Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 29. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:36 0 0°C
Laxárdalsh. 01:36 0 0°C
Vatnsskarð 01:36 0 0°C
Þverárfjall 01:36 0 0°C
Kjalarnes 01:36 0 0°C
Hafnarfjall 01:36 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
17. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
15. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
11. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kagaðarhóll á Ásum. Mynd: HAH 2007/41-D-1-1459
Kagaðarhóll á Ásum. Mynd: HAH 2007/41-D-1-1459
Pistlar | 26. júlí 2021 - kl. 13:14
Þættir úr sögu sveitar: Jón og Guðrún á Kagaðarhóli
7. þáttur. Eftir Jón Torfason

Nöfnin Jón og Guðrún hafa lengi verið við lýði á Kagaðarhóli, stundum á fyrri tíð ritað Kagarhóll eða stytt í Hóll. Á æskuárum mínum sátu þau hjón Jón Stefánsson og Guðrún Jónsdóttir jörðina með sóma. En á síðari hluta 18. aldar, frá 1773, bjuggu þar hjón óskyld þeim, sem báru sömu nöfn, Jón Jónsson (1746-1816) og Guðrún Jónsdóttir (1730-1805). Ekki er hægt að segja að nýungagirnin hafi verið mikil hjá þeim því þau eignuðust tvö börn og skírðu þau í höfuðið á sjálfum sér, Guðrúnu, f. 1772, og Jón, f. 1778. Þessi tvö mannanöfn eru erfiðust í íslenskri mannfræði og hafa komið mörgum svitadropanum út hjá ættfræðingum þessa lands, því ef svona nafn kemur stakt fyrir í heimild og án samhengis er mjög torvelt að skera úr um hver í hlut á.

Eins og aðrir fékk fjölskyldan á Kagaðarhóli harðan skell í móðuharðindunum en virðist þó hafa sloppið heldur skár en margir aðrir í sveitinni því árið 1785 eru á jörðunni, skv. búnaðarskýrslu, 2 kýr og 1 kvíga, 8 ær mylkar, 8 lömb og 2 hestar. Fimm árum síðar, 1790, stendur nautpeningurinn í stað enda voru vanalega aðeins ein til tvær kýr á venjulegu heimili, en ærnar eru orðnar 20. Þótt tölurnar séu ekki háar á nútímamælikvarða þá dugði þessi bústofan til að framfæra 5-6 manneskjur. Næsta varðveitta búnaðarskýrsla er frá 1803 og þá eru ærnar 26, tamdir hestar 4 og 2 merar.

Annar mælikvarði á hagsæld bænda er að athuga lausafjártíund, þ.e. tíund sem greidd var til hreppsins til fátækraframfærslu. Lausafjártíund Jóns á Kagaðarhóli árið 1791 er 5 hundruð, sem gæti samsvarað t.d. 2 kúm og 18 ám, og fer svo smáhækkandi næstu ár, er 8 hundruð 1794, 9 hundruð 1795-1797 og er komin upp í 13 hundruð aldamótaárið. Í hörðu árunum í upphafi 19. aldar kemur mikið bakslag og tíundin fellur aftur niður í 5 hundruð 1803 en tosast upp í 8 hundruð 1808. Eftir það til æviloka Jóns 1816 er lausafjártíundin í kringum 10 hundruð sem er í slöku meðallagi miðað við hreppsbændur í heild.

Eftir móðuharðindin hafði hér í reynd verið vísitölufjölskylda; faðir, móðir og tvö börn, en þegar leið á síðasta áratug aldarinnar var ráðin hingað vinnukona, Sigríður Jónsdóttir að nafni, f. 1760, dóttir Jóns Jónssonar harðabónda. Sennilega hafa fljótlega tekist náin kynni með vinnukonunni og unga bóndasyninum því þeim fæddust þrjú börn í rennu á árunum 1799-1802 en síðan var skrúfað fyrir. Þessi börn voru Sólveig (1799-1852), húsfreyja á Hurðarbaki frá 1817 til dauðadags, Jóhannes (1801-1861) bóndi á Torfalæk 1831-1848 og Umsvölum 1848-1859 og Guðmundur (1802-1839), bóndi í Meðalheimi frá 1835 til æviloka. Börnum Sigríðar og Jóns yngra virðist þannig hafa tekist bærilega að koma undir sig fótunum og verða öll „sjálfstæðir“ bændur, að svo miklu leyti sem leiguliðar geta kallast sjálfstæðir bændur, en þau standa þó a.m.k. skör hærra en venjulegt vinnufólk.

Foreldrunum, þeim Jóni Jónssyni yngra (f. 1778) og Sigríði vinnukonu, virðist ekki hafa búnast jafn vel og börnum þeirra. Það er að vísu ekki einfalt að rekja feril þeirra og sennilega eru þau í vinnumennsku á ýmsum bæjum fyrstu ár aldarinnar. Sólveig dóttir þeirra er alla tíð alin upp á Kagaðarhóli hjá afa sínum og ömmu og síðar fóstru, og þau Jón og Sigríður eru á endanum orðin bændur á Þröm, fremsta bæ í Blöndudal, árið 1813 og eru þar til 1817. Þau flytja þá í húsmennsku að Gafli í Svínadal, síðan yfir fjallið að Marðarnúpi og loks í Stóra-Búrfell 1819 þar sem þau búa á hluta jarðarinnar til 1821 en gefast þá upp á búskapnum og slíta samvistir að því er virðist. Jón fer í vinnumennsku að Umsvölum og deyr loks á Stóru-Giljá 1838, en Sigríður er m.a. á Mosfelli og er komin að Skúfi í Norðurárdal þegar hún deyr 1839.[1]

Ekki er heldur einfalt að rekja feril heimasætunnar á Kagaðarhóli Guðrúnar Jónsdóttur yngri, bæði er nafnið afar algengt, eins og áður er á minnst, svo þótt maður rekist á nafnið „Guðrún Jónsdóttir“ er undir hælinn lagt hvaða Guðrún það kunni að vera. Síðan eru bagalegar eyður í prestsþjónustubók og sóknarmannatal Hjaltabakka á síðustu árum séra Rafns Jónssonar sem kemst ekki í samt lag fyrr en eftir dauða hans, að séra Halldór Ámundason kemur að Hjaltabakka 1807. Guðrún er þó að líkindum heimavið en hefur sennilega verið í vinnumennsku á næstu bæjum að einhverju leyti. Á þeim árum varð henni á að koma full nálægt einum helsta kvennamanninum í sveitinni, Sveini Halldórssyni sem er raunar forfaðir undirritaðs. Þess má raunar geta að áðurnefndur séra Halldór á Hjaltabakka gefur Sveini einkunnina „honestus vir,“ þ.e. heiðarlegur maður, í sinni fyrstu húsvitjun, en ólíkir hæfileikar fara gjarna saman hjá einstökum mönnum. Hvað sem því líður þá fæddi Guðrún son sumarið 1809, Jón „yngra“ Sveinsson Halldórssonar (1809-1844, bóndi á Búrfelli í Miðfirði). Þetta sama vor flutti Sveinn Halldórsson frá Köldukinn að Hnjúkum þar sem hann bjó til dauðadags 1838 og er oftast kenndur við þann bæ.

Sennilega hefur ekki verið pláss fyrir Jón hinn unga á Hnjúkum því Sveinn faðir hans hafði fyrir nokkrum fleiri börnum að sjá, var líka kominn með nýja konu og ný börn fæddust nær því árlega. Þótt einkennilegt sé þá var heldur ekki mikið pláss fyrir mæðginin heima á Kagaðarhóli nema fyrstu tvö ár Jóns litla Sveinssonar, 1809 og 1810, en síðan hverfa þau mæðgin úr sóknarmannatalinu. Hér koma aðeins til getgátur, sem eru heimildarlausar og þess vegna ekkert annað en getgátur. Guðrún Jónsdóttir eldri á Kagaðarhóli hefur trúlega verið orðin heilsulítil um aldamótin því þá er komin að Hóli vinnukona, auk Sigríðar Jónsdóttur sem áður er nefnd og tók saman við Jón yngra á Kagaðarhóli, sú hét Sólveig Bjarnadóttir (f. 1752). Eftir lát Guðrúnar eldri 1805 tekur Sólveig þessi við forráðum innan stokks, fær titilinn „ráðstúlka“ í sóknarmannatali séra Halldórs á Hjaltabakka og heldur þessum stúlku-titli næsta áratuginn jafnvel þótt hún sé komin á sjötugsaldurinn. Hún er læs og vel að sér og stundum sögð „röggsamleg.“ Hugsanlegt er að Sólveig þessi hafi gert sig full ráðríka og ekki kært sig um að fá dóttur Jóns bónda inn á heimilið að kássast í búri og eldhúsi. Um það verður ekki sagt en hitt er víst að á milli Sólveigar „ráðsstúlku“ og Sólveigar Jóns- og Sigríðardóttur, dótturdóttur og fósturdóttur Jóns bónda, tókst vinátta sem hélst alla tíð. Þegar Sólveig yngri giftist ungum bónda og settist að á Hurðarbaki árið 1817 tók hún fóstru sína með sér og annaðist hana til dauðadags og þar dó Sólveig fyrrverandi ráðsstúlka 15. apríl 1843.

Guðrún heimasætan hvarf hins vegar að heiman og hafði með sér Jón sinn litla Sveinsson. Hún flutti vestur í sýslu og gerðist býstýra hjá Guðmundi Guðmundssyni (f. 1770) sem bjó á parti af Stóru-Borg í Víðidal. Þau eru á Stóru-Borg 1823. Guðmundur 53 ára, Guðrún 48 og Jón 15 ára.

Jón Sveinsson yngri giftist Dýrunni Þórarinsdóttur (1806-1905) 25. ágúst 1839, og eignast með henni dótturina Maríu (1839-1857) og Jón (1842-1924, bóndi á Torfalæk nokkur ár, og víðar). Þau bjuggu á Búrfelli í Miðfirði. Eftir lát Jóns 1844 virðist Dýrunn hafa verið vinnukona og bústýra á ýmsum bæjum í Vestursýslunni til dauðadags 21. september 1905.

Fyrir hjónaband átti Jón Sveinsson tvö börn með Guðrúnu Teitsdóttur 1802-1882) sem síðar varð kona Jóns Halldórssonar á Almenningi á Vatnsnesi. Það voru Jóhanna Dagbjört (1829-1904, átti lengst af heima vestur í sýslu) og Jónas (f. 24. september 1830, d. 29. júní 1864). Sagður sjómaður á Njálsstöðum í Vindhælishreppi í manntali 1860 en var kominn að Hvarfi í Víðidal þegar hann drukknaði við sjóróðra suður á Álftanesi 22. júní 1864.

Það er að vísu komið nokkuð út fyrir efnið, þ.e. fólkið á Kagaðarhóli, en Jón Sveinsson mun einnig hafa verið giftur áður en hann kvæntist Dýrunni, því haustið 1833 eru sáttanefndarmenn í Miðfirði að hvetja „hjónin“ Jón Sveinsson og Freygerði Guðmundsdóttur til að halda áfram sambúð. Jón og Freygerður giftust 22. maí 1832 í Undirfellskirkju, hann þá sagður bóndi á Reykjum í Miðfirði en hún frá Brúsastöðum. Þetta samband hefur ekki enst nema árið, hvað sem valdið hefur, og var barnlaust.[2]

Jón Jónsson eldri á Kagaðarhóli dó 1816 og þá fluttu Sólveigarnar, fósturdóttirin og ráðsstúlkan, að Hurðarbaki eins og fyrr var nefnt en nýtt fólk kom að Hóli. Hvorki Jón yngri eða Guðrún yngri virðast hafa komið til álita sem næstu ábúendur sem er einkennilegt því Jón eldri átti hálfa jörðina á móti Holtastaðakirkju. Dánarbú Jóns á Kagaðarhóli hefur ekki varðveist svo ekki er hægt að sjá hvernig eigum hans var ráðstafað en stærsta hluta þeirra hlýtur að hafa verið skipta milli barna hans.

Árið 1817 koma að Kagaðarhóli Ólafur Jónsson (f. 9. júlí 1777, d. 27. október 1845) og Solveig Tómasdóttir ljósmóðir (f. 1790, d. 14. nóvember 1852). Bjarni í Blöndudalshólum telur að Ólafur hafi verið sonur Jóns Árnasonar bónda á Eiðsstöðum og konu hans Agnesar Guðmundsdóttur. En Sólveig var dóttir Tómasar Tómssonar og Ingiríðar Jónsdóttur sem líka bjuggu á Eiðsstöðum.[3] Ekki verður séður náinn skyldleiki með þessum nýju ábúendum og þeim Jóni og Guðrúnu eldri, en þau Ólafur og Sólveig og afkomendur þeirra bjuggu hér fram um miðja öldina.

Þau gegndu bæði embættum í þágu samfélagsins, Sólveig var ljósmóðir sveitarinnar, þótt hún væri ekki lærð í þeirri grein, en Ólafur gerðist refaskytta og er stundum nefndur Ólafur skytta. Má sjá allmargar greiðslur til hans í reikningum hreppsins vegna refaveiða.


[1] Um þetta fólk má finna fróðleik í Ættum Austur-Húnvetninga á bls. 519 og 1085 og víðar.
[2] Sbr. Vilhelm Vilhelmsson: Sakir útkljáðar. Sáttabók Miðfjarðarumdæmis í Húnavatnssýslu 1799-1865, bls. 117-118.
[3] Bjarni Jónasson Blöndudalshólum: Litazt um í Svínavatnshreppi. Húnavaka 1978, bls. 53; Haraldur Pétursson: Ljósmæðratal I, bls. 604.

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið