur með sitt fólk að Þingeyrum. Ragnhildur Sigurðardóttir, sem þá var orðin ekkja, fer með þeim. Árið 1804 er hún kölluð „fóstra“ og raunar heitir eitt barn Ólafs og Helgu Sveinsdóttur Ragnhildur, hefur væntanlega verið skírð í höfuðið á þessari fóstru sinni. Árið 1805 fær Ragnhildur beinlínis titilinn „barnfóstra“ í sóknarmannatalinu. Um næstu ár vantar heimildir en sennilega fer Ragnhildur til Helgu dóttur sinnar á Hörghóli upp úr þessu og þar dó hún 5. júlí 1816 eins og nefnt var hér í upphafi.

En víkjum að Þorsteini Benediktssyni. Hann er til heimilis á Stóru-Giljá til dauðadags 23. mars 1797, ýmist titlaður lausamaður eða húsmaður. Hann hafði legið lengi veikur áður en hann lést. Banahríðin hefur verið hörð því í prestsþjónustubók segir um dánarmeinið: „Gulusótt. Lifrin gekk upp í stykkjum.“ Mjög líklega hefur hann þjáðst af sullaveiki sem þjakaði marga á þessum árum. Sullirnir grófu oft um sig í lifrinni og eyðilögðu hana smám saman sem leiddi til þess að menn fengu gulan húðlit. Telja má nokkuð öruggt að gulusótt í dánarregistrum kirkjubóka sé vitnisburður um sullaveiki. Ekki hefur þó lifrin sjálf gengið upp úr manninum í hóstakviðunum, heldur hefur sullur í lungunum sprungið og maðurinn því kastað upp blóði og sullaveikilifrum. Hvað sem um það hefur verið þá dó Þorsteinn síðla vetrar 1797.

Skemmst er frá því að segja að dánarbú[2] Þorsteins var í rauninni þrotabú því þegar allar eignirnar höfðu verið seldar og skuldir greiddar fékk ekkjan í sinn hlut um tvo og hálfan ríkisdal sem samsvaraði nokkurn veginn verðgildi tveggja kinda.

Í dánarbúinu var slangur af fatnaði, þar á meðal blá peysa með 24 silfurhnöppum og var hún metin á 4 rd., 64 sk., verðmætið einkum fólgið í silfrinu í hnöppunum. Ekki er mikið um eiginlega búsmuni en hins vegar taldar fram tvær kistur, hnakkur og smávegis af verkfærum, naglbítur og steðji, talsvert af sauðaskinni og loks bókbands töj, þ.e. bókbands áhöld, metin á 1 ríkisdal. Það kemur nefnilega á daginn að Þorsteinn fékkst við bókband og hefur sennilega líka stundað ýmis konar fínlegar smíðar fyrir nágranna sína.

Það er svolítið einkennilegt að Þorsteinn hafi ekki haft kindur sínar í fóðri á Stóru-Giljá, því hann á tvær kindur á Orrastöðum, eina á Hæli og eina á Hrafnabjörgum og að auki einn tveggja vetra sauð í Meðalheimi. Hugsanlega hafa menn greitt fyrir smíðar hans með kindafóðri. Þegar Þorsteinn dó átti hann líka gamlan hest, bleikan „fyrir sunnan“ sem hann hafði sent suður með smjör haustið áður, hefur sennilega ætlað að skipta á því og fiski. Einnig eru óljósar heimildir um að hann hafi átt bát „fyrir sunnan“ að öllu eða nokkru leyti en hann virðist ekki koma til skiptanna. Það kemur líka fram að Ólafur Sveinsson í Finnstungu hefur smíðað líkkistu fyrir Þorstein sem kostaði með flutningi 3 ríkisdali.

Ýmislegt fleira er forvitnilegt í dánarbúsreikningunum. M.a. hefur Ragnhildur, ekkja Þorsteins, lagt inn í verslun á Hofsósi 5 pund af hespuverki, 14 pör sokka og 11 pör vettlinga, samanlagt að verðgildi 3 rd., 17 sk. Á móti tekur hún út smávegis af rúgi og baunum, 3 pund af skonroki og 9 potta af brennivíni fyrir 2 rd., 60 skildinga svo trúlega hefur verið skálað í erfidrykkjunni eftir Þorstein.

Þarna er líka reikningur frá Pétri Péturssyni í Brekku upp á 68 skildinga fyrir mjólk sem Pétur hafði fært Þorsteini í banalegunni, þannig að margt smálegt var tínt til. En eftirgangssamastur í kröfum var Erlendur Guðmundsson á Holtastöðum (Hraknings-Erlendur) sem spurði:

Hvar niður væru komnir víravirkissilfur peysuhnappar, sem Þorsteinn sál. hafi átt? Segir ekkjan og mr. Pétur[3] að Þorsteinn sál. hafi áður en hann dó gefið hnappana stjúpdóttur sinni, Helgu, fyrir þjónustu og vökur, sem hún hafi haft fyrir honum næstliðinn vetur meðan hann lá. Framar spurði Erlendur hvort Þorsteinn sál. hefði ei átt 2 silfurskeiðar, hvað sér hafði verið fortalið næstliðinn vetur? Hvar upp á hlutaðeigendur svara, að við þá aðra kannist þeir ekki en úr hinni hafi hann átt að láta smíða fyrir mann á Suðurlandi og það sama sent með verfólki í vetur.

Hér er vissulega lotið að litlu en hafa verður í huga að silfurgripir, hvort sem var hnappar eða skeiðar, voru mikils virði, silfur var notað til smíða. Þessi fyrirspurn styrkir enn að Þorsteinn hafi unnið fyrir sér með allra handa smíðum.

Einna forvitnilegast í þessum skiptagögnum er 15 ára gamall reikningur um bækur sem Þorsteini voru afhentar til að binda inn árið 1783 og hefur slæðst hér með. Sá sem afhendir bækurnar er Jón Jónsson á Efra-Ási í Hjaltadal. Listinn er svona:

Eftirskrifaðar materiur af[h]endist Þorsteini Benediktssyni á Bakkakoti til geymslu og bindinga, af Jóni Jónssyni, á Efra-Ási í Hjaltadal, anno 1783:

                                                                     Rd.    Sk.     Rd. fyrir að binda:
20 Norsku lög                                                   2      24      10
15 Altar[4]                                                  29                 3
20 Njáls sögur                                                 45                 4¼
8 Búnaðarbálkar                                              20                 1
25 Stöfunarbarn                                               8                  1
20 Ljóðmæli                                                    22                 2
5 Sigurð snarfara r.                                          24                 2¼
7 Úlfars r.                                                        27                 3
3 Heimshringr[5]                                          84                 8
3 Krónulög (þ.e. Norsku lög)                             24                 2¼
3 Króks r.[6]                                                 19                 3
3 Agnars r.                                                       18                 1½
2 Ingvars r.                                                      24                 2
40 Ármanns s.                                                  20                 2
3 Ílustöflur[7]                                               24                 2¼
5 Tímaríma                                                       4
2 Þingbækur                                                    20
2 Ljóðmæli                                                      21

Það er ljóst af listanum að þarna hafa verið talsverð verðmæti í húfi og líka að Þorsteinn hefur haft dágóðar tekjur af bókbandsstarfinu. Um helmingur bókanna eru rímur en flestar eða allar munu þær hafa verið prentaðar í Hrappseyjarprentsmiðju á Breiðafirði sem var starfrækt á árunum 1773-1795.


[1] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu PA/1, örk 1. Skýrsla séra Sæmundar Oddssonar 17. apríl 1784.
[2] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/4, nr. 60. Skiptaskjöl 1792-1803.
[3] Þ.e. Pétur Pétursson á Brekku.
[4] Átt er við „Atla,“ sjálfshjálparbók eftir séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal.
[5] Örugglega er átt við Heimskringlu sem var prentuð í Kaupmannahöfn 1777.
[6] Átt mun við rímur af Króka-Ref, prentaðar í Hrappsey 1777.
[7] Eða „Hússtöflur,“ þ.e. eins konar almanak.

Þættir úr sögu sveitar
Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið