Beinakelda. Mynd: HAH (1966)
Beinakelda. Mynd: HAH (1966)
Pistlar | 28. ágúst 2021 - kl. 11:02
Þættir úr sögu sveitar: Þriðja vinnukonan og sonur hennar
9. þáttur. Eftir Jón Torfason

Barnið, sem var eina karlkynsmanneskjan í meyjarskemmunni á Beinakeldu á árunum 1793-1797 og sagt var frá í síðasta þætti, var sonur Guðrúnar Erlingsdóttur vinnukonu þar (f. 1760, d. 9. ágúst 1823). Hann var getinn utan hjónabands og hét Guðmundur Þórðarson (f. 17. september 1793, d. 1. desember 1849). Móðir hans var sum sé vinnukonan á bænum en eftir að Guðrún Guðmundsdóttir gafst upp á búskapnum 1797 gerðist þessi Guðrún vinnukona á Stóru-Giljá, þar sem hún fljótlega eignaðist annan dreng í lausaleik, nú með Konráði Guðmundssyni (f. 1766). Sá hét Konráð (f. 1800, d. 24. febrúar 1880) og á afkomendur í sýslunni.[1]

Ferill Guðrúnar Erlingsdóttur verður ekki rakinn hér frekar en hún lést 9. ágúst 1823 og var þá enn einu sinni komin að Beinakeldu: „Lá lengi og þungt af gulu meinlætum áður hún dó,“ segir í prestsþjónustubókinni en gula eða gulusótt er vísbending um að sjúklingur hafi þjáðst af sullaveiki.

Gísli Konráðsson lét ekki sennilegleikann þvælast fyrir sér ef honum fannst einhver kjaftasagan smellin. Þegar greint er frá fæðingu sonar Guðrúnar í Húnvetninga sögu segir að hann væri „son Þórðar, er ýmist var kallaður Kvæða-Þórður eða Kvenna-Þórður, og svo sögðu Húnvetningar að Guðmundur væri getinn á Svínavatnsísi í rennidrifi, því ættfæra yrði móðir hans hann og tilgreina stund og stað.“[2] Og bætir svo við: „Raddmaður er sagt að Guðmundur væri sem faðir hans en allt skorti hann annað við Þórð því kallaður var hann vel viti borinn og að sér færi hann í fleiru [Þ.e. Þórður].“

Viðurnefnið „Kvæða-Þórður“ er vísast komið af kveðskapar- eða rímnaíþrótt mannsins en um „kvenna“ viðurnefnið er hægt að lesa í Ættum Austur-Húnvetninga, bls. 1437-1438, þar sem gerð er nokkur grein fyrir börnum Þórðar og barnsmæðrum. Þórður var Gíslason og bjó um hríð á Marðarnúpi og Gilá í Vatnsdal en hvarf þaðan þegar aldur færðist yfir því í vitnisburði frá 1796 er hann sagður „giftur, afgamall betlari, utanhéraðs.“ Vitað er um Þórð árið 1800, hann er þá í Húsafellssókn í Borgarfirði, sagður: „Ekki óskikkanlegur, kann margt, er margfróður“ en skv. islendingabok.is dó hann 30. ágúst 1805.

Faðirinn ellihrumur á leið upp á ætternisstapann og móðirin vinnukona með tvö börn hefur á þeirri tíð að hámarki getað unnið fyrir öðru barni sínu. Guðmundur fór því á framfæri Torfalækjarhrepps. Algengt meðlag með ungu barni var á þessum árum 210 til 240 fiskar yfir árið, þ.e. 4-5 fiskar um vikuna. Meðlagið með Guðmundi er í hreppsbókinni frá 45 fiskum upp í um 200 yfir árið, oftar en ekki nær lægri tölunni. Árið 1807 er þess getið í hreppsbókinni að hálfbróðir hans, Ásmundur Þórðarson (1777-1857) þá vinnumaður í Ási en síðar bóndi á Hurðarbaki í Vesturhópi, hafi greitt með honum 60 fiska og kann að hafa gert það oftar þótt þess sé sérstaklega getið nema þetta eina ár.

Það er því ekki hægt að segja að Guðmundur hafi verið sérlega „þungur“ ómagi en hann bætti sér það upp, ef svo má segja, með því liggja á hreppnum lengur en flestir aðrir, langt fram yfir fermingu. Þar sem eyður eru í sóknarmannatal Hjaltabakka um aldamótin er ekki hægt að fá fulla vitneskju um verustaði Guðmundar. Hann mun hafa verið á ýmsum bæjum eitt ár eða tvö í senn, m.a. á Hnjúkum, Sauðnesi, Köldukinn, Smyrlabergi, Reykjum og Beinakeldu, en fermdur er hann á Hjaltabakka 10. júní 1810 og er þá orðinn 17 ára. Ekki mátti ferma börn nema þau væru læs og Guðmundur á að heita það, „stautar og hefur lært eins og hin,“ nóterar presturinn hjá sér, þannig að hann hefur tileinkað sér hin kristilegu fræði svo nægjanlegt þætti.

Þótt meðlagið hafi ekki verið ýkja þungt fær maður á tilfinninguna að það hafi verið talið eftir því bæði veraldleg yfirvöld í hreppnum og geistleg hreyta einatt ónotum í drenginn. Í hreppsbókinni er hann m.a. sagður „óefnilegur“ og „ónytjungur“ og einu sinni „amlóði.“ Presturinn segir hann að vísu „stautfæran“ en „hirðulítinn“ og „lítt nýtan.“ Á hinn bóginn er hann „ekki óþægur“ og „frómur,“ en kunnáttan er metin breytileg, allt frá „Kann vel fræðin“ niður í „Kann lítið“ og síðast: „Kann ei illa sitt fáa.“

Á manntalsþingi á Tindum 24. maí 1811 segir svo, liður 11: „Að undirlagi hreppstjórans í Torfalækjarhrepp til vistar uppboðnir tveir í þessum hrepp sveitlægir drengir, nefnilega Jens Jensson rúmt 16 ára að aldri, og Guðmundur Þórðarson nokkru eldri, og vildu engir hér nálægir sveitarmenn taka þá til vistar. Er hreppstjóranum, Ólafi, því tilhaldið að setja þá niður hjá dugnaðarsömum bændum í hreppnum til frekari tilraunar, og svo verði með þá höndlað eftir kóngsbréfi frá 25. júlí 1808.“[3] Sá „dugnaðarsami“ bóndi sem skikkaður var til að gera umbótatilraun á Guðmundi mun hafa verið Jón Jónsson á Smyrlabergi, en þar var pilturinn þó ekki nema eitt ár.

Það er eins og forráðamenn hrepps og sóknar hafi gefist upp á piltinum og segir svo í prestsþjónustubókinni við „burtvikna“ árið 1817 að Guðmundur léttapiltur 23 ára hafi farið „frá Beinakeldu til að flakka um hrepp sinn. Er afstyrmi í flestu og fær því ei vist.“

Loks er þess að geta að árið 1824, þegar Guðmundur er kominn yfir þrítugt, villtist hann í kafaldi, þann 10. desember, og „kól svo stórlega á fótum að við rúm hélst til þess á vori.“ Í færslundálkinum í hreppsbókinni er honum að venju brigslað um „leti og ómennsku,“ og hann sagður „ógirnilegur sveitarbúum fyrir vinnuhjú.“ Hreppurinn geldur 31 fisk fyrir meðöl handa honum og tæplega 200 fiska í legukostnað fyrir hann á Orrastöðum og Reykjum. Þar með má segja að ljúki fjárveitingum hreppsins til Guðmundar og munu báðir aðilar hafa verið fegnir að þeim að viðskiptum væri lokið. Guðmundur er skráður á Kagaðarhóli árið 1830, þá 36 árs, sagður sjálfs sín og tekið fram að hann sé fermdur og læs. Hann sést ekki í skrám yfir brottvikna en mun hafa farið úr sókninni árið eftir, virðist Guðmundur gæta þess síðan að hafa ekki langdvalir í fæðingarhreppi sínum og þarf svo sem engan að undra.

Ferill Guðmundar á fullorðinsárum verður ekki rakinn til hlítar hér enda þarf til þess mikla yfirlegu. Hann er að vistum í Króksseli á Skaga 1833 og þar eignast hann barn, Guðrúnu að nafni (f. 20. maí 1834). Sú stúlka var niðursetningur á Kálfshamri 1835 og Mánaskál 1845 og er skráð vinnukona þar 1850 en síðan er óvíst hvað um hana varð. Móðir Guðrúnar var Guðbjörg Gamalíelsdóttir (1810-1860), dóttir Gamalíels Jónssonar og Guðrúnar Aradóttur (1769-1827) sem bjuggu reyndar eitt ár á Beinakeldu. Guðbjörg sú átti einnig aðra stúlku í lausaleik, það var Margrét Þórðardóttir amma systkinanna á Mánaskál.[4]

Guðmundur gerist nú vinnumaður á Ægisíðu í Vesturhópi 1834 og 1835, sagður „óátalinn“ en „fáfróður.“ Hann fer aftur út á Skaga og er þar einhvern tíma, en 1840 er hann kominn að Eyvindarstöðum, vinnumaður 47 ára gamall. Húsráðendur á Eyvindarstöðum eru Ólafur Tómasson stefnuvottur og meðhjálpari, og Björg Eyjólfsdóttir. Þar er Guðmundur líka fimm árum síðar skv. manntali 1845 og hefur líklega átt þar heima til æviloka.

Það er alltaf spurning hvernig á að meta einkunnir eins og raktar voru hér að ofan. Það er líklegt að Guðmundur hafi ekki verið tiltakanlega greindur og ekki haft mikið líkamlegt atgervi og hann virðist oft á tíðum ekki hafa gert betur en vinna fyrir mat sínum, a.m.k. getur hann lítið greitt með dóttur sinni. En síðasta áratuginn er hann á fyrirmyndarheimili, á Eyvindarstöðum, ár eftir ár og hefur sýnilega komið sér vel þar á bæ. Það má velta fyrir sér hvaða áhrif uppeldið hefur haft á drenginn þegar hann er slitinn úr faðmi móður sinnar 4-5 ára gamall og honum þvælt á milli bæja 1-2 ár á hverju heimili, sem er knappur tími til að mynda mannbætandi tilfinningatengsl við aðra. Og þótt hann hafi ekki endilega verið hjá slæmu fólki þá er var nú því miður oft svo að niðursetningurinn var hafður útundan. Guðmundur fær aldrei slæmt orð fyrir óknytti eða hrekki og er sagður „frómur“ en vísast hefur hann verið þungur til verka, og kannski ekki alltaf verið fús að beygja skapið undir hlutskipti sitt.

Það á við Guðmund eins og fleiri smælingja að burtför hans héðan úr heimi var kannski einna sögulegast af því sem fyrir hann kom á lífsleiðinni. Um mánaðamótin nóvember desember 1849 var hann sendur norður í Hofsós, væntanlega að sækja varning til jólanna, en þegar kom að Áshildarholtsvatni í bakaleiðinni ætlaði hann að stytta sér leið yfir vatnið á ótraustum ís: „Er kom á það mitt datt hann ofan í, gat þó náð í skörina en jafnóðum brotnaði er hann freistaði að komast upp á ísinn. Maður hét Jón Halldórsson smiður. Dró hann knífa á stein í Áshildarholti. Ætlaði hann fyrst að hestur mundi dottinn í vatnið, hljóp út á ísinn með færisstúf í hendi og gat varpað endanum til Guðmundar. Æpti Jón síðan um hjálp. Kom þá til Sigurður gamli Sigurðsson frá Borgargerði og konur nokkrar frá Borg [þ.e. Sjávarborg]. Hafði Sigurður borð en þær skíði. Kom svo að það gat allt borgið Guðmundi upp á ísinn. En mjög var hann kostaður og var hann studdur af vatninu, og er af því kom er örskammt heim til bæjarins á Borg. Yppti Guðmundur þá hatti sínum og kvaðst í margan lífsháska hafa komist en aldrei þvílíkan. En það var nálegar þegar, að hann datt dauður niður, var borinn síðan heim að Borg og freistaði Sigurður Guðmundsson, sá áður getur, að verma hann í rúmi. En hann reyndist með öllu örendur.“[5]

Þegar Guðmundur lyftir hattinum, nýsloppinn við drukknun, svífur gegnum hugann svipmynd af Indiana Jones sem aldrei missir af sér hattinn í hinum snörpustu sviptingum. En örlög Guðmundar urðu heldur lítilfjörlegri en hins snjalla fornleifafræðings sem er víst enn á meðal vor í einhverri mynd.


[1] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 555-556.
[2] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 911-912.
[3] GA/3, örk 2 (Dóma- og þingbók 1807-1812), bls. 230.
[4] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 474. Sbr. Feðraspor og fjörusprek, bls. 216-219.
[5] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 912.

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga