Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Mánudagur, 2. október 2023
   m/s
C
Ókeypt
huni.is - RSS-efnisveita
 
Október 2023
SMÞMFL
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930311234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:00 NNV 5 1°C
Laxárdalsh. 01:00 N 10 4°C
Vatnsskarð 01:00 NNA 8 4°C
Þverárfjall 01:00 NA 8 4°C
Kjalarnes 01:00 331.0 3 7°C
Hafnarfjall 01:00 ANA 12 9°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. september 2023
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
27. september 2023
Eftir Sigurjón Þórðarson
25. september 2023
58. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. september 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
23. september 2023
Eftir Bjarna Jónsson
19. september 2023
Eftir Svölu Runólfsdóttur, Elínu S. Sigurðardóttur og Dagnýju Sigmarsdóttur
13. september 2023
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
12. september 2023
N 65° 39' 32.04" V 20° 16' 55.2"
Pistlar | 26. september 2021 - kl. 21:32
Þættir úr sögu sveitar: Guðmundur Þórðarson, taka tvö
11. þáttur. Eftir Jón Torfason

Í grúski eins og hér er verið að fást við er ein helsta reglan að skyggnast sem víðast, teygja sig sem lengst, láta einskis ófreistað, velta hverjum steini og fleira í svipuðum dúr. Í umfjöllun um Guðmund Þórðarson frá Beinakeldu, þáttur nr. 9 hér á undan, varð mér á að brjóta þessa reglu illilega, með því að fletta ekki nógu langt í bókum sýslumannsins, átti þó að muna þau fornu ummæli að Húnvetningar rektu ættir sínar eftir dómabókum. Það kom sum sé á daginn að Guðmundur var dreginn fyrir dóm Björns Blöndal sýslumanns í Hvammi þann 5. desember 1835 og kærður fyrir lausamennsku og ólöglega nálægð við barnsmóður sína.[1]

Þau Guðmundur Þórðarson og Guðbjörg nokkur Gamalíelsdóttir höfðu sum sé átt saman dótturina Guðrúnu, sem fæddist á Kálfshamri í Hofssókn 20. maí 1834. Báðir foreldrarnir voru bláfátæk þannig að uppfóstur dótturinnar lenti á ábyrgð sveitarinnar, þó líklega hafi þau reynt að borga eitthvað með henni. Guðbjörg var vinnukona á Kálfshamri næstu ár og Guðmundur var þar um tíma en hélt sér annars uppi á hálfgerðum flækingi í sveitinni. Það var ekki nógu gott því hætta var á að með nánum samvistum myndu þau afla fleiri barna sem búast mátti við að ykju á sveitarþyngslin. Yfirvöldin settu því eins konar nálgunarbann á Guðmund eins og venja var þegar svona stóð á. Að baki málarekstursins má sjá skuggann af „Stóra Bróður“ sem fylgist með háum sem lágum, aðallega þó lágum, þótt tæknin til þeirra hluta hafi ekki verið jafn háþróuð þá og nú á dögum.

Í upphafi réttarhaldsins[2] var Guðmundi boðað að „þola ákærur og dóm að lögum til straffs, bóta og málskostnaðar útláta fyrir lausamennskuflakk hans, í forboðinni grennd við barnsmóður hans, gegn lögum og yfirvalda boði.“ Síðan segir: „Tjáist Guðmundur vera 43 ára gamall, fæddur á Beinakeldu í Torfalækjarhrepp, í hvörjum hrepp hann tjáist uppalist hafa og dvalið allan sinn aldur, stundum í vistum en oftar á flakki eða eins um nokkurn tíma á hvörjum bæ, þar Guðmundur vegna vankunnáttu til verka gat hvergi vist fengið að staðaldri í hreppnum. Vorið 1830 kveðst hann flutt hafa sem vistarmaður að Króki í Vindhælishrepp og hafa þess sama árs vetur verið léður að Hróastöðum í sama hrepp, hvar hann tjáist verið hafa þau næstu 2 ár þar eftir, síðan 1 ár í Örlogastaðaseli í sama hrepp, að hálfu hjá bónda Lofti Magnússyni sama staðar en að hálfu lausamaður, þar til um veturinn í febrúarmánuði 1834 hafi auglýst verið hlutaðeigandi amtmanns skipun, að flytja burtu fjögra mílna veg frá Guðbjörgu Gamalíelsdóttur, sem þá hafi verið í vist á Sviðningi í sama hrepp, og með hvörri hann það sama ár barn átti í lausaleik, er síðan hefur framfært verið af Vindhælishrepps fátækrakassa allt til þessa. Þó kveðst Guðmundur ei að staðaldri hafa burtu farið úr Örlogastaðaseli fyrr en í maímánuði 1834, þá hann fór í vist að Ægisíðu í Þverárhrepp, hvar hann dvaldi til næstliðins vors. Í fyrravetur tjáist hann hafa ráðið sig til vistar hjá Benedikt bónda á Kálfshamri í Hofs kirkjusókn og Vindhælishreppi, hvar barnsmóðir sín hafi til vistar verið ásamt barni þeirra, en Benedikt hafi sagt sér að hún mundi í burtu fara. Í næstliðnum maí mánuði kvaðst hann því farið hafa út eftir en frétt þá á leiðinni að barnsmóðir sín væri kyrr á Kálfshamri og að Benedikt væri bannað að taka sig, kveðst hann þá verið hafa um tíma í þjónustu á Keldulandi allt til þess 12 vikur hafi verið af sumri, hafi sér þar og svo vist boðist árlangt, en vegna þess að það hafi verið einmitt í sömu kirkjusókn, sem barnsmóðir hans hafi átt heimili, hafi það ei heldur leyft verið. Eftir það tjáist hann hafa verið hingað og þangað í Hofs kirkjusókn þar ýmsir hafi beðið sig að rista torf og gjöra hitt og annað smávegis, og kveðst hann hafa verið 1, 2 og 3 daga á hvörjum stað og þar á meðal 3 daga á Kálfshamri hvar barnsmóðir hans er. Í Höfnum kveðst hann verið hafa vikutíma og hér um bil mánuð á Kaldrana. Stundum kveðst hann róið hafa og fengið með því dálítið af fiski. Líka hafi sumir gefið sér þóknun fyrir það sem hann hafi hjá þeim unnið, hvör eftir velþóknan. Í áformi kveðst hann haft hafa að fá húsnæði vetrarlangt annaðhvört í Ásbúðum, norðasta bæ í Vindhælishrepp og Húnavatnssýslu, eða þá á Hrauni næsta bæ þar við í Skagafjarðarsýslu, hvar hann þenkt hafi að vera við það af matföngum sem hann eignast hafi á næstliðnu sumri. Ekkert annað kveðst Guðmundur eiga sér til framfæris, ei heldur neina vist vísa eftirleiðis, enda sé sér ekki vel skipað þar hann aldrei hafi vanist slætti fyrr en lítið eitt í fyrrasumar.“

Varla er von að búrunum, sem héldu utan um fátækrakassa sveitanna, hafi litist vel á þessa frammistöðu. En kannski hafði Guðmundur lært í kverinu um boðskap Frelsarans í Mattheusarguðspjalli og tekið nokkuð bókstaflega: „Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?“[3]

Í framhaldinu grípur Guðmundur til vanalegra varnarviðbragða alþýðufólks á þessum árum, að afsaka sig með „einfeldni“ eða vanþekkingu þegar það var sakað um brot á lögum og reglugerðum yfirvaldanna. Sú vörn var vægast sagt veikburða og Björn sýslumaður felldi sinn dóm, studdan mörgum lagagreinum og paragröffum:

„Guðmundur meðkennir að hann af einfeldni hafi yfirhugsað, að sér hefði bannað verið að uppihalda sér í Vindhælishrepp og að það hafi verið yfirsjón sín að hann ei beðið hafi sýslumanninn að bjóða sig til vistar á manntalsþingunum næstliðið vor, en annað kveðst hann ei hafa fram að færa sér til afsökunar. Að undanförnu hefur Guðmundur ei ákærður eða dæmdur verið fyrir nokkurt lagabrot. Sá áðurnefndi Guðmundi auglýsti amts úrskurður er nú hér fram lagður og markaður litra B, svohljóðandi.[4]

Í sök þessari var þar næst upp sagður svohljóðandi dómur:

Það er með þess innstefnda Guðmundar Þórðarsonar eigin óþvingaðri meðkenningu hér fyrir rétti í dag fullsannað, að hann síðan á næstliðnum vinnuhjúaskildaga hefur sem lausgangari uppi haldið sér á ýmsum stöðum í Vindhælishrepp, einmitt í því plássi sem honum með amts úrskuði af 27. desember 1833 var bannað að vera, allt svo lengi að barnsmóðir hans ætti þar heimili. Að sönnu er sýslumanninum það kunnugt að Guðmundur þessi er ófullkominn til verka, einfaldur og fákunnandi, hvörs vegna honum hefur tíðum[5] að undanförnu gengið örðugt vistir að fá, en engu að síður virðast þessar kringumstæður ei geta afsakað hann frá að sæta því straffi sem tilskipunin af 19. febrúar 1783, & 3, samanborin við kóngsbréf af 25. júlí 1808, & 7, og reglugjörð af 8. janúar 1834, & 20, hafa fyrir slíka lausamennsku fastsett, þar hann forsómað hefir samkvæmt boði tilskipunarinnar af 19. febrúar 1783, að bjóða vist sína á næstliðna vors manntalsþingum, hefði hann ei upp á annan máta getað vist fengið. Þó virðist enn óafsakanlegri breytni Guðmundar í því, bæði að ráða sig til vistar og síðan að uppihalda sér sem lausa- og daglaunamaður einmitt í því plássi sem honum árinu fyrir var af hlutaðeigandi amtmanni bannað að vera, fyrir hvað plakat af 12. júní 1827 og tilskipun af 21. desember 1831 og svo hafa straff ákveðið. Fyrir þetta tvöfalda lagabrot virðist nú Guðmundur eftir áðurnefndum lagagreinum ei geta léttar af komist en að sæta 20 vandarhagga refsingu, hvar hjá hann hlýtur að tilskyldast að standa sérhvörn af þessari sök og dómsins fullnægjugjörð löglega leiðandi kostnað, og sömuleiðis til að innganga löglega vist, hvönær sem hann getur hana fengið.

Því dæmist rétt að vera: Lausamaður Guðmundur Þórðarson skal straffast með tuttugu vandarhagga pólití aga, samt standa sérhvörn af þessari sök og dómsins fullnægjugjörð löglega leiðandi kostnað eftir hlutaðeigandi amtmanns ályktun. Dómnum ber eftir yfirvaldsins nákvæmari ráðstöfun fullnustu að veita. Guðmundi er dómurinn fyrir réttinum upp lesinn og tjáist hann ekki óska hönum innstefnt til æðri réttar, ei heldur hálfbróðir Guðmundar, bóndinn Konráð Konráðsson á Hólabaki, sem hér er ásamt honum nær staddur.

Réttinum var að því búnu upp sagt.
Blöndal, H. Guttormsson, J. Jónsson“

„J. Jónsson“ er nær örugglega Jón Jónsson hreppstjóri á Kornsá en „H. Guttormsson“ er Hjörleifur Guttormsson sem varð stúdent frá Bessastaðaskóla vorið 1832 en gerðist skrifari hjá Blöndal sýslumanni næstu þrjá árin. Síðar varð hann prestur austur á landi og síðast í Svarfaðardal þar sem afkomendur hans búa enn.


[1] Ekki bætir það minn hlut að þetta er nefnt í ágætri bók eftir Vilhelm Vilhelmsson: Sjálfstætt fólk, á bls. 205, get þess hér neðanmáls þannig að minna beri á mistökunum!
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/6, örk 2, bls. 141-147.
[3] Biblían. Mattheusar guðspjall 6. kafli, 26. vers.
[4] Amtmanns úrskurðurinn, um að Guðmundi sé bannað að vera í nálægð við barnsmóður sína, er ekki færður inn í dómabókina.
[5] Óljóst.

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2023 Húnahornið