Brandaskarð. Mynd: Ljósmyndasafn HAH.
Brandaskarð. Mynd: Ljósmyndasafn HAH.
Pistlar | 26. september 2021 - kl. 21:21
Stökuspjall: Bragur nýr og forn
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Þau blóm sem uxu
í brjósti hans
við bragsins yl,
þau færðu gleði,
frið og huggun
fjöldans til. RK

Skáldið Rúnar á Skagaströnd yrkir upphafsvísu spjallsins um nágranna sinn og kollega, bóndann á  Brandaskarði. Um Vilhjálm Benediktsson sem tekur fásinnið og fjallasalinn fram yfir mannfagnað:

Þegar guðleg gifta sína
góðvegi mig lætur kanna
geng ég helst með gleði mína
götuna til öræfanna. VB

Vilhjálmur Bendiktsson átti fyrstu bernskuár sín í systkinahópi, m.a. út á Ytri-Ey, fimm þeirra lifðu og hann var sá þriðji í röðinni. Brynjólfur í Þverárdal, bóndi á stórri jörð fram í Hlíðarhreppi og afkomandi Bjarna þjóðskálds og amtmanns Thorarensen kom til fjölskyldunnnar og bauð Vilhjálmi fóstur. Hann var í barnlausu hjónabandi og vildi arfleiða drenginn. Saga geymist af því hvernig sú ráðagerð kviknaði og Sigríður dóttir Vilhjálms rekur í Húnavökugrein, sjá krækju hér neðar.

En sár hafa Vilhjálmi verið þessi vistaskipti og þegar hann var kominn á vinnumannsaldur réðst hann út að Geitaskarði og gefur þeim árum þessa fallegu vísu:

Bestu æviárin mín
undi ég þar í garði.
Því vill heilla hugann sýn
heim að Geitaskarði. VB

Í vísnasafni Sigurðar frá Selhaga, næsta bæ við Þverárdal, geymist langt ljóð Vilhjálms og gott, Land og þjóð sem hefst þannig:

Hljóðs ég bið svo heyrast megi
hljómar bragur nýr og forn.
Burt frá glaumsins breiða vegi
býð ég ykkur stundarkorn.

Inn til heiða, upp til fjalla
unir heilög fegurð sér
himinbláma og hvíti mjalla
hrifnum augum lítum vér.

Eitthvert hulið afl oss dregur
upp í blámans víða kór.
Æskan hvikar ei þó vegur
ærið brattur sé og mjór. VB

Síðar í ljóðinu segir höfundur:
Líttu yfir landið bjarta
lof sé þeim er gaf þá sýn.
Drottinn andi á þitt hjarta
eilíf hrifning verði þín. VB

Afi Vilhjálms, þ.e. móðurfaðir hans var Friðgeir Árnason rímnaskáld í Hvammi á Laxárdal, sem búið hafði fyrstu árin með föður sínum, Árna Jónssyni stutta og Ragnheiði systur sinni og fjölskyldu á næsta bæ, stórbýlinu Mörk, en flutti síðar með konu og dætur að Hvammi.

Náfrændi Vilhjálms og annar afastrákur Friðgeirs í Hvammi var Friðrik Aðalsteinn prófastur á Húsavík, var einnig skáldmæltur auk þess að vera tónlistarmaður. Friðrik gerði einnig listagarðinn frægan jafnframt prestskapnum, átti einnig sama afmælisdag og Jón forseti og skopaðist að sér sjálfum, dagurinn hans hyrfi í skuggann af forsetanum:

Margt er annars undarlegt á Fróni
ég ýki lítið.
Þeir gleymdu mér, en mundu eftir Jóni
já, margt er skrýtið. Sr.Friðrik A. Friðriksson

Gefum Rúnari Kristjánssyni á Skagaströnd lokaorðin um Vilhjálm á Brandaskarði, þann sem kominn var af skáldaslóðum á Laxárdal og kannski hefur það ráðið einhverju um vilja Brynjólfs í Þverárdal að sækjast eftir Vilhjálmi aftur fram í dalinn:

Ég veit að marga
vermdi það
sem Villi kvað,
því vorið bjó
í hugsun hans
og hjartastað.

Og lengi mun
því ljós að sjá
við lágan garð,
sem varpar bliki
björtu og hlýju
um Brandaskarð. RK

Fleiri ljóð - og sögur:
Rúnar Kristjánsson – ljóð um Vilhjálm á Brandaskarði: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=4084
Land og þjóð/VB: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=4169
Vilhjálmur Benediktsson: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=15947
sr. Friðrik Aðalsteinn: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=17831
Guðríður B. Helgadóttir: Eftirmáli um hirðskáld: https://timarit.is/page/6361721?iabr=on#page/n123/mode/2up/search/brandaskar%C3%B0i

Sigríður Vilhjálmsdóttir: Aumt er að éta úr einni skel:  https://timarit.is/page/6361729?iabr=on#page/n131/mode/2up/search/brandaskar%C3%B0
Þáttur Guðmundar Frímann um hirðskáld Brynjólfs í Þverárdal: https://timarit.is/page/6361317?iabr=on#page/n27/mode/2up/search/h%C3%BAnavaka%202006 
Ljóð Rúnars um Steinunni í Þverárdal, eiginkonu Brynjólfs: https://timarit.is/page/6361627?iabr=on#page/n29/mode/2up/search/h%C3%BAnavaka%202006

Ingi Heiðmar Jónsson
 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga