Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 15. júní 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júní 2024
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 12:51 0 0°C
Laxárdalsh. 12:51 0 0°C
Vatnsskarð 12:51 0 0°C
Þverárfjall 12:51 0 0°C
Kjalarnes 12:51 0 0°C
Hafnarfjall 12:51 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
Eftir Guðmund Inga Guðbrandsson
15. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
13. júní 2024
Eftir Ásgerði Pálsdóttur
09. júní 2024
Eftir Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur
05. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júní 2024
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Beinakelda Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH (1966)
Beinakelda Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH (1966)
Pistlar | 12. september 2021 - kl. 09:54
Þættir úr sögu sveitar: Millibilsástand á Beinakeldu
10. þáttur. Eftir Jón Torfason

Næsta áratuginn eftir brottför Guðrúnar Guðmundsdóttir frá Beinakeldu 1797, og áður er rakið, voru ábúendaskipti nokkuð tíð þar. Fyrst komu þangað Marteinn Guðmundsson og Þuríður Skúladóttir sem var móðir Helgu Sveinsdóttur, ekkju Jóns Árnasonar á Stóru-Giljá, en Marteinn var síðari maður hennar. Þau bjuggu hér 1798-1801 og aftur 1803-1807 en voru í millitíðinni á Stóru-Giljá (1801-1803). Þau fluttu síðan að Grund í Svínadal og bjuggu þar frá 1807 til 1810 að Marteinn lést. Eftir það fór Þuríður til Helgu dóttur sinnar og bar beinin í Blöndudalshólum, lést þar 2. júlí 1824.

Þau Marteinn og Þuríður höfðu gifst 1782 og bjuggu fyrst á Syðri-Bægisá í Öxnadal og síðar á Saurbæ í Hörgárdal frá 1786-1797 að þau fluttu vestur í Húnaþing. Fræðimaðurinn Eiður Guðmundsson frá Þúfnavöllum segir um Martein að hann hafi verið mestur bóndi í Myrkársókn, dugnaðarmaður hinn mesti og talin fépúki.[1] Um það hef ég ekki fundið heimildir í opinberum gögnum úr sýslunni en hvorutveggja getur svo sem vel verið rétt eða þá ekki rétt.

Ekki var búið ýkja stórt hjá Marteini skv. búnaðarskýrslu 1803. Þar var ein kýr og ein kvíga, 21 ær og 10 lömb og 2-3 hestar tamdir. Lausafjártíundir hans á þessum árum eru frá 6-9 hundruð. En fyrstu ár aldarinnar voru afar hörð eins og áður hefur verið getið.

Það sem helst gerðist sögulegt í tíð Marteins á Beinakeldu, var í raun það sem ekki gerðist, þ.e.a.s. Marteinn kom í veg fyrir að ólétt vinnukona ætti barn sitt á bæ hans. Sú hét Ingveldur Rafnsdóttir og hafði í för með sér unga dóttur sína Agnesi Magnúsdóttur sem síðar varð alþekkt. Ingveldur hafði verið vinnukona á Beinakeldu hjá Marteini og Þuríði árið 1798 og réðst nú öðru sinni þangað á krossmessunni (3. maí) árið 1800 þannig að ekki hefur þeim líkað illa við hana. Þegar Ingveldur byrjaði að sinna verkum sínum, hvort heldur hún var að snúast kringum lambfé eða við vallar ávinnslu, eða þegar hún háttaði í baðstofunni, kom í ljós að hún var með barni. Marteinn taldi sig geta notað klásúlu í „smáa letrinu“ í ráðningarsamningnum og sagði henni þegar upp vistinni vegna þess að hún væri ólétt og gæti því ekki skilað fullri vinnu, en hafa verður í huga að vinnufólk var jafnan ráðið til ársvistar eða dvalar. Þó var Ingveldur á Beinakeldu fram í fimmtándu viku sumars, þ.e. til júlíloka, en var þá rekin burt. Hún virðist hafa farið nánast félaus frá Beinakeldu, enda voru vinnukonur oft lítið meira en matvinnungar, hvað þá ef þær höfðu barn í eftirdragi. Það sem eftir lifði sumars flakkaði Ingveldur um í Þingi og Vatnsdal en barnið eignaðist hún í Brekkukoti 2. nóvember 1800, dreng sem var skírður Jóas, fyrsta barneignarbrot Illuga Þorvarðssonar bónda á Litlu-Giljá (37 ára að aldri) en þriðja brot Ingveldar. Nafnið Jóas er ekki algengt en kemur nokkrum sinnum fyrir í Gamla testamentinu, nafn sem presturinn í Þingeyraklaustursókn, séra Sæmundur Oddsson, hefur trúlega stungið upp á.[2]

Uppeldi drengsins var þannig bundið fæðingarhreppi hans, þ.e. Sveinsstaðahreppi enda átti faðirinn þar heima, og þar var hann fyrstu æviárin. En 10 árum síðar var málið tekið upp á nýjan leik og eftir rannsókn og réttarhald var talið sannað að brotið hefði verið á Ingveldi með brottrekstrinum, hún hafi verið löglega vistráðið hjú á Beinakeldu og Jóas litli hefði því að réttu lagi átt að alast upp á kostnað Torfalækjarhrepps. Niðurstaðan varð sú að Jóas var þaðan í frá á framfæri Torfalækjarhrepps til fermingar, dvaldi lengst í Sauðanesi.

Svo virðist sem Þuríður, kona Marteins bónda, hafi viljað standa við vistarráðin því Ingveldur sagði svo frá við áðurnefnd réttarhöld: „Kona hans, Þuríður Skúladóttir, vildi að ég hefði notið þar húsaskjóls árið út sem mér hafði þar lofað verið um fardagaleyti sama ár þá ásigkomulag mitt eður barnsþungi kom fyrst til umtals, en fyrstur vissi þó Marteinn sál[ugi] af því, að ég þunguð var, því hann vissi það sunnudag næstan fyrir krossmessu á meðan ég var enn á Litlu-Giljá og áður en ég þaðan fór. Um fardagaleytið réði hann sér vinnukonu í minn stað, hvör þó ei til hans kom fyrr en um lestatíma. Frá fardögunum þangað til ég í burt fór frá Beinakeldu í fimmtándu vikunni þjónaði ég þeim hjónum og gjörði það sem gat fyrir þau af útivinnu.“[3]

Segir ekki meira af Marteini og Þuríði hér en á eftir þeim komu hingað Ólafur Jónsson og Helga Steinsdóttir og bjuggu hér árin 1801-1803 munu hafa komið norðan úr Hörgárdal með Helgu Sveinsdóttur konu (og síðar ekkju) Jóns Árnasonar Tómassonar. Þetta fólk úr Hörgárdal/Öxnadal er sýnilega í nánum vina- og frændsemistengslum. Þau Ólafur og Helga fóru að Stóru-Giljá 1804, eru síðan talin í „Giljárhúsum,“ sem mun eiga við Beinakeldu, 1805-1806, en fluttu loks að Keldulandi á Skaga. Ólafur dó 1811 en Helga giftist aftur og lifði til 1828. Meðal afkomenda þeirra er Þorsteinn (eldri eða elsti) á Geithömrum (f. 1873).[4]

Eitt ár voru húsráðendur hér Gamalíel Jónsson og Guðrún Aradóttir, sem nefnd voru í síðasta þætti (1807-1808). Með þeim var að vist sem húsmaður skrautlegur katakter, Hrólfur Helgason (1731-1810) að nafni, ættaður úr Skagafirði. Skv. manntalsbókum er hann á sveimi í þessari sveit um árabil, er á Stóru-Giljá 1801 og 1804 og Akri 1808 en á endanum varð hann úti á ferð í Langadal.

Gísli Konráðsson setur smá glefsu um Hrólf þennan í Húnvetninga sögu: „Hafði hann víða verið að vistum og oft laus og stundum freistað þess að fara með kukl og eitt sinn verið víttur mjög um það af Jóni prófasti gamla er síðast var að Grímstungum. Hugðist Hrólfur að vekja upp og starfaði með mannsbein. Tókst það ei því prófastur bagaði hann að sögn Hrólfs.“[5]

Kristín (1785-10. júní 1848) dóttir Hrólfs fylgir honum á þessum árum. Hún var alla ævi í vinnukonustétt, eignaðist einn son sem dó ungur. Hrólfur átti nokkur börn önnur og ílentust flest í Skagafirði, skv. islendingabok.is.

Nú sátu á Beinakeldu um fimm ára skeið (1808-1813) Illugi Halldórsson (1774-1854) og Bríet Snæbjörnsdóttir (1776-1838), höfðu búið áður þrjú ár á Akri og fóru héðan að Brekku en fluttu síðan fram í Vatnsdal þar sem þau bjuggu til æviloka. Bríet var dóttir séra Snæbjarnar Halldórssonar prests í Grímstungum. Hún var áður gift Sæmundi Jónssyni frá Haukagili en hann varð úti við björgun fjár þegar gerði snöggt norðan áhlaup 4. mars 1801. Þau Bríet og Sæmundur áttu tvo syni, Jón (f. 1800) og Sæmund (1801) sem fæddist eftir lát föður síns, en síðan eignuðust þau Bríet og Illugi barn nánast á hverju ári. Þau bjuggu jafnan með aðeins eina vinnukonu, en höfðu sjaldan eða aldrei vinnumann, svo hjónin hafa mátt halda vel á spöðunum meðan börnin voru á æskuskeiði.  Lausafjártíund þeirra á Beinakeldu var lengst af 6 hundruð sem er heldur í lægri kantinum.

Eftir Illuga og Bríeti komu að Beinakeldu Gróa Ólafsdóttir (1769-1830) og Ólafur Björnsson (Mála-Ólafur 1769-1849). Þau voru hér um tíu ára bil en áður á Reykjum og síðar að Litlu-Giljá, og bjuggu afkomendur þeirra hér lengi síðan. Ólafur kom víða við mál manna á sínum æviferli og verður oft getið í þessum þáttum.

Vinnufólk var nokkuð margt á Beinakeldu á þessum árum, sumir aðeins árið og komu fæstir meira við sögu sveitarinnar. Þó skal nefna Guðmund Geirmundsson (1779-15. júní 1846) sem var hér aðeins eitt ár 1798-1799. Hann er ættaður af Snæfellsnesi,[6] en kvæntist heimasætu úr Vatnsdal, Kristínu Þorleifsdóttir (1783-28. júní 1846), og ílentist í héraðinu. Sonur þeirra, Benjamín (23. ágúst 1811-11. maí 1879), býr á Torfalæk 1840, síðar á Másstöðum og loks á Ægisíðu í Vesturhópi. Benjamín átti eina alsystur, Önnu (1815-1889) sem ílentist á Snæfellsnesi, nokkur hálfsystkin að föðurnum en tvo hálfbræður að móðurinni, Pétur Jónsson (1819-1833) og Gísla Jónsson (1821-1892) lengi bónda á Húnsstöðum og verður hans getið síðar.[7]

Bríet Snæbjörnsdóttir var prestsdóttir og afi hennar var biskup á Hólum. Bróðir hennar hét Halldór og „flæktist í Skagafjörð“ eins og Jóns Espólín sýslumaður og sagnaritari orðar það, heldur óvirðulega að manni sýnist. Dóttir Halldórs, þannig bróðurdóttir Bríetar, hét Ingibjörg  (1790-1846), sem eftir miðjan aldur er orðin niðursetningur í heimasveit sinni, Vatnsdalnum, skv. manntölum 1840 og 1845.[8] Heilsan hefur því tiltölulega snemma horfið henni og af ummælum um hana að dæma hafði hún aldrei haft af miklu að má. Við húsvitjun 1809 er Ingibjörg, þá 19 ára, hjá Bríeti frænku sinni á Beinakeldu, kölluð vinnukind, er að vísu læs, en „meinlaus og fákunnandi.“ Líklega hefur prestsdótturinni ekki veitt af betri vinnukrafti við ómegðina hjá sér svo næsta ár ræður hún Guðrúnu Arnbjörnsdóttur, sem hafði sumarið 1810 alið barn húsbónda sínum Jónasi Ólafssyni á Kringlu eins og síðar verður getið, en kemur hinni fákunnandi frænku sinni fyrir á Kringlu í staðinn. Á því heimili, sem var þá örugglega einn óskemmtilegasti samastaður í hreppnum sem völ var á, virtist Ingibjörg eiga vel heima, enda er hún að sögn sóknarprestsins „lítt læs, meinhæg, dauf, fátt kunnandi,“ en á hinn bóginn „þæg og vinnur nokkuð.“ Þessi vesalings stúlka var að vísu ekki prestsdóttir en hún átti þó prest fyrir afa og  biskup fyrir langafa, en var nú komin næstum því á botninn í goggunarröðinni í sveitinni.

Síðast hjúa á Beinakeldu þessi misserin skal nefna Benóníu Sigurðardóttur (f. 1792, d. 26. desember 1846)  sem er vinnukona hjá Bríeti og Illuga árin 1811 og 1812. Ég verð að trúa því hún hafi staðið betur í stykkinu en fyrri vinnukonurnar, því hún er systir Halldóru langa-langa-langaömmu minnar, raunar aðeins hálfsystir því Sigurður faðir þeirra og langa-langa-langa-langaafi minn var einn af þeim görpum, ef svo má kalla, í harðabóndaættinni sem tók að eignast börn á gamals aldri. Benónía er skv. umsögn í húsvitjunarbókinni „sæmilega læs, þæg og gagnleg, sæmilega kunnandi.“

Á næstu árum er hún vinnukona á ýmsum bæjum um miðbik sýslunnar, m.a. prestsetrinu Breiðabólstað í Vesturhópi. Eftir þriggja ára dvöl þar var hún barni aukin og þá send burt af bænum og eignaðist dóttur 14. nóvember 1822, er þá sögð húskona í Vatnsdalshólum. Barnið var kennt Guðmundi nokkrum Jónssyni sem var vinnumaður á Breiðabólstað en bjó síðar lengi á Hurðarbaki í Vesturhópi. En málið var ekki alveg svo einfalt því faðirinn mun hafa verið prestssonurinn á Breiðabólstað, séra Þorvarður Jónsson, enda ólst stúlkan, Kristín að nafni, að hluta til upp á Breiðabólstað.[9] Þegar hún var uppkomin giftist hún Hans Natanssyni Ketilssonar skáldi og bjuggu þau lengi á Þóreyjarnúpi. Kristín lifði langa ævi, náði að skyggnast inn í 20. öldina, dó 5. september 1900 og var þá á Syðri-Þverá í Vesturhópi.

Benónía var næsta áratuginn ýmist húskona eða vinnukona á bæjum í Vesturhópi og á Vatnsnesi en frá 1835 til dauðadags 26. desember 1846 bjó hún á Vigdísarstöðum, við vegamótin að Hvammstanga, með Helga nokkrum Guðmundssyni (1808-1867) og er þar með kominn í húsfreyjusess. Þau áttu ekki börn saman.

Við uppgjör á dánarbúi Benóníu var skuldlaus eign hennar 53 ríkisdalir sem komu í hlut Kristínar dóttur hennar.[10] Ætli sé ekki rétt að fá svolitla sveitasælu hér í lokin með tveimur vísum úr kvæðinu „Íslands sæla“ eftir Hans Natansson, þar sem skáldið yrkir í stíl Jónasar Hallgrímssonar:

Fífill rís á fætur,
fjólan varpar blund,
sigrar svala nætur
sólheit morgunstund,
ungu lömbin leika fríð,
sauðahjörð og fáka fjöld
fagra skreytir hlíð.

Fuglinn fær sér maka,
fóstrar ungan nið,
fiskar ferðast taka
fjarðar inn á mið,
lax und fossi finnur grið,
þar sem fyrra að hann ár
annaðist skyldulið.


[1] Eiður Guðmundsson frá Þúfnavöllum: Mannfellirinn mikli (Ritsafn I), bls. 80.
[2] Fáeinir menn báru þetta nafn í Gamla testamentinu, m.a. einn konungsson sem var falinn í sex ár fyrir ofsækjendum en hafinn til konungstignar á sjöunda aldursári (Sbr. Biblían. Síðari króníkubók 22.-24. kafli). Ævi Jóasar varð ekkert í líkingu við örlög þessa Biblíu-Jóasar.

[3] ÞÍ. Húnavatnssýsla GA/3, örk 2 (Dóma- og þingbók 1807-1812), bls. 221.
[4] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 827.
[5] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 474.
[6] Var í Rifi 1801. Húsmaður á Síðu 1816. Bóndi á Másstöðum 1845.
[7] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 519 og Hlynir og hreggviðir, bls. 28-29.
[8] Vinnustúlka á Kringlu 1816, niðursetningur á Þórormstungu 1845. Hún er í Þórormstungu niðurseta 1840 en vinnukona í Kárdalstungu 1835. Í Þórormstungu var hún hjá frændfólki sínu.
[9] Niðjatal Jóns prests Þorvarðarsonar, bls. 138. Þorvarður varð síðar prestur suður á landi en Kristín mun hafa orðið eftir í skjóli afa síns á Breiðabólstað.
[10] Skiptabók ED1/5, örk 2, bls. 66 og Dánarbú ED2/21, örk 4, nr. 13.

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið