The Madonna of the Pinks. Mynd:wikipedia.org
The Madonna of the Pinks. Mynd:wikipedia.org
Pistlar | 04. júlí 2021 - kl. 20:50
Stökuspjall: Stjarnan við bergtindinn bliknar
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Í yndisleik vorsins
milli blóma og runna
situr ung móðir
með barnið á hnjám sér
andlit hennar sól
bros hennar ylhlýir geislar.

Rafael í allri sinni dýrð

Fegurð og góðvild
þetta tvennt og eitt
hvað er umkomulausara
í rangsnúnum heimi.

Og þó mest af öllu
og mun lifa allt. Snorri Hjartarson/Ung móðir

Í bók sína Ljóð dagsins valdi Sigurbjörn biskup þetta ljóð Snorra og setti það með sumarljóðunum seint í júní. Á næstu síðu birtist Ólöf frá Hlöðum, yrkir um glóey í Sólstöðuþulu sinni:

Því að sól á svona kveldi
sest á rúmstokkinn
háttar ekki, heldur vakir
hugsar um ástvin sinn.
Veit, hann kemur bráðum, bráðum
bjarti morgunninn!
Grípur hana snöggvast, snöggvast
snöggt í faðminn sinn
lyftir henni ofar, ofar
upp á himininn.
Skilar henni í hendur dagsins
í hjartað fær hún sting:
Æ, að láta langa daginn
leiða sig í kring!
Ganga hægt og horfa nið’r á
heimsins umsnúning.
Komast loks í einrúm aftur
eftir sólarhring
til að þrá sinn unga unað
yndis sjónhverfing!
Þjaki hafsól þrár um nætur;
þá er von um mannadætur. ÓS

Stephan G. Stephansson hvarf í huganum heim til ættlandsins með skáldgyðjunni:

Það er hollt að hafa átt
heiðra drauma vökunætur
séð með vinum sínum þrátt
sólskins rönd um miðja nátt
aukið degi í æviþátt
aðrir þegar stóðu á fætur. StGSt.

Um hásumardag í júlí 1957 – þ.e. 7.7.´57 –  fagnaði Jónas Tryggvason nýju félagsheimili þeirra sveitunganna í Húnaveri og orti hátíðarljóð:

Sjá hásumardag
yfir dalnum og ánni.
Heyr fagnaðarlag.
Gakk til fylgdar með þránni
sem lyfti sér hátt
yfir hversdagsins annir
fann styrk sinn og mátt
gegnum storma og fannir.

Því fólkið á þrá
þótt í fásinni búi.
Það langar að sjá
hvort að svanir þess fljúgi
og daganna strit
inn í dölunum þröngvum
hlaut blæ sinn og lit
í þess ljóði og söngvum.

Þótt draumarnir þrátt
ei við dagana sættust
sveif hugurinn hátt
þegar heimarnir mættust.
Því hljómar í dag
yfir dalnum og ánni
það fagnaðarlag
sem var fóstrað af þránni.

Með hátíðabrag
skal nú byggð okkar skarta.
Hún hyllir í dag
þenna drauminn sinn bjarta
sem rættist og varð
hér að vitni um samtíð
er byggði sinn garð
inn í bjartari framtíð. JT/Við vígslu Húnavers

En Snorri hinn borgfirski fær síðasta orðið, yrkir um skáldbróður sinn, Jónas Hallgrímsson:

Döggfall á vorgrænum viðum
veglausum heiðum
sólroð á svölum og góðum
suðrænublæ.

Stjarnan við bergtindinn bliknar
brosir og slokknar
óttuljós víðáttan vaknar
vonfrjó og ný.

Sól rís úr steinrunnum straumum
stráum og blómum
hjörðum og söngþrastasveimum
samfögnuð býr.

Ein gengur léttfætt að leita:
lauffalin gjóta
geymir nú gimbilinn hvíta
gulan á brár.

Hrynja í húmdimmum skúta
hljóðlát og glitrandi tár. SH

Rafael: https://en.wikipedia.org/wiki/Madonna_of_the_Pinks
Sólstöðuþula Ólafar: http://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=879
Hver er allt of uppgefinn: http://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=3850
Ljóð Jónasar Tryggvasonar: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=16936
Fleiri ljóð Snorra Hjartarsonar: http://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=3951

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga