Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 18. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 22:56 0 0°C
Laxárdalsh. 22:56 0 0°C
Vatnsskarð 22:56 0 0°C
Þverárfjall 22:56 0 0°C
Kjalarnes 22:56 0 0°C
Hafnarfjall 22:56 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Jónas Tryggvason í Stafnsrétt. Mynd: HAH/Sigursteinn Guðmundsson
Jónas Tryggvason í Stafnsrétt. Mynd: HAH/Sigursteinn Guðmundsson
Pistlar | 07. október 2021 - kl. 16:53
Sögukorn: Tuttugu tíma vesturför
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Guðmundur bróðir Tryggva í Finnstungu bjó vestur í Eyjahreppi á Snæfellsnesi. Þar voru þrír sveitahreppar saman í sýslu kenndri við Hnappadal og fylgdu Snæfellsnesinu.

Guðmundur frændi, f. 1902, eignaðist unga konu þegar hann var kominn nær fertugu og þau eignuðust hóp dugandi barna sem ólust upp í Dalsmynni, en þau elstu fæddust í Kolviðarnesi þar sem fjölskyldan hafði áður búið.

Margrét móðir Guðmundar var einnig móðir Tryggva afa míns og sendi son sinn frá Kolviðarnesi til föður síns, Jónasar í Finnstungu um 12 ára aldur að ósk föðurins, en Jónas átti engin önnur börn á lífi.

Systur Jónasar Jónssonar í Tungu voru heldur ekki barnmargar: Sigurlaug á Torfalæk átti soninn Jón, föður Torfalækjarbræðra en Guðrún í Mjóadal, átti tvö börn, Sigurjón Jóhannsson í Blöndudalshólum og Björgu Jóhannsdóttur í Köldukinn. Niðjar þeirra búa enn á þessum jörðum og eins Jóhannes Torfason langömmubarn Sigurlaugar á Torfalæk. En Tryggvi bróðir minn býr í Ártúnum og Guðmundur frændi okkar Halldórsson í Finnstungu.

Komum nú aftur til Tryggva afa. Hann flutti ungur og ókunnugur til föður síns, sem bjó í barnlausu hjónabandi í Finnstungu. Afi fermdist með Klemensi í Bólstaðarhlíð, fór suður í Flensborgarskólann, kom heim í búskapinn, sinnti kennslu heima í sveitinni, eignaðist fyrir konu Guðrúnu Jóhönnu frá Hvammi á Laxárdal og af Móbergsætt og þau saman fjögur börn.

Hann stofnaði karlakórinn með Eyvindarstaðabræðrum í Norðurstofunni í Bólstaðarhlíð í árslok 1924, en kórinn heldur venjulega upp á afmæli sín sunnudaginn fyrstan í sumri en þá var fyrsta söngskemmtunin 1925.

En þannig bjuggu þeir bræðurnir, Guðmundur vestur í Dalsmynni en Tryggvi í Tungu, en hann varð ekki langlífur, lést aðeins sextugur. Guðmundur í Dalsmynni náði níræðisaldri og hélt góðri heilsu. Tveir elstu synir þeirra Dalsmynnishjóna eru látnir, sá yngri nú í lok september, en það var Ágúst Guðjón, ævinlega nefndur Gösli og kominn vel á áttræðisaldur en Guðmundur Reynir sem lést fyrir rúmum þremur árum var á líkum aldri og bróðir hans þegar hann lést.

Nú eigum við kost á að rabba saman á fésbók alla daga og hafa dauðsföll þessara frænda minna sem ég þekkti varla, ásamt orðsendingum okkar Svövu Svandísar í Borgarnesi og Ástdísar á Blönduósi, systra þeirra orðið mér hvatning til að rifja upp fróðleik um fleiri frændur og sækja mér nokkrar línur til Jónasar föðurbróður í dagbókina góðu en þar höfum við samtímaheimild um andlát og útför Margrétar langömmu, móður Tryggva og Guðmundar í Dalsmynni:

                     Dagbók - Jónas Tryggvason Finnstungu 1948

„1. júlí Mundi frændi frá Kolviðarnesi hringdi hingað í fyrradag og sagði lát ömmu, sem dó þá um morguninn, þ. 29. júní eftir stutta legu.

Jarðarförin hefur enn ekki verið ákveðin en verður að líkindum í næstu viku.

          4.júlí Lítill frændi fæddist um tvöleytið í dag – Grétar F. Guðmundsson

6. júlí Jarðarförin hennar ömmu er ákveðin á morgun. Við ætlum að leggja af stað kl. sex í fyrramálið og komum væntanlega heim aðra nótt. Bíll frá Zóphóníasi hefur verið fenginn til fararinnar og líklegast að Kiddi(Kristján Snorrason) fari með okkur. Auk okkar héðan fara nokkrir menn úr karlakórnum til þess að annast söng að einhverju leyti og svo séra Gunnar sem ætlar að flytja kveðju að norðan. Í dag hefur verið fremur leiðinlegt veður, þokuloft og úrfelli, en vonandi verður það betra á morgun.

 8. júlí Við komum heim úr vesturferðinni á öðrum tímanum í nótt og höfðum þá verið tæpar 20 klukkustundir að heiman. Fyrir fáum árum hefði það verið talin fjarstæða að hægt væri að fara heiman og heim um 260 km veg og standa við í 7 tíma á ákvörðunarstað.

Við vorum alls 14: prestshjónin á Æsustöðum, Eiríksstaðafeðgar, Mundi í Austurhlíð, Leifi á Barkarstöðum, pabbi og mamma, Nonni og Sigga, við Mundi og Anna og Kiddi sem ók bílnum. Ferðalagið gekk mjög vel og kom aldrei neitt fyrir til tafar. Veðrið var líka eins og best gat verið, kyrrt og hlýtt, en sólskinslítið. Jarðarförin var ekki fjölmenn á okkar mæli-kvarða hér, en þarna er mikið fámenni í nágrenninu og miðað við það hefur fólkið sjálfsagt verið allmargt.

Heima í Dalsmynni var flutt bæn, en síðan haldið til kirkjustaðarins, Rauðamels, sem er skammt frá. Í kirkjunni töluðu báðir prestarnir, sr. Þorsteinn L. Jónsson og séra Gunnar. Við sungum sérstaklega tvö lög og Mundi á Eiríksstöðum söng Lýs milda ljós en að öðru leyti var söngurinn sameiginlegur. Ég held að báðum prestunum hafi tekist mjög vel í ræðum sínum og þó einkum séra Gunnari en undantekningarlítið eru líkræður hans þær bestu sem ég heyri. Þessi kveðja hans frá Norðurlandi var sérstaklega áhrifamikil og sönn."

Þau 14 sem fóru vestur:
2 Hjónin Tryggvi og Guðrún í Tungu
2 Synir þeirra Jónas og Guðmundur, faðir litla frændans
2 Ungu hjónin Sigríður Ólafsdóttir og Jón Tryggvason
2 Anna Tryggvadóttir & Kristján bílstjóri maður hennar
2 sr. Gunnar og Sigríður Stefánsdóttir á Æsustöðum
2 Guðm. Jósafatsson í Austurhlíð og Þorleifur í Hvammi(þá ógiftur á Barkarstöðum)
2 Guðm. Sigfússon Eiríksstöðum og Óskar Eyvindur sonur hans, rétt orðinn 16 ára en tónvís eins og móðurbræður hans, fyrstu söngstjórar karlakórsins – sem og föðurfrændur hans.

Fáorð frásögn og skýr, 20 tíma ferð, þó tæplega – sláttur hefst daginn eftir heimkomuna, sumargestir að koma og fara, eins og dagbókin segir okkur frá:

9. júlí Kemur Stefán Sveinsson

11. júlí ferming í Bergsstaðakirkju, Hilmar á Leifsstöðum og Sigfús á Eiríksstöðum, 16 ára kaupakona kom frá Akureyri kemur að Tungu.

14. júlí Kemur Klemens Þorleifsson

16. júlí Steypt í mótin í Austurhlíð, íbúðarhús í byggingu.

22. júlí Kemur Sigurjón í Hólum negldi ofan á 500 bursta.         

25. júlí Fjórtándi sunnudagurinn: Allir voru heima í dag og var þó nóg um skemmtanir hér í nágrenninu. Varmahlíðarhátíðin fór fram í dag, kappreiðar á Blönduósi og vígsla sundlaugarinnar á Skagaströnd. Um síðustu helgi var fjölsótt samkoma með kappreiðar á Vallabökkunum.

30. júlí Hermann Stefánsson menntaskólakennari á Akureyri, formaður Heklusambandsins kom hér í gærkveldi Hann var á norðurleið og datt í hug að heilsa upp á kunningjana. Hann gisti hjá Nonna í nótt(í Ártúnum nýbyggðum bæ og enn nafnlausum) og í dag ætlaði Nonni að skreppa með honum á jeppa hér fram í dalina.

1. ágúst Fimmtándi sunnudagur í sumri. Hinn árlegi fundur fjallskilastjóranna var haldinn í Ytrakotinu í dag. Talsvert hefur komið af fólki í dag, milli 10 og 20 manns en það er raunar ekki meir en oft gerist á sunnudögum að sumrinu(þangað heim að Finnstungu).

3. ágúst Í dag voru dregnir inn um 170 hestar af heyi. Var fjóshlaðan alveg fyllt í bili og svo hesthúshlaðan suður og upp, en einnig látið talsvert í báðar hinar hlöðurnar og Ingi(Guðnason) setti upp fúlgu austan við fjósið. Í dag var ég aftur á gamla staðnum mínum í tóft og hlöðu og er hálfslæptur í kvöld, en það var gaman að koma í heyið.

Fleiri heimildir og myndir:

Ættir Austur-Húnvetninga Reykjavík 1999

Fjölskyldan í Dalsmynni um 1953, systurnar Ástdís og Svava Svandís standa fyrir framan Eygló stóru systur, en Svanur í Dalsmynni 2ja ára er fremstur í flokki. Margrét húsfreyja stendur undir klukkunni með Kristján á handleggnum, bræðurnir Reynir og Ágúst framan við hana, en Margrét Svanheiður f. í ág.´48 framan við bræðurna: http://93.95.78.9/index.php/13488d-fjolskylda-gudmundar-gudmundssonar-i-dalsmynni

Myndir af Jónasi Tryggvasyni í Héraðsskjalasafninu: http://93.95.78.9/index.php/informationobject/browse?topLod=0&sort=relevance&query=j%C3%B3nas+tryggvason&repos=

Stökuspjall af Jónasi Tryggvasyni: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=12568

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið