Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 29. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 00:25 0 0°C
Laxárdalsh. 00:25 0 0°C
Vatnsskarð 00:25 0 0°C
Þverárfjall 00:25 0 0°C
Kjalarnes 00:25 0 0°C
Hafnarfjall 00:25 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
17. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
15. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
11. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Axlaröxl. Mynd: HAH/Sigurh E. Vignir
Axlaröxl. Mynd: HAH/Sigurh E. Vignir
Pistlar | 26. júní 2021 - kl. 09:53
Þættir úr sögu sveitar: Endurvinnsla og sjálfbærni
5. þáttur. Eftir Jón Torfason

Þann 10. ágúst 1820 dó Gróa Tómasdóttir, „örvasa kerling á Stóru-Giljá, af elliveikindum, ógift.“ Hún var fædd um 1745, og þótt tekið sé fram að hún væri ógift hafði henni tekist að eignast fjögur börn með fjórum mönnum og komust að minnsta kosti tvö þeirra upp.[1] Hálfbróðir Gróu var Árni prestur Tómasson á Bægisá (1738-1788) en móðir séra Árna hét Valgerður Arnbjörnsdóttir og var systir Jóns Arnbjörnssonar ríka sem bjó á Stóru-Giljá. Ólst Árni að miklu leyti upp á Stóru-Giljá og Gróa, hálfsystir hans, virðist hafa dvalið þar langdvölum, a.m.k. eftir að hún komst á fullorðinsár. Jón ríki, Valgerður systir hans og séra Árni dóu með fárra ára millibili og flutti þá ekkja Árna, Helga Jónsdóttir, að Stóru-Giljá og bjó þar með sonum þeirra Árna, Jóni og Arnbirni. Hefur það verið rakið í fyrri þáttum.

Gróa Tómasdóttir er talin meðal heimilismanna á Stóru-Giljá í sóknarmannatali 1784 og á þar síðan heimili til dauðadags. Árið 1784 er hún sögð vinnukona, 39 ára, „læs, iðin og geðþæg, kann vel sinn kristindóm.“ Á heimilinu eru tveir drengir, Jón Illugason (f. 1771) og Guðmundur Pétursson (f. 1775) nefndir tökubörn, en varla mun þó hafa verið gefið með þeim. Þessir drengir voru synir Gróu[2] og hefur hún unnið fyrir þeim. Jón Illugason átti síðast heima út á Skagaströnd og Guðmundur hálfbróðir hans bjó þar líka um hríð en hann átti seinast heima á Valdalæk á Vatnsnesi. Þessir drengir fermast á réttum tíma í Þingeyrakirkju og dvelja nokkur ár á Stóru-Giljá og víðar í sveitinni sem vinnumenn en síðan hverfa þeir úr hreppnum.

Lítið er hægt að vita um innbyrðis samskipti fólks sem talið er upp í sálnaregistrum, en manni virðist sem þeir bræður Jón og Arnbjörn Árnasynir hafi lengi haldið tryggð við Gróu föðursystur sína. Þannig er hún ekki titluð vinnukona heldur „náungi“ eftir að Helga Jónsdóttir og þeir Árnasynir taka við búsforráðum á Giljá en ég skil það svo að það orð þýði „ættingi,“ tákni að minnsta kosti annan og eitthvað „æðri“ sess en rétt og slétt vinnukona hafði. Og þegar Arnbjörn byrjar sjálfstæðan búskap er Gróa bústýra hjá honum í eitt ár, aldamótaárið 1800. Næstu þrjú þar á eftir býr Arnbjörn á Brekku en Gróa er áfram á Giljá, þá sögð „tekin,“ en 1804, þegar Arnbjörn flytur á nýjan leik að Giljá, er Gróa aftur orðin „náungi.“ Þrátt fyrir skipti á húsbændum á Stóru-Giljá næstu tvo áratugina var Gróa þar alltaf til húsa, um árabil sögð „húskona“ sem þýðir að hún hefur haft með sjálfa sig að gera að mestu leyti. Má því ætla að hún hafi unað sér vel á þessum slóðum, enda er fallegt á Stóru-Giljá í góðu veðri þegar hlýir vindar strjúka um vanga eða leika í grasi og töðu.

En árið 1811 hefur heilsu Gróu hrakað og hún er komin á hreppinn, orðin hreppsómagi. Meðlagið með henni er 4 fiskar fyrir vikuna sem gerir 208 fiska yfir árið og er með því lægsta sem gefið var með gamalmennum. Síðasta árið hækkar þó meðlagið en þá hefur gamla konan alllengi legið veik. Gróa virðist lengst af hafa verið „vel áttuð,“ eins og sagt er nú á dögum, því hún „les ennnú, skikkanleg, kann margt,“ samkvæmt húsvitjunarbókinni. Það dregur þó smám saman af henni og árið 1820 deyr hún 75 ára að aldri.

Ekki verður séð að synir Gróu hafi lagt neitt til hennar þegar hana þraut þrek og heilsu í ellinni. Þeir hafa sjálfsagt átt nóg með sitt, Jón Illugason hefur örugglega ekki verið aflögufær og Guðmundur var líka fátækur. Fram til 1834, þegar sett voru ný lög um fátækraframfæri, var ætlast til að menn tækju þátt í að framfæra fátæka ættingja sína eftir efnum og ástæðum. Víst er um að frændur Gróu, afkomendur séra Árna Tómassonar, Arnbjörn og börn Jóns Árnasonar, hefðu haft burði til að styðja þessa frænku sína en virðast samt ekki hafa gert það. Þó er bót í máli að Gróa þurfti ekki að hrekjast frá Stóru-Giljá þar sem hún hafði átt svo lengi heima.

Hvað um það þá átti Torfalækjarhreppur kröfu í eftirlátnar reitur Gróu, sem voru boðnar upp[3] á þingstað sveitarinnar, Torfalæk, snemma í október 1820, og hafa þá lítilfjörlegar eigur hennar verið reiddar þangað út eftir. Vanir matsmenn mátu þær á 17 ríkisdali. Uppboðshaldarinn, sem var Hannes Þorvaldsson hreppstjóri í Sauðanesi, hefur haft lag á að ýta undir boðin þannig að niðurstaðan af uppboðinu varð sú að eignir Gróu seldust á 21 ríkisdal og 19 skildinga. Um þessar mundir var gangverð á mjólkandi gildri á 2 ríkisdalir en kýrverð var um 12-14 dalir, þannig að heildar innkoman var tæp tvö kýrverð. Af því fór 1 rd., 33 skildingar í kostnað við uppboðið en Benedikt Jónasson húsbóndi á Stóru-Giljá fékk 9 rd., 32 sk. í útfararkostnað. Hreppurinn fékk í sinn hlut 10 rd., 65 sk. sem kom þá upp í það sem með Gróu hafði verið gefið undanfarin ár.

Það er ýmislegt athyglisvert við þetta uppboð. Þarna er bókstaflega „allt“ selt, stórt (sem er mjög fátt) og smátt (sem er langmest). Það átti við uppboð, og það þótt smávægileg bú væru boðin upp, að þau drógu að sér múg og margmenni ef tala má um slíkt í dreifbýlli sveit. Þarna var fólk af flestum næstu bæjum og líka nokkrir sem lengra áttu að sækja, þannig eru a.m.k. tveir úr Sveinsstaðahreppi. Hugsanlega hafa líka einhverjir komið sem ekki hafa keypt neitt. Það er ekki útilokað að dagurinn hafi verið tengdur hreppaskilum á fé, því uppboðsgerðin er dagsett 13. október, um það leyti sem menn voru að ljúka haustheimtum. Uppboðið hefur varla tekið langan tíma því númerin voru aðeins 42, mest fatnaður, flest slitið. Líklega hefur einna helst verið boðið í rekkjuvoðir sem voru metnar á 4 merkur, þ.e. 64 sk. en seldar á 1 rd., 10 sk. (sem gerir 106 skildinga) og Páll Illugason í Hamrakoti keypti; og sængurgarm sem Sveinn Halldórsson á Hnjúkum bauð í 1 rd., 18 sk. en hafði verið metinn á 1 rd.

En allt var hægt að nota; þrír silfurhnappar í svuntu fóru á rúma 2 ríkisdali og þar hafa menn verið að horfa á málminn, silfrið. Grænt klæðispils seldist á tæpa 2 ríkisdali, hefur verið bærilegur gripur, og kvenhempa af vaðmáli á 1 rd. Þarna eru líka seldir tveir klútar, bláteinóttur og gráteinóttur, og rautt hálssilki, sem má ætla gamla konan hafi notað sér til skarts og minnst um leið fornra unaðsstunda, en karlarnir hafa kannski keypt til að gefa konu sinni sem heima sat, eða kannski unnustu.

Geta má þess, að Hannes Þorvaldsson hreppstjóri kaupir pils á 2 skildinga og Benedikt á Giljá kvenkraga líka á 2 skildinga, og verður varla lægra komist. Þá kaupa Guðrún Ólafsdóttir á Kringlu og Rannveig Helgadóttir á Skinnastöðum sitt hvort pilsið, á 4 og 6 skildinga. Þessir hlutir og fleiri líkir hafa verið örslitnir og varla til annars en hafa í bætur, en er um leið vitnisburður um endurnýtingu og sjálfbærni; hugtök sem eru mönnum töm nú á dögum í upphafinni merkingu, orðin hálfgerð „mantra“ eins og stundum er sagt um helga texta, en voru fyrir 200 árum dauðans alvara fátæks fólks í sveitum. Slitnar tuskur mátti nota í bætur og má í þessu sambandi rifja upp ummæli móður Jóns Hreggviðssonar, að það væri „vond skinnpjatla sem ekki var til einhvers nýt í hörðu ári, þegar margir verða að borða skóna sína, og þó það sé ekki nema þvengspotti er honum stungið upp í börn til að töngla.“[4]

Loks er athyglisvert á þessu uppboði að sjá ofannefndar konur, Guðrúnu á Kringlu og Rannveigu á Skinnastöðum. Þær höfðu báðar upplifað allsleysi móðuharðindanna og búið við örbirgð framan af 19. öldinni, og voru víst langt frá því að vera nein glæsikvendi, a.m.k. er til vitnisburður um að Guðrún hafi þótt heldur ófríð. En þarna standa þessar öreigakonur keikar við hlið bændanna í sveitinni og bjóða í hluti handa sjálfum sér, Guðrún á Kringlu kaupir m.a. kvenpeysu og Rannveig manuale, sem var handbók prests, e.t.v. komin úr fórum séra Árna hálfbróður Gróu gömlu.

Uppboð á eigum Gróu Tómasdóttir 1820


[1] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bl.s 317.
[2] Staðfest um Jón og Guðmund í tölvupósti 8. desember 2020 frá Svövu Sigurðardóttur hjá islendingabók.is.
[3] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/2, örk 3.
[4] Halldór Laxness: Íslandsklukkan, 3. kafli.

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið