Pistlar | 25. ágúst 2021 - kl. 11:46
Bæn fyrir börnum sem hefja skólagöngu
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Sjaldnast erum við sammála um nokkurn skapaðan hlut, menn eða málefni.  Okkur greinir á um leiðir að markmiðum sem sjálfsagt er eðlilegt þótt stundum finnist manni nú nóg um.

Eitt vona ég þó að við getum sameinast um. Það að bera umhyggju fyrir börnum og að eiga þá von í hjarta að börnunum okkar farnist vel í lífinu.

Það má reikna með því að þúsundir sex ára Íslendingar séu þessa dagana á leið í skólann í fyrsta sinn. Sannarlega tímamót í þeirra lífi og fjölskyldna þeirra.

 Samferða í skólann

Fátt ef nokkuð er dýrmætara en að eiga raunverulegan vin. Vin sem vill verða samferða í skólann og bregst ekki, sama á hverju gengur. 

Og jafnvel þótt vinurinn sé ósýnilegur er hægt að finna fyrir honum. Þessi vinur býðst til að lýsa okkur veginn, fylgja okkur eftir hvert fótmál og vaka yfir okkur, án þess þó að vera upp á þrengjandi eða íþyngjandi á nokkurn hátt.  Heldur þvert á móti, uppörvandi, hvetjandi og blessandi. Ómetanlegur vinur með þægilega nærveru sem býðst til að umvefja okkur kærleika sínum með raunverulegri en ólýsanlegri nálægð.

Því hvet ég okkur öll til þess að sameinast í bæn fyrir börnunum okkar og þá ekki síst þeim sem þessa dagana fara með nýju töskuna sína á bakinu í skólann í fyrsta sinn. 

Eldhúsborðið er ákjósanlegur staður til bæna, hvort sem það er við morgun- eða kvöldverð. Þá getur verið gott að biðja þegar komið er upp í á kvöldin eða bara hvenær sólarhringsins sem er. Það góða er að það geta og mega allir biðja. Best er að hafa orðalagið einfalt, því það gerir bænina einlægari. 

Eitt er víst að það hefur enginn orðið verri maður af því að biðja og ég held að við ættum bara að láta það eftir okkur sem oftast.  Bænin er nefnilega kvíðastillandi.  Hún er æfing í von og trausti og með henni fæst ólýsanleg innri ró og friður.

Bænin gæti til dæmis verið einhvern veginn svona:

Kæri Guðssonur, Jesús Kristur, þú sem sagðir: Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim ekki, því að slíkra er Guðs ríki! 

Í dag komum við fram fyrir þig í þakklæti fyrir að mega samkvæmt þínu boði leggja allt sem á okkur hvílir á þínar herðar.  Því biðjum við þig nú að blessa öll þau börn sem á þessu hausti upplifa þau miklu tímamót að hefja skólagöngu. Vilt þú senda engla þína til að fylgja þeim eftir og gæta þeirra, vaka yfir þeim og vernda frá slysum og hættum og hverju því öðru sem kann að skaða þau. 

Gefðu að þeim sækist námið vel, verði áhugasöm og gef þeim einbeitingu.  Gef að þau aðlagist skólanum og bekkjarfélögunum á eðlilegan hátt.  Blessaðu samskipti bekkjarfélaganna og skólafélaganna allra. 

Forðaðu hverju barni frá því að lenda í einelti eða vera beitt ofbeldi hvers konar, andlegu eða líkamlegu og forða þeim frá að taka þátt í slíku.

Þroska með þeim tillitssemi og virðingu fyrir náunganum og ólíkum skoðunum. Jafnt gagnvart skólafélögum, kennurum og skólastjórnendum, foreldrum og systkinum sem og öðrum samferðamönnum. 

Hjálpa þú börnunum að upplifa skóladaginn skemmtilegan. Haf þú áhrif á þau. Gerðu þau fróðleiksfús og næm fyrir umhverfinu og öllu lífi. Láttu þau hlakka til næsta dags og hjálpaðu þeim að horfa full eftirvæntingar og vonar til framtíðar.

Viltu einnig vaka yfir öllum öðrum nemendum. Á hvaða aldri eða stigi sem þau eru. Já, hvar sem hann eða hún kunna að vera stödd á sinni lífsins skólagöngu. 

Gefðu að allt nám verði viðkomandi nemanda til þroska, ánægju og heilla.  Opna þeim leiðir til að viða að sér frekari þekkingu.  Gefðu svo að allt nám verði þjóðfélagi okkar til gagns og heilla, framfara og blessunar. Uppörvaðu hvern nemanda og styrktu. Gefðu honum einbeitingu og úthald til að takast á við verkefni sín.

Við biðjum í trausti þess að þú leggir eyra þitt að ákalli okkar og munir vel fyrir sjá. Við biðjum til þín sem sagðir: Biðjið og yður mun gefast.

Í Jesú nafni. Amen.

Ekkert sameinar betur en bænin

Með því að biðja fyrir börnunum okkar, leggjum við framtíðina í Guðs hendur.  Við stillum saman hugi, jafnt með velferð einstaklingsins og heildarinnar allrar að leiðarljósi.  Við verðum meðvitaðri, upplýstari, skilningsríkari og ábyrgari um velferð barnanna okkar og þjóðfélagsins í heild. Við fljótum þar að leiðandi ekki eins hjálparvana og áhyggjufull inn í óljósa framtíðina. 

Ég er viss um að við getum ekki sameinast um neitt betra, börnum okkar og þjóð til handa og heilla.

Með samstöðu- kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga