Pistlar | 26. júlí 2021 - kl. 12:10
Handarfar skaparans
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Eitt sinn varst þú aðeins draumur. Fallegur draumur í huga Guðs. Draumur sem rættist.

Börnin okkar eru ljóð, ort af okkur saman. Ljóð sem lifa. Ávöxtur ástar, óður til lífsins. Lífs sem við kveiktum saman, með Guðs hjálp. Lífs sem heldur áfram og verður aldrei afmáð.

Ljós í heiminn borið

Í skírninni samlögumst við ljósi heimsins sem við okkur skín frá himni og verðum við sjálf í ljósi himinsins. Ljós í heiminn borið. Tendruð af ljósi ljósanna. Ljós af ljósi.

Í skírninni erum við uppvakin til lífsins. Eilífs lífs með frelsaranum Jesú Kristi. Því getur skírnin aldrei verið bara einfalt formsatriði heldur varanlegt augnablik.

Ekkert fær þig hrifið úr frelsarans fangi sem foreldrar þínir forðum færðu þig í. Þú varst nefnd/nefndur með nafni og nafnið þitt var letrað í lífsins bók með frelsarans hendi. Himnesku letri sem ekki fæst afmáð og ekkert fær eytt og ekkert strokleður getur þurrkað út. Þér var heitin eilíf samfylgd af höfundi og fullkomnara lífsins.

Þú hefur verið grædd eða græddur á lífsins tré og þiggur næringu þína frá stofni lífsins. Næringuna sem viðheldur lífinu til eilífðar. Líttu því upp, fagnaðu og gleðstu. Þakkaðu og lifðu.

Leyfðu rótunum að dýpka svo þú berir ávöxt. Mikinn og góðan ávöxt. Ávöxt sem varir.

Láttu því aldrei nokkurn einasta mann eða hópa líta smáum augum á aldur þinn og það sem þér er gefið af Guði til að hafa fram að færa fólki til blessunar, honum til dýrðar og þannig sjálfum þér eða sjálfri til heilla og hamingju. Láttu heldur aldrei líta niður á uppruna þinn, skoðanir, litarhátt né kynferði, þekkingu eða reynslu.

  Handarfar skaparans

Í lófa Guðs er nafn þitt ritað. Þú ert handarfar skaparans í þessum heimi og líf þitt hið ljúfasta og fegursta ljóð. Heilagur andi hefur blásið þér líf, anda og kraft í brjóst til að vera sá eða sú sem þú ert. Þú er leikflétta í undri kærleikans. Njóttu þess og láttu muna um þig til góðs.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga